Kæri lesandi,

eins og sést á myndinni hér að ofan kyngdi niður snjó í nótt og fyrri part dagsins í dag. Ég tók mynd af pallinum í gær og þá var allt autt og veðrið fínt. Eins og sést á þessari mynd hefur snjórinn breitt yfir náttúruna hér í kring. Það er kominn vetur.


Ég er frekar tómur í dag. Eins og ráðgert var hef ég setið í svona tólf af síðustu tuttugu og fjórum klukkustundum yfir handritinu mínu. Skrifað helling, farið yfir annan helling, endurraðað bútum og setningum og köflum. Mér er ekki beint illt í fingrunum en meira þannig að andlega er ég alveg búinn með fingur-á-lyklaborði stellinguna. Ég gæti þurft að liggja upp í rúmi á morgun við skrifin, þessi stóll við stofuborðið er farinn að pirra mig verulega mikið.


Í pásunum á milli skriftörna hef ég borðað tvær máltíðir, nartað aðeins, drukkið of mikið Pepsí Max og ekki nógu mikið vatn, horft á eina kvikmynd sem var svo miðlungs að ég þurfti tvær atrennur til að ná að klára hana (The Magnificent Seven, nýja útgáfan í leikstjórn Antoine Fuqua) og klárað ritgerðasafn Jiu Tolentino.

Trick Mirror heitir sú bók, fyrsta bók höfundar. Hún kom út í ágúst og inniheldur níu ritgerðir sem eru allar skrifaðar á síðasta árinu eða svo. Í ritgerðunum fangar hún einhvern tíðaranda í Bandaríkjunum, greinir mikið af því fyrirferðamesta; internetið, femínismi og staðalímyndir kvenna, kapítalískar birtingarmyndir fegurðar, brúðkaupsæðið vestan hafs, stjórnmálin, nauðgunarmenningu háskólasvæða, og margt fleira. Átta af níu ritgerðum hitta í mark að mínu mati, sú níunda var svolítið miðjumoð en hinar eru allar hárbeittar neglur. Stundum gætu þær verið aðeins styttri en að öðru leyti er þessi bók nánast gallalaus enda ritgerðirnar ótrúlega vel skrifaðar og að minnsta kosti tvær, ef ekki fjórar af þeim eru eitthvað sem kalla mætti tímamótaverk, esseyjur sem fólk mun vísa í á næstu árum.

Þessi bók sló í gegn vestan hafs og er það vel. Jia er ungstirni í bandarískum bókmenntum og ég hlakka til að lesa annað svona safn eftir hana. Það er eitthvað svo þægilegt við að geta innbyrt eina ritgerð með reglulegu millibili (ég las u.þ.b. eina á viku síðustu tvo mánuðina), leyft þeim að marínerast og sitja í þér áður en þú veður í þá næstu. Þegar ég kláraði hoppaði ég beint á netið og pantaði mér rafbókina Impossible Owls: Essays from the end of the world eftir Brian Phillips, annað esseyjusafn sem sló í gegn í Bandaríkjunum í fyrra. Ég mun lesa átta ritgerðir þeirrar bókar á svipaðan hátt og ég las Tolentino. Eina með reglulegu millibili. Ég hlakka til.


Nú ætla ég að horfa á sjónvarpið þar til ég sofna, reyna að velja betri mynd. Það er langt því frá mikilvægasta atriði helgarinnar, en það yrði samt svekkjandi ef báðar kvikmyndirnar sem ég horfi á hér í bústaðnum um helgina yrðu slappar. Pressan er talsverð.

Þar til næst.