Kæri lesandi,
í gær stóð ég við gefin loforð og fór með dætur mínar í bíó á Hvolpasveitarmyndina. Í þessari mynd breyttust hvolparnir í eins konar ofurhetjur, fengu ofurkrafta sem entust aðeins tímabundið en þó nógu lengi til að þeir gætu varnað vígahnetti frá því að brotlenda í Ævintýraflóa.
Svo sofnaði ég líka aðeins yfir myndinni, eðlilega, en ég gerði það hugsandi um þennan vígahnött.
Búum við ekki á hálfgerðum vígahnetti? Við gerum lítið annað en að berjast, að ströggla, að hamast við að marka okkur pláss og tryggja okkur tilverurétt, bæði gagnvart hvort öðru og náttúrunni. Þessi pláneta, vígahnötturinn Jörð, er á fleygiferð um sólkerfið og eyðir öllum sínum stundum í að reyna að gera út af við lífið sem þraukar á yfirborðinu. Þegar náttúran sjálf er svona kombatísk, svona ofbeldisfull, er þá að furða nema að við dýrategundirnar séum það líka?
Svona virka boðleiðir hugsana minna. Ég get dottað í kortér yfir Hvolpasveit í bíó á meðan dætur mínar borða kandífloss við hliðina á mér, og vaknað með hausinn fullan af alls konar ofbeldi.
Annars sýnist mér við vera að lifa af þessa gulu viðvörun. Þú náðir okkur ekki í þetta sinn, vígahnöttur! Reyndu betur næst.
Að öðru. Þessa dagana er ég mikið að velta fyrir mér skrifum. Nánar tiltekið, hvað ég eigi að skrifa næst. Það er nokkuð ljóst að ég þarf að hella mér í endurskrif og yfirferð á handriti. Það er tímafreka verkefni þessa misseris, og ég þarf að standa skil á því. Halda áfram að ýta stórgrýtinu, tvö skref á dag, þar til við náum upp fjallið. Og eins og Sisífus þá vona ég að hnullungurinn rúlli ekki niður á ný, að ég sé ekki dæmdur til að streða upp helvítis brekkuna um ókomna tíð.
Á sama tíma langar mig mikið að spreyta mig á esseyjunum sem ég hef verið að plotta og plana í nokkra mánuði núna. Ef ég skipulegg mig vel gæti ég skrifað þær meðfram endurskrifum og yfirferð á hinu. Svo eru það smásögurnar, og svo handritið að næstu skáldsögu. Þessu lýkur aldrei. Lykillinn er að njóta ferlisins. Ég hef svolítið verið að endurlæra þá lexíu í ár.
Það var nú einn tilgangurinn með þessari vefsíðu. Að víkka skrifdeildarhringinn. Endurnýja tengslin við þetta hugsanaflæði sem er svo heillandi og ávanabindandi. Ég skrifa um allt og ekkert hér. Svo vanda ég mig meir og held stífari fókus í önnur skjöl. Það er hægt að lesa þetta streymi mitt núna, nánast í beinni útsendingu á netinu, á meðan hitt bíður mánuðum, misserum og jafnvel árum saman eftir að vera tilbúið til lestrar.
So it goes.
Þar til næst.