Kæri lesandi,

í dag er allt vitlaust. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur varpaði annarri sprengju í samfélagið í gær, einni á stærð við Wintris-þáttinn fræga að minnsta kosti. Svo virðist sem stærsta útgerðarfyrirtæki Íslands, sem ég ætla ekki að nefna hér til að lenda ekki í gúgli um fyrirtækið, hafi notað illa fenginn kvóta til að ná ráðandi markaðsstöðu á fróni, og svo notað þá ráðandi markaðsstöðu og svívirðilegan hagnað í kjölfarið til að arðræna heila, fátæka þjóð á suðurströndum Afríku.

Og í kjölfarið varð allt vitlaust. Ég sá ekki þáttinn í beinni en kíkti á samfélagsmiðla og brá eiginlega. Hávaðinn var engu líkur, fólk skrifaði með ALL CAPS og notaði upphrópunarmerkin!!!!!! óspart. Lýðnum var heitt í hamsi. Mögulega mun fjölmenni safnast saman á Austurvelli og berja á potta með sleifum.

Ég er frekar rólegur. Ég horfði á þáttinn seint í gær. Jú, auðvitað er þetta ógeðfellt en ekkert sem maður vissi svo sem ekki áður. Maður trúir öllu upp á menn sem hafa mjög augljóslega þénað alla þessa hundruði milljarða með vafasömum hætti. Mjög augljóslega segi ég, ekki af því að maður hafi sannanir undir höndunum heldur vegna þess að eðli hlutanna er bara það að þú eignast ekkert svona miklar fjárhæðir nema að traðka á hálsum á leiðinni. Það er bara þannig. Það er eðli milljarðamæringa.

Ég er meira rólegur af því að ég veit að því miður mun ekkert breytast. Þetta fyrirtæki hættir ekki störfum, það heldur velli, enginn verður dæmdur, peningarnir eru enn í aflandsfélögum og utan seilingar íslenska (og namibíska) ríkisins. Fólkið er enn hlunnfarið, svona þegar öskrunum lýkur og reiðin rennur. Alveg eins og eftir Klausturfokkið, alveg eins og eftir Wintris, alveg eins og eftir Hrunið. Ekkert breytist.

Samkvæmt Forbes eru 2.153 milljarðamæringar í heiminum. Þeir komast fyrir, allir með tölu, á pöllunum í Kaplakrika á handboltaleik. Maður myndi ætla að við sem alþjóðasamfélag gætum ráðið við þetta stærsta krabbamein lýðheilsunnar, en aldrei breytist neitt. Af því að þeir ráða sem eiga mest, þótt þeir séu í svona miklum minnihluta.

Þannig verða næstu dagar. Hávaði og læti. Ys og þys. Og svo deyr þetta út og ekkert breytist. Við verðum reið út í eitthvað annað, og gleymum þessu. Því miður.

En hey, kannski er einhver bíómynd á leiðinni sem sýnir góða byltingu. Fólk sá Joker í hrönnum, og er ekki einhvers konar bylting í nýju Watchmen-þáttunum? Kannski tekur einhver jólabókin á þessu. Smá skáldskapur til að láta okkur líða betur með okkur sjálf, áður en við höldum áfram að taka strætó í láglaunastörfin og éta skít í boði auðvaldsins. Bylting er bara svo mikið vesen. Nei, þá fer ég frekar bara í bíó eða á bókasafnið, verð upplýstur.

Nei, tuðum ekki yfir þessu. Þetta er ömurlegt. Og það er nánast ómögulegt að snúa svona dauðastjörnu við, að laga samfélag sem hallar svona rosalega hinum ríku í vil. Þannig var það hannað, þetta er viljandi gert. Það er ósanngjarnt að sitja bak við lyklaborð og saka launþega útíbæ um að ná ekki að afhausa svona stóran kolkrabba.

Þar til næst.