charade
/ʃəˈrɑːd/
noun: charade; plural noun: charades
an absurd pretence intended to create a pleasant or respectable appearance.
Kæri lesandi,
ég hef verið að horfa á svolítið af gömlum noir-myndum, bæði til að drepa tímann, sem er auðvitað í mótsögn við pistil gærdagsins, en líka í fræðsluskyni. Charade með Cary Grant og Audrey Hepburn, The Verdict með Paul Newman, Strangers on a Train eftir skáldsögu Patriciu Highsmith. Raymond Carver skrifaði einmitt handritsaðlögunina fyrir þá síðastnefndu, og komu þar saman tvö af þungavigtarnöfnum noir-bókmennta í eina sæng, Carver og Highsmith.
Raunar hef ég einnig verið að spá í að lesa Highsmith, eitthvað sem ég hef tafsað við allt of lengi. Ég er alltaf að hugsa um þemu fyrir næsta lestrarár; í fyrra las ég til dæmis eins mikið og ég gat af konum frá öðrum löndum en UK/USA/Íslandi, og í ár hef ég reynt að lesa eins mikið af glæpasögum og ég get. Kannski er of mikið að ætla að taka noir-þema á næsta ári eftir glæpaþemað í ár. Sjáum til.
Allavega, noir-myndir frá þeim tíma þegar Hollywood hafði hvorki tækni né þekkingu til að taka upp mikinn hasar, eins og t.d. bílaeltingaleiki eða slagsmál um borð í flugvélum, þess háttar sem við tökum sem gefnu í hasarmyndum samtímans, gömlu noir-myndirnar urðu að reiða sig á annars konar drama, svo sem áhugaverðar fléttur og óvænt málalok. (Þetta var eitt stykki löng setning.) Það er fín tilbreyting að horfa á slíkar myndir, stundum, ekki síst þegar maður er orðinn þreyttur á nútímahasar.
Í gær nefndi ég aðeins vinahitting. Í göngutúr í gærkvöldi hugsaði ég þetta aðeins lengra og spurði mig: af hverju fer maður alltaf að efast um sig eftir slíkan hitting, eða framkomu almennt? Mér hættir alltaf til að fara ofan í saumana á öllu sem gerðist. Sagði ég of mikið? Var ég óðamála? Er ég leiðinlegur? Er allt mitt líf eintómt charade, tómt látbragð?
Ég hugsa allt of oft á þessum nótum. Svo man ég að fólk hringir í mig aftur, hefur samband, sækist í félagsskap við mig. Vinir mínir vilja meira af mér. Þannig að líklega er maður bara að kvelja sjálfan sig. Ég segi mér líka að það hugsi örugglega flestir svona, þetta sé eðlilegt, og þá líður mér betur. Ég hóf göngutúrinn í gær með þessa byrði á bakinu en þegar ég kom aftur heim var ég léttari, byrðin var farin og ég var farinn að hugsa um fótbolta í staðinn.
Þar til næst.