Everlasting love is ever growing,
hang on to what you have and let it grow.
Everlasting love is ever dying,
it’s in the past you have to let it go.

Joel Duplantier, Gojira

Kæri lesandi,

í gær fór ég út með vini mínum að borða og í bíó. Það var gaman og gefandi. Maður fær andvirði tímans sem maður gefur sínum nánustu og bestu margfalt til baka.

Við fórum á nýju Mathöllina á Granda. Ég hef aldrei farið þangað áður en var hrifinn. Það var næs og gott að sitja við gluggann og horfa út á höfnina á meðan maður slátraði einni lítilli pítsu. Skemmtileg stemning þarna inni.

Svo fórum við á Doctor Sleep í bíó. Fyrir framan okkur sátu þrír fullorðnir karlmenn sem virtust skiptast á að skoða símaskjáina sína alla myndina. Þetta er auðvitað fíkn, ekkert annað, hvað eruð þið að kíkja á tölvupóstinn ykkar eða Facebook-streymið kortér í ellefu að kvöldi, rétt þegar myndin nær hámarksspennu? Eruð þið að missa af einhverju mikilvægu? Mér varð hugsað til orða rómverska heimspekingsins Seneca sem sagði, „ef þú ert alls staðar ertu hvergi“.

Myndin sjálf var mjög góð. Við vorum ánægðir, ég sem hef ekki lesið bókina og vinur minn sem hefur lesið. Ég fann eina litla plottholu, illa útskýrt atriði sem hann fullvissaði mig um að væri betur skýrt í bókinni, og það voru kannski helst til mörg atriði þar sem fólk er að keyra bíl á milli staða í fleiri mínútur, en annars var þetta bara mjög gott. Ég hef séð gagnrýnendur hnýta í Mike Flanagan leikstjóra fyrir að hafa gert frekar hefðbundna mynd, klassíska jafnvel frekar en að reyna að sjokkera með einhverju nýju. Ég er ósammála þeirri gagnrýni og sammála nálgun Flanagan. Hann var að gera framhaldið af kvikmyndinni The Shining. Sú mynd braut nýtt blað fyrir fjórum áratugum en það er ekki hægt að ætlast til að Flanagan geri það sama í dag nema að búa til kvikmynd sem passar engan veginn saman við þá fyrri. Hann leikstýrði þessu viljandi inn í sama andrúmsloft og sama stíl og Kubrick gerði frægan fyrir fjörutíu árum. Þetta er verðugt framhald, í senn eins konar tribute og stækkun á heimi þeirra sem skína. Við vorum sáttir.


Ég sé á Twitter í dag að fólk ytra er að lesa einhverja nýja ævisögu Whitney Houston. Nánar tiltekið sé ég að fólk er sjokkerað yfir þeirri uppgötvun að WH hafi fyrst notað eiturlyf fjórtán ára gömul. Ég get tekið undir þann óhug. Mér finnst sérstaklega nöturleg tilhugsun að manneskja með slíka náðargáfu hafi í raun allan tímann verið leiksoppur valdamikilla karlmanna, fólks sem sveik hana við öll tækifæri, ýtti undir fíkn hennar og stjórnaði henni til að þéna á henni pening. Og svo var hún dauð, langt um aldur fram, enda átti hún aldrei séns. Aumingja konan. Fokking samfélag.


Í dag er fimmtudagur. Á morgun fer ég í bústað foreldra minna, einn, til að einbeita mér að skáldskap í tvo sólarhringa. Ég hlakka til þeirrar helgi. Kyrrðin, maður, kyrrðin. Ég ætla mér að vera á einum stað að gera einn hlut. Seneca yrði ánægður með mig.

Þar til næst.