Kæri lesandi,

ég er búinn að lesa mikið af spennusögum í ár og í fyrra. Mikið. Ég er í dómnefnd Blóðdropans í ár, þetta er annað árið mitt af þremur, og fyrir vikið hef ég lesið allar íslenskar spennusögur sem komið hafa út þessi tvö ár. Í ár hef ég svo legið yfir erlendum glæpasögum úr öllum áttum, eins og ég sé í háskólanámi fyrir glæpasögur eða eitthvað. Þetta eru ógrynnin öll af bókum.

Glæpasögur eru alls konar. Sumir höfundar skrifa mjög basic texta en segja spennandi og skemmtilegar sögur, á meðan aðrir hafa kannski betri prósa en mættu krydda sögurnar sínar aðeins. Þriðji flokkurinn er sá sem maður leitar að, ástæða þess að maður les sig í gegnum hina tvo. Þetta eru höfundar sem skrifa frábærlega vel og segja æsispennandi sögur. Slíkar sögur eru minnistæðar, það eru höfundarnir sem maður leitar uppi og fylgist með og hleypur til þegar þeir gefa út nýja bók.

Stephen Hunter fellur alveg klárlega í þennan þriðja flokk. Ég las aðrar 150 blaðsíður í Point of Impact (a.k.a. Shooter) í gær og byrjaði í morgun á að lesa meira yfir morgunmatnum. Ég virðist varla geta hætt. Þetta er frábær bók, og verandi sú fyrsta af ellefu í seríunni óttast ég að ég hafi gert mér mikinn óleik því ég sé ekki hvernig ég á að geta annað en lesið yfir mig af Hunter næstu misserin. Ég þarf að passa mig að lesa hann ekki of hratt svo ég fái ekki ógeð. Allt er gott í hófi.

Annað var það ekki í dag. Ég lesa.

Þar til næst.