Kæri lesandi,

ég sit við borð með drykk og fartölvu og horfi út um glugga. Köttur sefur í gluggakistunni. Þögnin ríkir. Kyrrð.

Þetta eru það sem kallast kjöraðstæður til framleiðni. Viðrar vel til loftárása. Nú get ég sótt að innblæstrinum úr launsátri, króað hann af, tekið hann föngum. Hann á ekki séns. Ég verð innblásinn.

Ég hugsa stundum um allar lexíurnar sem ég hef lært. Í lífinu almennt, en fyrir sakir þessarar færslu skulum við halda okkur við vettvang ritlistar. Ég fór í háskólann og lærði bókmenntafræði, ensku og skapandi skrif. Ekki ritlist, hún var ekki til sem aðalfag þá í Háskólanum, en stefnan var alltaf að skrifa og ég sótti öll skrifandi fög sem buðust. Ritgerðir, já takk. Ég lærði auðvitað helling, háskólamenntaður í bókum, og um leið og ég útskrifaðist gerði ég það sem ég geri alltaf: ég hljóp langt, langt, lengst í burtu frá ritlist og bókmenntafræði. Mér stóð til boða að skrifa langa grein í Lesbók Morgunblaðsins, unna upp úr lokaritgerðinni minni, enda fékk ég fyrstu ágætiseinkunn fyrir hana, og mögulega hefði ég getað spunnið úr henni útgefanlegt rit. Ég var líka með skáldsögu á takteinum en svikaraheilkennið virtist aftra mér frá því að gefa mig allan í þá vinnu. Og því fór sem fór, ég rankaði við mér einhvers staðar langt í burtu, óravegu frá Háskólanum og samfélagi skapandi fólks.

Þetta var fyrir tólf árum, nota bene. Sex árum eftir útskrift rankaði ég við mér þegar ég sá að fyrrum samnemandi auglýsti útgáfu á fimmtu bók sinni. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa þegar ég fór í hófið til hans, stóð eins og fiskur á þurru landi aftast í salnum á meðan hann kynnti verk sitt. Ég heilsaði honum loks og sagðist skammast mín fyrir að hann væri að gefa út bók númer fimm þegar ég væri enn bara með drauma í rassvasanum. Hann stappaði í mig stálinu og ég rauk af stað. Bókstaflega, hálftíma eftir að ég yfirgaf samkvæmi hans sat ég við tölvuna á skrifstofunni og vélritaði það sem reyndist fyrsta uppkast að kafla eitt í minni fyrstu skáldsögu. Við tók tveggja ára ferli af skrifum, endurskrifum, útgáfu og svo … ekkert meira. Bókin kom og fór, ég var reynslunni ríkari, hafði upplifað margt frábært en líka erfiða hluti í kringum útgáfuna.

Nú eru þrjú ár síðan. Í dag eru eitt þúsund eitt hundrað þrjátíu og átta dagar síðan skáldsagan mín kom í verslanir. Ég fæ enn feedback frá lesendum, það kemur fyrir að ég fæ jákvæð skilaboð í tölvuna eða hitti fólk á förnum vegi sem segist hafa lesið og haft gaman af. Ég reyndi allt hvað ég gat til að hlaupa ekki langt, langt, lengst í burtu frá útgáfubransanum þegar ferlinu lauk. Ég reyndi. En … maður breytir eðli sínu ekki svo gjörla. Á ellefu hundruð dögum hefur mér tekist að skrifa og endurskrifa oftar en góðu hófi gegnir handrit að næstu skáldsögu, liggja á því eins og gulleggi þar til fólk er farið að reka á eftir mér að gera eitthvað í þessu. Mér hefur tekist að skrifa hálfkláraðar smásögur, hálfkláraða pistla, hálfkláruð ljóð. Ég hef þurft að horfa framan í fólk þrjú ár í röð, reglulega, og yppa öxlum og segja „ekki enn, en vonandi bráðum“. Fólk sem gefur jafnvel út árlega og hvetur mig áfram, hugsar sér svo kannski að ég sé jafnvel bara ekki að hlusta á það.

Þetta er allt of langur tími, og allt of lítill afrakstur. Ég þvælist bara fyrir sjálfum mér, kominn í svo djúpar ógöngur að ég óttast helst að ég rati ekki aftur út. Lausnin er alltaf sú sama. Setjast niður, opna skjalið og vélrita. Vélrita þangað til ég er með eitthvað heilstætt, og þá er næst að fara yfir það og betrumbæta. Vélrita aftur, meira. En ekki of oft, og ekki of lengi. Verkið er barn síns tíma, og ég burðast um alla daga með verk á öxlunum sem hófst fyrir fjórum árum og er hvergi nærri lokið, komið bráðum á grunnskólaaldur. Kannski lítur það verk dagsins ljós þegar það getur ekið sér sjálft í bókabúðirnar.

Mörgum sinnum á dag hugsa ég með mér að ég ætti bara að henda öllum mínum verkum ofan í læsta skúffu og byrja á einhverju alveg nýju. Skrifa hratt, láta bara vaða, frjáls eins og fuglinn. Og mörgum sinnum á dag minni ég sjálfan mig á hvers konar rugl sú hugmynd er, að ég verði einhvern tímann að klára það sem ég hef lagt í svo mikla vinnu. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Ég geri hvorugt, örvænti í hljóði og kveiki á hljóðbók. Fer í göngutúr. Vaska upp. Sturtu. Og svo er blessunarlega komin nótt og ég get farið að sofa, til þess eins að endurtaka vítahringinn á morgun.

Ekkert af þessu er heilbrigt. Allur þessi sjálfsefi, allur þessi hávaði úr öllum áttum, allt þetta tafs. Það er fólk þarna úti, ekki margir en einhverjir, sem bíða eftir að fá að lesa næstu bók eftir mig, og ég hef ekkert fram að færa. Er gjörsamlega frosinn.


Látum staðar numið. Þessi skrif eru hreinskilin og óvægin. Það er nauðsynlegt að koma slíku frá sér endrum og sinnum, horfast í augu við eigin vankanta, þótt helst vilji ég ekki smita þessa vefbók með tuði eða neikvæðni. Nýlega las ég brot úr dagbókarfærslum Franz Kafka þar sem allur þessi sjálfsefi, sjálfshatur jafnvel, kom bersýnilega í ljós. Hann þjáðist fyrir skrifin, þoldi ekki hvað þetta gekk hægt og illa þar til hann var loksins tilbúinn. Ég las þetta, einhver dæmi um svikaraheilkenni sem gengu á netinu og áttu að hjálpa okkur hinum að líða betur með okkur sjálf, og ég vorkenndi honum. Aumingja Franz, hann vissi ekki hvað í hann sjálfan var spunnið, sá það ekki því hann var of upptekinn við að rífa sjálfan sig niður nánast daglega. Mikið gat hann verið vondur við sjálfan sig. Þetta getur ekki hafa verið gaman.

Þar til næst.