Kæri lesandi,

síðustu tvær færslur innihéldu ansi margar skoðanir. Eflaust misgáfulegar. Það kemur á daginn, svona þegar ég sest reglulega við lyklaborð, að ég er ansi skoðanaglaður. Til að jafna þetta aðeins út kemur hér eitthvað öllu persónulegra.

Ég fótbrotnaði í ágúst. Hoppaði upp og þegar ég lenti brotnaði bein í ristinni á hægri fæti. Við tóku tveir langir mánuðir þar sem ég mátti ekkert stíga í fótinn. Sófinn, rúmið eða hægindastóll, alltaf með löppina upp í loft. Hoppandi um á verri fætinum (ó, slíkt jafnvægisleysi!) eða staulagangur á hækjum. Læknar höfðu áhyggjur af því að beinið væri ekkert að gróa, svo að þeir ráku mig úr gifsinu eftir tvo mánuði og sögðu mér að fara að hreyfa mig.

Ég mátti samt ekkert gera, þannig. Listinn yfir það sem var bannað reyndist langur. Ég mátti fara í sund, en engin sundtök. Ég mátti ekki fara í ræktina. Endilega stíga í fótinn, en enga göngutúra. Og svo framvegis. Þetta var flókið, en eftir tveggja mánaða setu/legu (og líkamlegt atgervi eftir því) varð ég að gera eitthvað.

Þannig að ég dansaði. Í hvert sinn sem ég var einn einhvers staðar (eða, þið vitið, aðallega heima hjá mér) þá sleppti ég hækjunum, kveikti á tónlist og dansaði. Það veitti mér gleði, fyrir það fyrsta, auk þess að styrkja mig. Ég gat staðið kyrr á báðum fótum og dillað mér, eða lyft þeirri hægri og hrist mig í takt við tónlistina. Og smám saman fór ég að geta gengið um hækjulaus, svona þegar vöðvarnir í fætinum jöfnuðu sig á hreyfingarleysinu.

Nú er mánuður síðan ég losnaði úr gifsinu. Í myndatöku fyrir tíu dögum reyndist beinið að mestu gróið, ég geng án þess að stinga við eða haltra, ég er farinn að fara í göngutúra og gera litlar æfingar heima hjá mér. Bráðum má ég reyna sundtökin, og vonandi kemst ég í ræktina fyrir jólin.

Dansinn bjargaði ansi miklu. Um tíma leið mér eins og ég væri að fremja einhvern danse macabre, sjálfan dauðadansinn, standandi eins og illa gerður hlutur með annan fótinn hálfpartinn á lofti og annkáralegar hreyfingar. Þetta virkaði samt. Ég dansaði líf í sjálfan mig. Þetta lyfti mér andlega, og kom blóðinu á hreyfingu sem ég er sannfærður um að hafi valdið því að beinið hóf loks að gróa. Ég sagði lækninum það líka þegar hann spurði hvort ég væri búinn að vera duglegur að hreyfa mig. „Ég dansa,“ sagði ég og brosti eins og bjáni þegar hann leit hissa á mig.

Nú þarf ég dansinn ekkert endilega lengur, en ég get samt ekki hætt. Í morgun dansaði ég í sturtunni, aftur fyrir kvöldmat í eldhúsinu og í kvöld hef ég dansað í rúmlega klukkustund eftir að fjölskyldan (A-týpur) fór að sofa og ég (B-týpa) var skilinn eftir einn frammi.

Ég var ansi langt niðri í byrjun ágúst þar sem ég sat í sófanum og starði á glænýtt gifsið. Mér fannst eins og þetta gæti verið upphafið af einhverju löngu ferli, sá fyrir mér að ég gæti hæglega hafa eyðilagt á mér fótinn og væri nú orðinn einn af mörgum sem eiga við þráláta verki og meiðsli að stríða. Að ég yrði aldrei samur á ný. En svo gerðist eitthvað óvænt. Ég fór að dansa. Og dansinn bjargaði mér. Þannig að ef eitthvað bjátar á í lífi ykkar, þá hef ég ráð fyrir ykkur: dansiði á meðan þið getið það, dansiði!

Þar til næst.