Kæri lesandi,

hvernig borðar maður fíl?

Svar: einn bita í einu.

Ég kvaddi bústaðinn í dag og keyrði aftur í bæinn, alla leið í Hafnarfjörð þar sem er minna af snjó en í Grímsnesinu. Heima tók á móti mér fullt hús af krökkum, tiltekt og uppvask, heimanám og matseld, þvottavélin og ryksugan. Ég hafði saknað þess að vera heima, það verður að viðurkennast.

Helgin var góð. Ég náði góðu starti á verkefninu mínu. Nú er um að gera að halda áfram, taka lítil skref á hverjum degi, vinna þetta í áföngum. Ef vel gengur get ég tekið lokahnykkinn í annarri svona einangrunarhelgi eftir mánuð eða svo. Fyrir jól, altso, það er stefnan.

Talandi um skref, þá hugsaði ég aðeins um þau í dag. Ég hef allur verið að koma til eftir fótbrotið í ágúst, nú eru um 50 dagar síðan ég losnaði úr gifsinu og ég hef verið að vinna mig upp í svona 5-7 þúsund skref á dag. Ég ætla að bæta aðeins í þetta og reyna að komast í svona 8-10 þúsund skref á dag að jafnaði. Það þýðir að ég verð að lengja göngutúrana og fara líka þótt illa viðri. Það er einnig hentugt af því að andlega þarf ég að passa mig að festast ekki í einhverri rútínu þar sem ég forðast hálku og snjó, hræddur við einhver ímynduð ósköp. Ég man þegar ég handleggsbrotnaði á unglingsaldri þá leið allt of langur tími þar til ég þorði að reyna á höndina eftir að ég losnaði úr gifsi, það var ekki fyrr en einhverjum árum seinna að ég fór að gera armbeygjur og upphýfingar á ný. Það er allt of langur tími. Ég ætla ekki að byggja upp slíkar andlegar hindranir í þetta sinn.

Skrefunum mun fjölga. Verkinu mun miða áfram. Allt í áföngum. Á morgun hefst ný vika (ég hef aldrei skilið fólk sem vill byrja vikuna á sunnudegi). Ég hlakka til!

Þar til næst.