Kæri lesandi,

ég á mér lítið leyndarmál. Sennilega það umdeildasta við mig, ef það kæmist upp. Þetta er ekki það svakalegt, en samt. Ég er frekar leiðinlegur gaur. Þannig er mál með vexti að ég er ekki viss um að ég sé á móti dauðarefsingum.

Þetta kom upp fyrir einhverjum árum þegar ég las um rithöfund sem lenti í því að pabbi hans var myrtur af afprýðissömum fyrrum manni kærustu hans. Téður rithöfundur þurfti að bera vitni í réttarhöldunum yfir morðingja föður síns, og hluti af því sem hann vissi að hann yrði spurður um var hvort hann styddi dauðarefsinguna, sem var þýddi þá að ákæruvaldið var að íhuga að krefjast slíkrar refsingar ef hinn ákærði væri fundinn sekur. Og í kjölfarið þurfti rithöfundurinn óvænt að leggjast í mikla naflaskoðun. Hann hafði nefnilega aldrei pælt mikið í dauðarefsingum, en þegar hann fór að íhuga þær var hann ekki viss hvort hann væri með eða á móti.

Hvað hann ákvað á endanum fylgdi ekki sögunni, og kannski af því að þetta sat í mér sem opin spurning gerðist það að ég fór að spyrja sjálfan mig að þessu. Og það kom mér á óvart, ég sem hafði alltaf talið lífið heilagt og svo framvegis, að ég var ekki viss um að ég væri á móti dauðarefsingum. Svona í abstract praxis (þ.e. þegar grunnur hugmyndar er metinn án utanaðkomandi þátta), allavega. Auðvitað er ég á móti því að meingallað réttarkerfi í t.d. Texasfylki Bandaríkjanna fái að framfylgja dauðarefsingum, þar sem sýnt hefur verið fram á að há prósenta þeirra sem hafa verið líflátnir voru a.m.k. ekki klárlega sekir, og jafnvel alsaklausir. Þetta kapphlaup við tímann að reyna að stoppa aftöku, sem við erum svo vön úr bandarískum spennumyndum og bókum, er sturlun.

En, aftur að abstract praxis. Amnesty-samtökin berjast fyrir því að dauðarefsingar séu lagðar niður um allan heim, byggt á þeirri grundvallarlífsreglu að allt líf sé heilagt. Ég er bara ekki viss um að ég sé sammála því. Fyrir það fyrsta er dauðinn hluti af lífinu. Við skuldum öll dauðdaga, hann kemur til okkar á einn eða annan hátt, og því ætti hann þá ekki að koma snemma fyrir þá sem hafa sjálfir bundið enda á jafnvel mörg líf, valdið ómældum skaða og (mikilvægt) virðast ekki bara líklegir heldur nánast öruggir um að valda slíkum skaða á ný ef tækifæri gefst.

Ég hugsa í þessu samhengi um tvennt. Fyrst, muninn á hugtökunum refsingu og betrun. Fangar sem talið er að geti hlotið betrun, orðið að betra fólki með stífri endurmenntun eða hvernig sem þú skilgreinir slíka fangelsisvist, ókei. Ef þú braust af þér þarftu að borga skuld við samfélagið, vissulega, en þú þarft líka að sýna fram á að þú sért betri manneskja áður en þér er hleypt út í téð samfélag.

En hvað þá með þær manneskjur sem eru metnar svo að enginn möguleiki sé á betrun? Hvað með Timothy McVeigh, Oklahoma-sprengjarann frá 1995 sem drap 168 manns og ekki aðeins sýndi aldrei iðrun heldur var aktíft í því að angra eftirlifendur og aðstandendur hinna látnu með skrifum, viðtölum og bulli allt til dauðadags? Hvað með Anders Behring Breivik, sem er sams konar lýti á norsku samfélagi í dag og mun halda áfram að valda sárindum, skaða og vera samfélaginu til ama þar til hann er allur?

Auðvitað er ekki hægt að styðja dauðarefsingar í því meingallaða formi sem þær þekkjast víðast hvar í heiminum, en in abstract praxis þá er ég ekki viss um að hægt sé að útiloka þær sem úrræði heldur. Af því að, og þá komum við að seinna atriðinu sem ég hugsa um í þessu samhengi, ég minnist orða Doctor Spock úr Star Trek-þáttunum. Vissulega tilbúinn karakter í tilbúnum heimi, en orðin eru ekki síður sönn fyrir því. Spock sagði, þarfir margra vega þyngra en þarfir fárra. Við skuldum öll einn dauðdaga, hvernig sem hann ber að garði, og ef þú hefur fyrirgert rétti þínum til að haga þínu lífi eftir eigin höfði með svo svívirðilegum hætti að hægt er að fullyrða að samfélagi margra er betur borgið ef það þarf ekki að burðast með þig fram að náttúrulegum dauðdaga, þá sé ég ekki hvers vegna það ætti að vera á herðum ríkisins að burðast með þig. Þá er hinn kosturinn skárri.

Eða eitthvað. Ég er enn að rífast við sjálfan mig um þessi atriði, langt því frá sammála sjálfum mér, og hef sjálfan mig í raun grunaðan um bæði svæsna fordóma og siðskekkju í þessu máli. Það breytir því samt ekki að ég bíð enn eftir að heyra þau rök sem sannfæra mig um að dauðarefsingar séu aldrei úrræði, hvergi, sama hvað, in abstract praxis eða annars vegar. Ég myndi glaður hlýða á þau rök, þá gæti ég hætt að burðast með þetta skammarlega leyndarmál á bakinu.

Þar til næst.