Kæri lesandi,
við þekkjum þetta atriði vel. Spjallþáttur í sjónvarpinu. Þáttastjórnandinn er að ræða Málefnin. Hann eða hún fær Fólkið í heimsókn. Flotta Fólkið. Þau fara í Leiki. Einhverjir spila Tónlist, aðrir segja skemmtilegar Sögur. Áhorfendur klappa og hlæja og dansa og klappa aðeins meira. Svo er sýnd stikla úr nýrri Kvikmynd. Einn af öðrum hverfa gestirnir loks af sviðinu og þáttastjórnandinn kemur með óvænta tilkynningu: þið, gestir í sal, fáið Alls Konar Dót!
Allt verður vitlaust. Myndavélarnar svífa á löngum bómum yfir skarann á meðan hann titrar af óvæntri ánægju. Raðfullnægingarnar skella á andlitum viðstaddra eins og snjóflóð. Dót. Þau fá Dót! Svo hefst kynningin. Stafrænar myndavélar, rakatæki, sérofin handklæði, þráðlaus heyrnartól og fleira í þeim dúr. Allt nytsamlegt, ekkert nauðsynlegt. Og áfram gargar skarinn af frygð og hamingju. Konur tárast, karlar hlæja, allir faðmast.
Allar þessar vörur. Fólkið sem kemur í þáttinn er að auglýsa vörurnar sínar. Sjáiði stikluna úr myndinni sem ég leik í! Hlustið á lag af plötunni minni! Og svo dót frá styrktaraðilum þáttarins! Aldrei hætta að leyfa okkur að selja ykkur vörur! Allt er til sölu!
Ég man þegar ég var ungur. Það var á síðustu öld. Þá var það helsti leikurinn í íslensku sjónvarpi að heppnir aðilar fengu að hlaupa með innkaupakerru í gegnum kjörbúð eða stórverslun og raða ofan í kerruna eins miklu og þau komust yfir á einni mínútu. Allt sem þú náðir að setja í kerruna, það máttirðu eiga. Þetta var nytsamlegt, og leikurinn skemmtilegur. Fólk setti alls konar undarlegt í kerruna undir pressu. Sumir sneru til baka með fulla kerru af dósamat sem þau viðurkenndu svo að tæki fjölskyldu þeirra áratug að klára. Aðrir fóru beint í kjötborðið án þess að hugsa um hvenær vöðvarnir rynnu út. Einhverjir reyndu að komast yfir alla fæðuflokkana, því fólki farnaðist yfirleitt verr. Of mikil vegalengd á svo skömmum tíma. En þetta fólk fékk gefins mat, eitthvað sem allir geta notað.
Ég man þegar ég varð aðeins eldri, en þó yngri en nú. Þá sá ég myndaseríu frá fjölskyldum víðs vegar úr heiminum. Ljósmyndarinn hafði stillt fjölskyldunum upp fyrir framan borð, og á borðinu var síðan hérumbil það magn af mat sem fjölskyldan áætlaði að þau borðuðu á einu ári. Sumar fjölskyldur voru með lítið fjall af grjónum, aðrar með meira af þrúgum og ávöxtum, og svo framvegis. Svo komu fjölskyldurnar frá löndunum í kringum okkur. Þau voru ekki með matinn á borði heldur náði staflinn frá gólfinu og svo hátt upp að aðeins andlit föðursins var sýnilegt fyrir ofan staflann. Ein fjölskylda bandarísk, önnur ensk, sú þriðja dönsk ef ég man rétt. Allar með langtum stærri stafla en aðrar þjóðir. Og staflarnir samanstóðu að miklu leyti af unnum matvörum, allt vakúmpakkað eða í lausu plasti. Minna af ávöxtum og grænmeti, miklu meira af kjöti og brauði og sykri. Úff, allur sykurinn. Og plastið. Plast, plast, plast. Rotvarnarefni í hverju grammi, hverjum lítra.
Ég staldra oft við og hugsa um þetta neyslusamfélag sem við búum í á vesturhveli jarðar. Ég trúi því fastlega að eftir svona hundrað ár muni fólk horfa á myndbönd af Ellen og Oprah að gefa vörur, af fólki á hlaupum í gegnum kjörbúðir með tómar körfur og mínútu til stefnu, af kynningum á tölvudóti þar sem væntanlegir neytendur úti í sal úúúa og aaah-a þegar heimsfrægur forstjóri kynnir örlítið betri myndavél á nýja snjallsímanum en þeim sem kom út í fyrra. Fólk mun horfa á þessi myndbönd og komast að þeirri niðurstöðu að þessar kynslóðir okkar hafi þjáðst af einhvers konar stundarbrjálæði. Að við höfum tapað okkur í taumlausri neyslu sem gerði næstum út af við velmegun mannkyns á jörðinni.
Þetta er allt saman frekar klikkað. Við erum öll klikkuð.
Þar til næst.