Kæri lesandi,
ég birti hér langloku í gær, hugleiðingar mínar um þær breytingar sem hafa átt sér stað á netinu síðustu árin. Ég tuðaði allhressilega. Eins og við var að búast hef ég eytt síðasta sólarhringnum í að hugsa upp mótrök við tuðinu í sjálfum mér. Jú, samfélagsmiðlar hafa opnað umræðuna að því leyti að nær allir geta fengið hljómgrunn núna og komið af stað umræðu. Það er líka jákvætt, þótt það sé að mínu mati einnig neikvætt. Og jú, opin umræða þýðir að þöggun er erfiðari, það er illa hægt að sópa erfiðum málefnum undir teppið þegar hver sem er getur verið jafn hávær og fjölmiðlar, á samfélagsmiðlum. Mjög gott. Og vissulega er gott að geta fylgst með sínum nánustu, hvernig þeim gengur og séð barnamyndirnar og allt það. Þetta er allt gott og blessað. Ég mátti hins vegar til með að spyrja upphátt hvort þessir jákvæðu þættir væru þess virði að hafa tapað öllu því sem glatast hefur í leiðinni? Eflaust segja einhverjir já. Ég hallast að nei-inu eins og er.
Annars er frá litlu að segja í dag. Ég hef verið að erindagjörðast í allan dag; skutla dætrum til og frá, fara með bílinn hennar mömmu á verkstæði fyrir hana, sækja pakka á pósthúsið og fleira slíkt. Fyrir vikið varð mér ekki mikið úr verki í dag.
Og þó, ég las 150 blaðsíður í bók. Hún heitir Point of Impact og er eftir Stephen Hunter. Þessi saga er betur þekkt sem Shooter, var kvikmynduð fyrir áratug með Mark Wahlberg í aðalhlutverki og nú er einhver Netflix-sería með Ryan Philippe byggð á bókunum í gangi. Myndin er altílæ, svona miðlungsmynd eins og Wahlberg gerir hvað best og því hvarflaði aldrei að mér að lesa bækurnar um Bob Lee Swagger, bestu skyttu Norður-Ameríku (þær eru ellefu talsins, bækurnar) fyrr en ég heyrði Malcolm Gladwell segja að þetta væru gjörsamlega magnaðar spennusögur. Ég ákvað að slá til og viti menn, ég byrjaði bókina í dag og hún er dúndurvel skrifuð og hörkuspennandi, enda er ég búinn að drekka í mig 150 síður frá því í hádeginu og kominn með hausverk. Ég les eflaust aðrar 150 á morgun ef ég hef tíma. Og hinar tíu bækurnar á næstu misserum, ef þessi heldur dampi.
Þar til næst.