Kæri lesandi,

gærdagurinn var dramatískur. Ég var varla fyrr búinn að sleppa naflaskoðunarpistli mínum í loftið að ég fékk símtal frá pabba. Ömmusystir mín er látin, 92 ára að aldri. Og þar með, eins og hendi væri veifað, voru öll mín vandamál sett í samhengi. Eins og Mark Oliver Everett söng eitt sinn, „life is funny, but not ha ha funny.“

Amma dó fyrir tuttugu og þremur árum. Systir hennar átti alltaf sérstakan stað í hjarta mínu. Ég kallaði hana meira að segja ömmu, eins og ég ætti þrjár. Ég hitti hana reglulega, mér þótti vænt um að sjá hana eiga frábær síðari ár og kreista hvern dropa úr lífinu á þann hátt sem amma fékk ekki tækifæri til. Síðast hitti ég hana fyrir einu og hálfu ári, í fermingu. Þá spurði hún mig út í dætur mínar, dáðist að þeim er þær skoppuðu í kringum okkur. Hún spurði mig hvernig gengi að skrifa, brosti og sagði að ég væri nú alltaf svo áræðinn og skapandi. Þannig var hún, jafnvel þótt maður krefðist einskis af henni gaf hún undir þar til maður sveif.

Það er ekki sami harmleikur þegar fólk á háum aldri deyr. Ég lít það ekki þeim augum, að minnsta kosti. Þess í stað er í huga mér núna þakklæti að hafa kynnst þessari konu, og löngunin til að fagna ævinni sem hún átti. Maður getur vart vonast eftir meiru á einni ævi. Engu að síður verður kveðjan ljúfsár, það veit ég.


Í dag brustu svo allar stíflur. Ég hef unnið hörðum höndum að því sem ég á að vera að vinna hörðum höndum að. Fókusinn er til staðar, mér tókst vissulega að fanga innblásturinn í gær og orðin rata á blað. Þetta er allt í áttina. Ég á eftir tvo slíka daga í vikunni og svo ætla ég einn í bústað um helgina til að hamra járnið allsvakalega á meðan það er heitt.

Lífið heldur áfram. Það stefnir í góða viku. Say it out loud and make it so.

Þar til næst.