Kæri lesandi,

það er lægð yfir landinu. Fréttastofur keppast við að sýna okkur hina svokölluðu gulu viðvörun, sem þýðir víst mikið rok og jafnvel snjókomu. Konan mín fór austur fyrir fjall í gær, ég Facetime-aði hana óvart þegar hún og frænka hennar voru uppi á Hellisheiði, umkringdar snjó. Að mér setti uggur. Ég er ekki reiðubúinn í snjóinn. Hann má ekki koma strax til byggða.

Ég á mér málsbætur fyrir þennan aumingjaskap. Ég fótbrotnaði í ágúst (þetta hefur verið brandari á heimilinu – í hvert skipti sem ég er spurður um eitthvað segi ég á móti “Ég fótbrotnaði!” eins og það afsaki hvers vegna ég gleymdi að kaupa brauð í Bónus). Fótbrotsins vegna þarf ég að fara mjög varlega í allan vetur, þótt beinið sé að mestu gróið þá þarf ég ekki að misstíga mig eða renna nema einu sinni og þá gæti það sprottið í sundur á ný. Skiljanlega þarf ég því að passa mig sérstaklega vel í snjó, hálku og (ugh) klaka.

Engan snjó fyrr en eftir áramót, takk. Gefið mér smá séns hérna.


Svo skoðar maður næstu fréttir fyrir neðan gulu viðvörunina á miðlum landsins. Skógareldar geisa í Ástralíu, fólk hefur látið lífið af völdum þeirra. Flóð hér, þurrkar þar, hungursneyð og viðvarandi stríðsástand. Aftur skamma ég sjálfan mig fyrir að væla undan gulu viðvöruninni, snýst svo til varnar og hrópa í hljóði að Ég Fótbrotnaði!


Annars hefur helgin farið vel af stað. Þessar dætur mínar eru yndislegar, það liggur létt fyrir mér að sjá um þær í fjarveru hjarta hússins. Ég er svo sem vanur, ekki misskilja mig hér á netinu kæri lesandi, ég tek auðvitað virkan þátt í uppeldinu, en það er öðruvísi þegar hinn helminginn af heimilisverkalýðnum vantar. Operation Góða Helgi er enn á áætlun og í dag ætlun við á nýju Hvolpasveitarmyndina í bíó. Svo gef ég þeim ís, það bregst aldrei. Ég býst við hárri einkunn frá þeim fyrir þennan laugardag.

Þar til næst.