Kæri lesandi,

ég lenti í samræðum um samfélagsmiðla nýlega. Síðan þá hef ég reynt að koma því í orð, svona í huganum, yfir uppvaskinu eða í göngutúrum, hvað mér finnst hafa farið aflaga á samfélagsmiðlum. Ég skráði mig á Facebook árið 2008, var þá þegar á Twitter, og hef síðan fylgst með báðum miðlum blómstra og dafna, verða að algerum skrímslum sem hafa haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í samfélagi manna um heim allan, og ég hef reynt að skilja hvernig það gat gerst að þessir miðlar sem voru eitt sinn svo frjálsir og sniðugir gátu breyst í andhverfu sína. Málið er að ég hef skrifað á netið mjög reglulega síðan árið 2000, þegar ég fór fyrst til Bandaríkjanna og setti upp litla vefsíðu svo að fjölskyldan mín heima gæti fylgst með. Árið 2002 skráði ég mína fyrstu bloggsíðu á Blogger, árið 2004 stofnaði ég Kop.is sem varð fljótt ein stærsta íþróttasíða landsins, og á hana skrifaði ég allt til ársins 2017, fyrstu árin nær daglega án afláts og svo kannski 2-5 sinnum á viku eftir það þar til yfir lauk. Ég var orðinn ansi fær í því að fá hugdettur, punkta eitthvað niður, koma hugdettunum svo á leifturhraða niður í bundið mál og birta það á netinu. Stundum gat liðið innan við hálftími frá því að ég fékk hugmynd að pistli og þar til hann var birtur á netinu, þúsund orð eða meira. Þegar ég hugsa til baka yfir þennan veg, auk fleiri hundruða statusa á Facebook og næstum því 40 þúsund tíst á Twitter, þá finnst mér nánast ómögulegt að ímynda mér að ég hafi ekki einhvers staðar á þessum tíma skrifað eitthvað ógeðslega dónalegt eða asnalegt eða hálfvitalegt á netið. Sem þýðir að ef einhver er nógu mótiveraður þá er örugglega hægt að grafa upp gamlar syndir og cancela mig í nútímanum. Sem er einmitt það sem hefur stundum verið að koma fyrir nafntogað fólk (sem ég er ekki, blessunarlega kannski m.t.t. fortíðar minnar á netinu). Ég er ekki að segja að það liggi nauðgunarbrandarar eða rasismi á minni brauðmolaslóð um netið á 21. öldinni – ég er ekki fáviti – en eflaust hef ég einhvers staðar látið eitthvað ónærgætið flakka, t.d. stundað persónuníð í stað samtals um hugmyndir, eða líkamssmánun, eða bara eitthvað slíkt. Og kannski jafnvel eitthvað sem þótti meira í lagi fyrir 15 eða 20 árum en við höfum þróast yfir í að sýna enga þolinmæði í dag. Það sem ég er að segja er að á þeim tíma var ekki bara auðveldara að vera fáviti á netinu án afleiðinga (slæmt), heldur var líka stundum svigrúm fyrir mistök (gott). Þetta er ekki sami hluturinn, nota bene. Fávitar eru fávitar, en jafnvel vel meinandi og gott fólk getur mismælt sig eða hlaupið á sig. Í dag er það eitthvað sem veldur slíku fólki massífum vandræðum, getur jafnvel kostað fólk starfið eða þaðan af verra. Ég er, enn og aftur, ekki að tala um rasisma eða nauðgunarbrandara eða slíkt, heldur meira ef þú t.d. gekkst um í Pocahontas-búningi á öskudegi árið 2001, sem þótti meira en sjálfsagt þá en ef það yrði grafið upp í dag yrði viðkomandi heldur betur að svara til saka fyrir slíka menningarstereótýpu. Vandamálið við allar þessar pælingar er að þær eru ófullkláraðar, af minni hálfu allavega. Ég næ ekki alveg að kjarna það sem ég er að reyna að segja, en ég held að það komist samt til skila ef ég romsa því svona út úr mér. Við máttum gera mistök á netinu. Í dag er ekkert svigrúm fyrir slíkt. Jón Gnarr skrifaði einhvern tímann hugleiðingu um þetta í viðtali sem ég finn ekki núna og get ekki hlekkjað á, þar sem hann sagði að óttinn við að gera mistök á netinu væri að draga tennurnar úr röngu fólki, þ.e. gott fólk sem sýnir öðrum sálum næga aðgát til að óttast mistök, óttast að móðga einhvern eða særa einhvern, tjáir sig síður á netinu á meðan tröllin, fávitarnir og besserwisserarnir fara hamförum, virðast jafnvel njóta þess að hneyksla, særa og ærumeiða. Þetta er þróun sem hefur, eðlilega, gert samfélagsmiðla, en líka sennilega netið í heild sinni, að verri stað. Miklu, miklu verri stað. Annað sem hefur líka gerst í þessu er að samfélagsmiðlarnir, þessir nokkru sem tröllríða öllu, hafa jú einmitt tröllriðið öllu, drepið alla samkeppni og eytt allri fjölbreytni á netinu. Fyrir tíu árum var ég með næstum því fimmtíu íslenskar bloggsíður í áskrift. Flestar af þeim voru skrifaðar af einstaklingum sem ég þekkti ekki persónulega en ég elskaði síðurnar, það var frábært að geta fengið slíka innsýn og skemmtun hjá fólki. Í ummælakerfum gat maður svo átt samtal við bæði síðuhaldara og aðra lesendur, þannig að úr varð lítið samfélag. Þetta var miklu, miklu betra fyrirkomulag fyrir samræður en samfélagsmiðlarnir eru af því að; (a) þetta var aðeins lokaðra, Stína frænka sá ekkert endilega það sem þú varst að skrifa á bloggið þitt, og (b) þetta náði á einhvern hátt að ýta undir jafnvel opnari umræður fólks sem var ekki beint sammála en bar oft næga virðingu fyrir hvort öðru til að stunda skoðanaskipti en ekki persónuárásir. Og ef fólk fór yfir einhver slík siðferðismörk var mjög auðvelt að banna það frá frekari umræðu, eins og ég stundaði grimmt í umræðustjórnuninni á Kop.is um árabil. Í dag skrifar maður status á Facebook og er varla búinn að ýta á Birta þegar Benni frændi er orðinn sármóðgaður, Stína frænka er búin að snúa út úr orðum þínum og DV er búið að klippa textann þinn til og birta sem æsifrétt sem fólk á landsvísu getur hneykslast yfir, algjörlega án þess að vita samhengið eða þekkja nokkuð til þess sem skrifaði statusinn. Þetta er bara hávaði, ekkert nema fokking fuglagarg, og ég sakna gamla internetsins alveg óskaplega mikið. Twitter var frábær nýjung þegar sú síða kom til, en það hvarflaði aldrei að mér að hún og Facebook ættu eftir að koma alveg í staðinn fyrir öll frábæru bloggin þarna úti. En það gerðist nú samt, og fyrir vikið stjórna örfáar manneskjur (aðallega ungir, karlkyns milljarðamæringar á vesturströnd Bandaríkjanna) nær allri umræðu á netinu. Og ég bara skil ekki hvernig það gat gerst, eða hvernig nokkrum manni finnst þetta betra svona. Þess vegna stofnaði ég kannski þetta blogg, ekki bara til að opna vettvang fyrir andstæðuna við ritstíflu, heldur líka af þvermóðskukenndri nostalgíu. Þetta er minn vettvangur, ég birti ekki einu sinni nafnið mitt hérna (þótt það sé öllum sem þekkja mig og rata hér inn augljóst hver ég er) svo að ég lendi ekki í að vera gúglaður og hakkaður í spað fyrir skrif mín úr samhengi einhvers staðar annars staðar. En ég stofnaði þessa síðu líka af því að ég saknaði þess að blogga. Mig langar aftur til framtíðar. Kannski gera fleiri slíkt hið sama.Kannski skjóta upp kollinum fleiri síður sem þjóna þeim tilgangi að vera vettvangur hugsana og hugmynda, staðir þar sem fólk má gera mistök án þess að vera tekið af lífi. Ég vona það. Ef það gerist þá bíður hér einn lesandi spenntur.

Þar til næst.