Kæri lesandi,

í dag fór ég á tvöfalt kaffihús. Fyrst hitti ég mann á kaffihúsi í miðri bókabúð, ég fékk mér heitt súkkulaði og hann kaffi af brúsa meðan við ræddum um skáldsögu. Svo hitti ég par á öðru kaffihúsi við hliðina á annarri bókabúð, þar drakk ég sykurlaust gos úr flösku á meðan við ræddum um þýðingar, erlenda bókaútgáfu og íslenskan jólamat. Þessir fundir voru mér hvatning, gáfu mér fókus sem mig hefur kannski skort að undanförnu og blésu mér í brjóst áræðni. Nú er að grípa þennan heilaga anda á lofti og láta hann endast mér í vinnunni sem er fram undan. Ég er spenntur, þótt ég viti af gefinni reynslu betur en svo að gera mér of miklar vonir. Þetta hefur verið langt ferli og stendur enn yfir, en það er ljóstýra þarna lengst í fjarska.


Í dag kláraði ég tvær bækur. Ég hef verið að hlusta á nýjustu bók John Grisham, The Guardians, og lauk henni í síðdegisumferðinni frá Reykjavík. Grisham er oft góður ef maður er í stuði fyrir lögfræðidrama en í þessari bók, sem er kannski fín en ekkert meira, fannst mér hann allt of væminn og einfaldur. Plottið var ekki trúanlegt, allt morandi í rökleysum og hentugum tilviljunum sem skiluðu svo til átakalausri fléttu. Auk þess var (fyrstu persónu) sögumaður undarlega fjarlægur eigin sögu svo að úr varð frekar ástríðulaus frásögn.

Spes. Ég ætlaði eiginlega að vera aðeins jákvæðari en þetta þar til ég byrjaði að vélrita. Nú sé ég að þessi bók var ekki eins fín og ég hélt þar til fyrir tveimur mínútum. Það er langt síðan ég las John Grisham síðast og eftir þessa bók held ég að það sé langt þar til ég lesi hann aftur. Eða hlusti.


Seinni bókin sem ég kláraði nú rétt áðan heitir Kokkáll og er eftir Dóra DNA. Ég bjóst ekki við að vera svona hrifinn af þessari bók. Það er smá púki í henni, af og til staldraði ég við og hugsaði með mér að hér hefði Dóri ekki staðist mátið að vísa í þetta eða tala um hitt. Samt tel ég það ekki til ókosta, þeir eru í raun undarlega fáir í þessari virkilega vel heppnuðu bók, miðað við að þetta sé fyrsta skáldsaga höfundar. Honum kippir greinilega í skáldakynið og allt það, því þessi bók er bara dúndur, inniheldur svo margar góðar pælingar auk þess sem sagan heldur manni á tánum allt til enda. Ég vissi í raun aldrei hvar ég hafði sögumanninn, hvenær hann myndi kippa fótunum undan mér og um leið allri fléttunni.

Þetta er svona bók sem hefur óþægilega nærveru, af því að það er mikill sannleikur í henni, innan um svertingjatyppin og meToo-pælingarnar og kynhneigðirnar og fórnarlambavæðinguna og allt hitt sem höfundur gat ekki stillt sig um að pota aðeins í. Ég var yfir mig hrifinn af þessari frábæru frumraun.

Eitt, samt. Nú hef ég lesið fimm bækur úr flóði ársins og tvær af þeim eru eftir unga og frábæra karlhöfunda, þá Dóra og Dag Hjartarson. Í bókum þeirra beggja fléttast ansi mikið af sögunni í kringum þá tilhneigingu karla að vera mjög óöruggir um typpastærð sína. Báðar bækurnar innihalda pælingar um karlmennsku árið tvöþúsundognítján, bæði eitraða og allar hinar tegundirnar sem eru í umræðunni, en það er óneitanlega spes að báðir höfundar skuli leggja slíkt vægi við … göndlaöfund? Nei, það er ekki nógu gott orð. Lóköryggi? Nei. Ég þarf að hugsa þetta betur. Það hlýtur að vera til hnyttið orð sem sameinar kynfærið og stærðarþráhyggjuna.

Allavega. Tvær frábærar bækur, og svei mér þá ef bók Herra DNA er ekki með sterkari íslensku skáldsögum sem ég hef lesið í nokkur ár. Næst ætla ég samt að lesa bók eftir konu, bæði af því að það er nauðsynlegt eftir þetta pulsupartý og líka af því að stórskáldið – og frænka Dóra DNA – Auður Jónsdóttir var að gefa út bók sem lítur út fyrir að vera eitthvað konfekt.

Konfekt. Heitt súkkulaði. Súkkulaðisvartir limir. Forpantaðar bækur sendar heim með súkkulaðistykki, eins og fólk fari ekki nær daglega í matvörubúð. Allt þetta nammital hefur valdið mér sykurþörf. Ég held ég eigi negrakossa einhvers staðar uppi í skáp.

Þar til næst.