Kæri lesandi,
ég er að spá í að fara að ganga með litla glósubók á mér hvert sem ég fer. Ég gerði það í mörg ár en gafst hálfpartinn upp á því fyrir 2-3 árum. Nýlega hefur löngunin hins vegar snúið aftur, fyrst þegar ég horfði á fyrirlestur á netinu þar sem rithöfundurinn og grínistinn David Sedaris talaði um mikilvægi þess að skrá allt niður jafnóðum og svo aftur þegar ég las í gær góða grein um ritstíflu þar sem greinarhöfundur mælir einnig með þessu ráði. Ritari vísar bæði í Sedaris og Kendrick Lamar sem dæmi um iðna glósara, og þar sem ég hef miklar mætur á þeim báðum finnst mér ég nú hafa öðlast næga hvatningu til að lauma einni af litlu stílabókunum aftur í rassvasann áður en ég fer næst út úr húsi.
Gærkvöldið var annars gott. Ég hitti pabba og bræður mína, við fórum í miðbæinn til að skemmta okkur saman. Gengum um Grandann í góðu veðri, borðuðum frábæran mat á kósý litlum stað (The Coocoo’s Nest, mæli með) og skelltum okkur svo í hámenningarlegt bíó á Motherless Brooklyn. Sú mynd er byggð á frægri skáldsögu Jonathan Lethem en handrit, leikstjórn og aðalhlutverk myndarinnar eru öll í höndum hins frábæra Edward Norton. Myndin er … mjög góð. Full löng og okkur fannst endirinn heldur snubbóttur, en annars nær hún fínu flugi á köflum og viðstaddir skemmtu sér. Ekki skemmir að tónlist myndarinnar er samin af meistara Thom Yorke með frábærum árangri. Við herrar stórfjölskyldunnar skemmtum okkur bara vel í móðurleysinu.
Nú sit ég og sötra kælidrykk á laugardagsmorgni og hlusta á The Amazons, unga breska sveit sem sannfærir mig um að rokkið er svo sannarlega ekki dautt. Mér finnst líklegt að ég horfi á eins og einn fótboltaleik í dag, og svo var ég búinn að lofa eldri dóttur minni að fara með hana í bókabúð þar sem hana vantar lesefni. Það gæti reynst dýrt, eins og flestar heimsóknir í bókabúðir. En fyrst ætla ég að klára sopann og plötuna og svo ætla ég að setjast með yngri dóttur minni og láta hana æfa sig í að lesa. Hún er að læra, svo þegar hún er orðin flugfær fer ég með hana í bókabúðina og eyði meiri peningum.
Þar til næst.