Kæri lesandi,

í dag sá ég eina af þessum reglulegu greinum um álitlegustu piparsveina landsins. Eins og venjulega voru þeir allir yfir fertugu og allt karlmenn sem hafa annað hvort flosnað upp úr minnst einu hjónabandi eða aldrei verið við kvenmann kenndir. Eru þetta mennirnir sem þykja álitlegastir? Miðaldra karlmenn sem virðast af einni eða annarri ástæðu ekki kunna á samskipti við hitt kynið? Af hverju eru þetta mennirnir sem konur eiga að telja álitlegustu kostina?


Í dag horfði ég með öðru auganu á knattspyrnuleik og sá hrikalegt fótbrot. Greyið Andre Gomes, miðjumaður Everton, lá í grasinu með ökklann hangandi næstum öfugan fram af sköflungnum. Leikmenn á vellinum kúguðust, Son Heung-Min sem átti tæklinguna sem orsakaði brotið brotnaði sjálfur niður og grét. Ég sýndi engin viðbrögð, átti ekkert erfitt með að horfa á þetta á 55 tommu sjónvarpinu hér heima. Yppti svo öxlum og fór að útbúa kvöldmat. Það er mögulegt að ég sé orðinn ónæmur fyrir íþróttameiðslum. Maður hefur séð allt nú orðið.


Þegar „við“ hugsum um endurlit okkar reynum við alltaf að rifja upp atburði sem mörkuðu lífshlaup okkar. Samt eru það ekki atburðir heldur augnablik sem skapa minningar. Ég man ekki alla fæðingu frumburðar míns, en ég man ljóslifandi svona 2-3 augnablik sem saman mynda minninguna þegar ég hugsa til baka. Á móti man ég til dæmis nánast ekkert frá útskriftardögunum mínum þremur, eða fermingunni minni, þótt það séu stórir atburðir í lífshlaupi mínu. Atburðir verða ekki að minningum nema þeir innihaldi augnablik sem tengjast okkur tilfinningalega. Tilfinningarnar varna því að atburðir falli í gleymsku.


„Police in the United States has a policy; they consider a hostage situation to be a murder in slow motion, and act accordingly.“ – Ég stóð við það sem ég skrifaði í gær, sótti litlu glósubókina mína ofan í skúffu og stakk henni aftur í vasann. Ég hef bætt aðeins í hana í gær og í dag, en ég blaðaði líka aðeins í henni og rakst á misgáfulegar glósur. Þetta er ein af þeim sem er mjög merkileg en ég man ekkert hvers vegna ég skrifaði þetta niður. Sennilega hef ég verið að gæla við einhvers konar mannránssöguþráð sem aldrei varð neitt úr. Ég man það ekki! Ég hlýt að vera einn af þessum miðaldra körlum sem eru farnir að gleyma. Ég þætti sennilega jafnvel álitlegur, nema að mér hefur ekki (enn) tekist að klúðra hjónabandinu mínu.


Ég ætla að skíra þessa færslu „Hugsanir“ svo að hún virðist merkilegri en hún er.

Þar til næst.