Kæri lesandi,
ég er kominn í sveitina. Aleinn, austan fjalls og utan leiða, bara einn með sjálfum mér og lyklaborðinu. Hér munu stafir rata á skjá.
Annars hófst ferðin ekki eins og ég ætlaði mér. Ég var búinn að stilla öllu upp, gat verið laus í hádeginu, þetta steinlá allt saman, en þá tók ég upp á því að vera andvaka fram á miðja nótt. Ég horfði á sjónvarpsþáttaröð þar til ég hélt varla höfði lengur og skreið þá loks inn, um hálffjögur. Svo truflaði önnur dóttir mín svefninn í tæpa klukkustund eftir það, svo að ég var ansi bugaður þegar ég staulaðist á fætur fyrir átta í morgun. Með böggum hildar, hugurinn á iði og maurar skríðandi um mig allan. Ég náði engri jarðtengingu, engri ró, fann engan frið.
Bílferðin gerði kraftaverk. Bara að keyra yfir heiðina í rólegheitum, finna hvernig streitan leið úr mér eins og hún hefði orðið eftir heima og fjarlægðin sefaði skjálftana. Nú er ég búinn að vera í bústað í klukkustund, borða smá og búa um rúmið og svona, hef ekki mælt orð af vörum í tvær klukkustundir eða svo, og ég er eins og nýr maður.
Næst er að finna góða tónlist, skapa rétta andrúmsloftið, opna skjalið góða og hefjast handa. Ég er að reyna að hlusta á nýju DJ Shadow-plötuna sem kom út í dag en hún virkar við fyrstu hlustun ekki á mig sem hentug til þeirrar kyrrðar og hugarró sem þarf við skrif. Ég finn eitthvað aðeins afslappaðra.
Þáttaröðin sem ég horfði á í nótt heitir The Affair. Ég var sem sagt að klára að háma í mig fimmtu og síðustu seríu þeirrar þáttaraðar. Þvílíka ruglið. Eftir óvæntu endalokin á seríu fjögur í fyrra er ljóst að handritshöfundar höfðu ekki hugmynd um hvernig þau ættu að enda þáttaröðina þannig að hér fóru þau í að binda hnúta hægri vinstri svo að úr varð einhver hrærigrautur af söguþráðum, persónum sem hurfu skyndilega án úrlausna og sjálfur níutíu mínútna lokaþátturinn var einn sá væmnasti sem ég hef séð. Og það fullkomlega óverðskulduð væmni, sem er verra. Loftslagsbreytingar (og hliðarplott úr framtíðardystópíu með afkomendum aðalpersóna þáttanna), #meToo-plott sem hvarf svo um leið og höfundar höfðu lokið sér af við það, dauði og fæðing og framhjáhöld og prettir og valdaátök í Hollywood og eiturlyf og skógareldar í Kaliforníu og fræg, sjálfhverf skrímsli og fæðingarþunglyndi og rifist um útfarir mismunandi menningarheima og meiri svik og meiri prettir og farið aftur í tímann og þrjátíu ár fram í tímann og rasismi og framboðsslagur í skólaráði og …
… þetta var allt of mikið. Skelfilega illa skilið við annars frábæra þætti sem mér hafa þótt með þeim betri frá Bandaríkjunum síðustu fimm ár. Ég mun sakna The Affair. Ég sé eftir að hafa horft á síðustu seríuna.
Nú er annars komið að því að brosa aðeins, láta braka í hnúum og hafa gaman af þessu. Ég hlustaði á stutt útvarpsviðtal við Stefán Mána í dag, þar ítrekaði hann að skrifin væru gagnslaus ef þau væru ekki skemmtileg. Þetta er nógu erfitt ef þú ætlar ekki að leyfa þér að njóta þess.
Slakur að lifa og njóta. Ég er hérna. Gerum þetta.
Þar til næst.