Kæri lesandi,

ég hef verið að hugsa um tímann nýverið, með öðrum hætti en venjulega. Jólabókaflóðið er hafið og fyrir hálfum mánuði drakk ég í mig fyrstu bókina, Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ. Hún er frábær og breytti eiginlega hugsanagangi mínum um tímann.

Önnur bók sem ég er að lesa með hléum (sem ég geri iðulega með bækur sem mér þykja sérstakt konfekt) er The Overstory eftir Richard Powers. Hún fjallar um tré, um fólk og tré, um áhrif trjáa á líf fólks, og um ákveðna vitundarvakningu sömu persóna í garð trjánna í lífi sínu.

Ef ég hræri saman þeim áhrifum sem þessar tvær bækur hafa haft á mig – þema þeirra beggja um tímann og náttúruna kannski það sama þótt þær nálgist það úr sitt hvorri áttinni – þá má vissulega segja að ég líti tímann öðrum augum. Ég hugsa til baka, rifja upp sumrin sem ég hljóp um æskustöðvar mínar, eða stundirnar sem ég átti með ömmu og afa. Það var tími sem ég naut, tími sem ég áttaði mig ekki á að tæki enda, tími sem ég gæfi mikið til að fá aftur. Þegar ég hugsa um þessar stundir, þennan tíma, finnst mér eins og ég geti nánast teygt fingurna og snert þessar stundir. Ég heyri raddir þeirra ennþá, finn lyktina heima hjá þeim, man áferðina í sófanum og malið í hundinum þeirra. Þetta er svo nálægt mér, en samt að eilífu glatað.

Í sumar fór ég til Ítalíu með fjölskyldunni. Sú ferð var frábær og ég veit að ég mun meta hana ævilangt. Ég get lokað augunum og fundið lyktina í húsinu okkar í Umbria-héraði, hlustað á viftuna við rúmgaflinn eða suðið í skordýrum úti á verönd. Ég finn hvíta mölina undir fæti, sé trén í fjallshlíðinni, klaustrið við tindinn. Þetta er svo nálægt mér, en samt að eilífu glatað.


Nýlega hitti ég vin á kaffihúsi. Við hittumst reglulega, ekki oft en stundum. Fundir okkar eru dýrmætir. Það er í sjálfu sér ekkert mælanlegt virði í slíkum stundum, ég lærði ekkert í þetta skiptið sem ég get notað í daglegu lífi eða við störf mín, og ekki varð ég ríkari eftir að hafa borgað fyrir heimsins dýrasta bolla af heitu súkkulaði. En þetta var engu að síður ómetanlegt.

Gjaldmiðillinn sem vinir versla með er tími. Tíminn er dýrmætur, og að hittast og eiga tíma saman er ómetanlegt. Við spjölluðum, hlógum, skemmtum okkur og deildum sögum úr lífi okkar.

Stundum finnst mér fólk ekki kunna að meta tíma. Okkur liggur alltaf á. Tíminn er peningar, tíminn skiptir öllu máli, tíminn er blah blah blah.

Tíminn er bara tími. Hann er dýrmætur á sínum eigin forsendum. Við ættum oftar að gefa tíma. Gefa okkur sjálfum tíma, og öðrum. Hann er það besta sem við getum gefið.

Þar til næst.