Kæri lesandi,

fólk er mikið að ræða um hið meinta áróðursstríð gegn milljarðamæringum. Téð fólk vill jafnvel meina að sótsvartur almúginn vilji helst draga hina farsælustu á torg og hengja þau í hrönnum, fyrir þann eina „glæp“ að hafa staðið sig vel á sviði viðskipta. Þetta sama fólk sakar almúgann um að dreyma um heim þar sem hinir eignameiri hafa verið dregnir í svaðið til hinna sótsvörtu, af því að enginn megi eiga peninga.

Kæri lesandi, það er skemmst frá því að segja að þetta er þreytt umræða. Og vitlaus er hún líka, o sei sei já. Eins og alltaf skiptir fólk sér í lið eftir öfgum, eins og einu tveir valkostirnir séu að allir séu neyddir til að skrimta á lágmarkslaunum eða að markaðurinn sé alveg frjáls til misnotkunar þeirra sem eru í stöðu til að hagnast sem mest. Annað hvort leyfum við einu prósenti að eiga meira en hin 99 prósentin til samans eða þá að enginn má eiga neitt.

Svarið liggur auðvitað þarna á milli. Það sjá allir, það hlýtur að vera, og vandinn er þá frekar sá að fólk er of óheiðarlegt til að viðurkenna hversu augljós lausnin er. Lausnin er að sjálfsögðu sú að banna milljarðamæringa. Þú mátt eignast 999 milljónir, en ekki þúsund milljónir eða meira. Ríkasti maður heims í dag, Jeff Bezos, er metinn á um 108 þúsund milljónir. 108 milljarða. Það eru 108.000.000.000 dollara, eða um 13 milljónir og 386 þúsund milljónir. Hann á sem sagt 13 billjónir króna.

Þessar tölur eru ekki bara stjarnfræðilegar, þær eru svívirðilegar. Skítt með fréttir af því hvernig komið er fram við starfsfólk hans hjá Amazon. Fólk sveltur í heiminum á meðan einn maður á meiri peninga í bankanum en íslenska ríkið mun velta á allri minni ævi.

Hann hefur staðið sig frábærlega. Amazon var hans hugmynd, hann lagði hart að sér og uppskar eftir því. Hann á skilið að vera moldríkur. En í alvöru, 999 milljónir dollara væru nóg. Hann þarf ekki hinar 107 þúsund milljónirnar. Ef þú tekur næstu hundrað manns á lista yfir þá ríkustu í heimi, eða brotabrot af hinu svokallaða eina prósenti, og létir þá (nær allt karlmenn) skila tafarlaust öllu umfram einn milljarð dollara, þá myndi þar safnast í einu vetfangi nægilegt fé til að leysa öll heimsins vandamál. Og enginn þessara auðkýfinga yrði var við neitt, því milljarður dollara eru mikið meira en nóg til að halda áfram að lifa í vellystingum.

En nei. Umræðan heldur áfram. „Bara einn milljarð?“ hrópa einhverjir á torgi, eins og ég hafi verið að stinga upp á því að Bezos verði hengdur fyrir velgengnina. Og ekkert breytist.

Það var ágætt að koma þessu frá mér. Tuð dagsins, skulum við kalla þetta. Nú get ég klárað restina af deginum mínum með bros á vör, enda tilheyri ég líklega svona ríkustu 10% heimsins (á fasteign, bifreiðar, sparifé) og hef því efni á að brosa.

Þar til næst.