Kæri lesandi,

í vikunni var mikið í fréttum viðtal sem Barack Obama veitti á dögunum. Þar lét hann falla ummæli um hinn svokallaða ‘woke’-kúltúr sem tröllríður öllu á netinu og víðar í dag. Hann sagði, í mjög stuttu máli, að það væri hvimleitt að fólk léti sér nægja að vera með hávaða út í persónur eða málefni á netinu og gerði ekkert meira. Hann sagði að það væri ekki aktívismi að úthúða einhverjum á netinu fyrir einhver ummæli, í stað þess að vinna einhverja alvöru vinnu í átt að breytingum. Ég umorða, en þetta var svona grunnurinn að rökum hans.

Í kjölfarið fór allt af stað. Eins og alltaf. Fólk skiptist í tvær fylkingar, eins og alltaf. Obama er cancelled, eða Obama hefur hárrétt fyrir sér. Hávaðinn náði einhvers konar hámarki, og svo dó hann smám saman út, eða öllu heldur safnaðist saman í kringum annað málefni eða aðra persónu.

Ég er svo sem sammála B.O. Þetta hefur verið kallað slaktívismi (slacktivism á ensku), það er að æpa yfir einhverju í statusum á Facebook og Twitter en gera aldrei neitt af alvöru í málinu. Ef þú skrifar tíu tíst um hungursneyðina í Jemen hefurðu ekki breytt neinu, bara bætt við hávaða. Ef þú hins vegar býðst til að hjálpa hjá Rauða Krossinum og gerist heimsforeldri eða styrkir safnanir … það eru alvöru skref í átt að breytingum. Og auðvitað er hægt að gera meira. En að skrifa status um málið á Facebook er minna en ekki neitt, ef ekkert meira fylgir því.

Auðvitað er fíll í herberginu hjá B.O., samt. Sá fíll er auðvitað „me too“-loðfíllinn sjálfur sem hefur litað nær alla umræðu síðustu 2-3 árin. Og ég viðurkenni að ég á alltaf svolítið erfitt með að sjá karlmenn stíga fram og gagnrýna Umræðuna þegar þeir hafa kannski ekki tekið þátt í að stíga fram og fordæma feðraveldið þar áður. „Já sko, ég hef setið þögull hjá á meðan konur börðust fyrir jafnrétti en nú finnst mér þær ekki vera að framkvæma baráttuna aaaaalveg rétt og þá verð ég að segja eitthvað. Það þarf jú karlmann til að leiðbeina konum í byltingarmálum.“

Ég er ósanngjarn við B.O. og fleiri, er það ekki? Ég hef sjálfur oft hugsað með mér að ég hefði nú ekki gert hlutina eins og [insert nafn femínista] gerði þá í það skiptið, en hef látið vera að gagnrýna það á netinu af því að;

a) ég hef heldur ekki tekið virkan þátt í baráttunni sjálfri, og finnst því klént ef ég myndi taka að mér að gagnrýna hana, hafandi þagað fram að því,

b) ég vill síst af öllu bæta í helvítis hávaðann á samfélagsmiðlum, þann sem B.O. talaði réttilega um.

Þessi málefni eru flókin. Það er rosalega mikið grátt svæði. Við erum sem samfélag að tala um hluti, í fyrsta skipti hreinlega, fyrir opnum tjöldum, hluti sem hafa alltaf verið þaggaðir í hel af því að það er feðraveldinu til góða. En það er erfitt að stíga til jarðar í slíkri umræðu, þegar þú ert að setja fótsporin þín þar sem engir hafa áður gengið. Og stundum hleypur fólk á sig, stundum gengur byltingin of langt. En það er ekki þar með sagt að byltingin eigi ekki rétt á sér.

Ég er sammála B.O. að því leytinu til að við verðum sem samfélag að gera eitthvað við þessum hávaða á netinu. Það er ekki bara búið að eitra brunninn, það er búið að eitra heilu úthöfin með hávaða og röngum upplýsingum og slæmri trú. En á sama tíma er ég ekki viss um að það séu rétt viðbrögð við byltingu að biðja aðgerðarsinna um að hafa aðeins lægra svo ég geti horft á endursýningar af Seinfeld í friði.

Þar til næst.