Kæri lesandi, ég hef horft mikið á sjónvarp að undanförnu. Af óviðráðanlegum ástæðum (fótbrot) hef ég þurft að eyða óhóflega miklum tíma í sófanum og rúminu heima hjá mér (til skiptis, ekki á sama tíma) og því hef ég í fyrsta skipti í ansi langan tíma þurft að reiða mig á imbakassann til að stytta mér stundir. Stundirnar eru nefnilega margar þegar brotinn maður má ekkert gera.

Ég er mikill lesari, sannkallaður lestrarhestur, og hef oft tautað hálfum hljóðum að ef ég hefði nú bara endalausan frítíma gæti ég lesið allar ólesnu bækurnar í hillunni og á náttborðinu. Fáir draumórar hafa virst jafn kræsilegir og sá þar sem ég þarf ekkert annað að gera, get bara vaknað og lesið þar til ég sofna aftur. Góður draumur, ekki satt? Nema, það kom á daginn nú þegar ég hafði endalausan frítíma í tvo mánuði að ég las ekkert meira en ég er vanur. Lestur er iðja sem útheimtir ákveðið magn af heilaorku og sú orka er takmörkuð, hvort sem ég hef klukkutíma á dag til að lesa eða fjórtán klukkutíma.

Þannig að ég las ekkert mikið meira en ég er vanur. Þess í stað leitaði ég á náðir míns gamla vinar, sjónvarpsins, þar sem allar dyr standa mér opnar. Ég drakk í mig fleiri, fleiri seríur af góðu sjónarpsefni sem ég hafði ekki haft tíma til að tékka á. Og nú þegar ég er kominn á fætur og jafnvel á stjá á nýjan leik spyr ég mig hvort allt glápið hafi verið þess virði. Hvort það hafi skilað einhverju, utan þess að hafa eðlilega haldið geðheilsu minni uppi eins og valtur, þrífættur stóll í tvo mánuði. Ég horfði á ansi magnað efni, mikið af frábærum þáttaröðum og svo tók ég stöku kvikmyndahámhorf (sérlega eftirminnilegur er Jason Bourne-dagurinn mikli seint í september).

Skildi þetta eitthvað eftir sig? Oft hef ég lesið bækur sem hafa hreinlega breytt sýn minni á heiminn, haft áhrif á hvernig mér líður almennt eða hvernig ég haga tilveru minni. Höfðu eitthvað af þessum frábæru sjónvarpsþáttum svipuð áhrif? Ég veit það ekki. Kannski þarna ein serían um að ríka fólkið hafi líka tilfinningar, en annars á ég stundum erfitt með að rifja upp allt sem ég horfði á í brælunni.

Ég hef komist að niðurstöðu. Sjónvarpið er bókinni óæðri miðill. Og hana nú. Ég styð þá tilgátu mína með heilum tveimur mánuðum af rannsóknum, þar sem bækurnar sem ég las sitja miklu meira í mér en hið margfalt meira sjónarpsefni sem ég innbyrti.


Þetta er Aukalíf. Árið 2019 hefur reynst mér skrítið. Eftir að hafa skrifað daglega í mörg ár, fyrst sem ofurvirkur bloggari og síðar útgefinn rithöfundur, þá tókst mér að skauta út af svellinu í upphafi árs og vegna ýmissa aðstæðna (takk fyrir ekkert, árið 2019) skrifaði ég ekki bókstaf í næstum því níu mánuði. En, skautarnir eru komnir á svellið á ný og ég eyk hraðann, varlega en eitthvað þó. Þetta blogg er nýtt af nálinni, þetta hér er fyrsta færslan af vonandi mörgum (þótt ég hafi lært af biturri reynslu að setja mér ekki markmið á opinberum vettvangi, blogg eiga það til að endast ekki) og stefnan er að endurnýja tengslin við blogghliðina á sjálfum mér. Skrifandi mönnum er best að batna! … eða eitthvað.

Þar til næst.