Kæri lesandi,

í dag fór ég á málstofu í Hörpu. Þetta var vegna sjávarútvegsráðstefnunnar, vinnutengt sem sagt, en ég sat þarna og hlustaði á misáhugaverð erindi manna úr ýmsum áttum innan geirans. Sumt var áhugavert, annað síður, en nær allir framsögumennirnir áttu það sameiginlegt að endurtaka sig, hafa ekki æft framsöguna eða hreinlega vera of stressaðir til að koma þessu vel frá sér.

Seint mun ég skilja af hverju fólk tekur slíkt ekki alvarlegar, æfir það sem það ætlar að segja og mætir almennilega undirbúið. Ef glærurnar sem þú ert að sýna á skjánum tengjast því sem þú ert að tala um ekkert, ef þú gleymir að fletta glærum, ef þú endurtekur þig þar til þú ert orðin(n) óðamála í veikri von um að ná að koma öllu til skila, ef fólkið í salnum er farið að berjast við að halda sér vakandi yfir fimmtán mínútna erindi, og það fyrir hádegi? Þá hefur þér mistekist, það er nú bara þannig.

Innihaldið var betra, þótt umbúðum hefði sumspart verið ábótavant. Ég er samt orðinn svolítið þreyttur á þessum tiltekna geira. Ég hef unnið of lengi við sjávarútveg, hef heyrt þetta allt mörgum sinnum áður. Það er ekkert nýtt undir sólinni.


Nú sit ég heima og skrifa. Gægist öðru hverju upp til að sjá hvaða hausar eru á vappi í kringum mig. Eldri dóttir mín líkist móður sinni stöðugt meira. Hún á stór heyrnartól, þráðlausar skálar sem ná yfir eyrun, skærrauð á lit. Móðir hennar á sams konar, bara hvít á litin, en ég á aðra tegund sem eru svört. Yngri dóttir mín á bleik Hello Kitty-heyrnartól með snúru. Stundum sitjum við öll með heyrnartólin við sama stóra borðið, saman en hvert í sínu lagi. Stundum sitjum við og spilum eða spjöllum saman eða hlæjum að einhverju, enda þróar fólk sem býr undir sama þaki oft með sér keimlíkan húmor, og mér þykir vænt um slíkar stundir. Mér þykir líka vænt um hinar stundirnar, verð ég að segja, þótt oft hugsi ég að það sé ekki hollt fyrir fjölskylduna að sitja svona í hring og hundsa hvert annað.


Konan mín er á leiðinni í bústað yfir helgina. Fer á næsta klukkutímanum, til að geta verið farin áður en yngri dóttir mín kemur heim úr leikskólanum, til að forðast tilfinningatjón og grátur þegar mamma fer úr bænum. Þess í stað mun ég, grasekkillinn sjálfur, sækja dóttur mína í daggæsluna með bros á vör, leiða hana heim og hjálpa henni við heimanámið. Svo pöntum við eflaust pítsu og horfum á einhverja æsispennandi teiknimynd fyrir svefninn. Ég mun skikka eldra barnið til að horfa með okkur, þótt hún þykist vera orðin of gömul og vitur fyrir teiknimyndir. Á morgun verður svo skemmtidagskrá í boði pabbans, því fyrr skal ég hundur heita en að þær gráti utan í móður sinni á sunnudag að helgin með pabba hafi verið leiðinleg.

Markmiðin eru skýr, takmarkinu skal náð. Árangur áfram, ekkert stopp!

Þar til næst.