Kæri lesandi,
ég fór í jarðarför og erfidrykkju í dag. Jarðarfarir eru alltaf erfiðar, og fyrir vikið var ég alveg grillaður á eftir. Í rauninni hefur ekkert orðið úr deginum annað en að kveðja ömmusystur mína. Það er líka allt í lagi. Það var mér bæði ljúft og skylt að gefa henni af tíma mínum í hinsta sinn, og ekki var verra að hitta alla ættingjana í kjölfarið, þótt það væri við þessar aðstæður.
Annars hef ég lítið annað gert en að lesa um Bob Lee Swagger síðustu daga. Síðan á þriðjudag er ég að verða búinn með 520 blaðsíðna bók. Klára í kvöld eða á morgun. Þetta er frábært stöff. Ég hlakka til að lesa þá næstu.
Hvað þýðir það eiginlega þegar við segjum að einhver sé salt jarðar? Við erum að hrósa með því, og ég veit að þetta er úr Biblíunni, en af hverju salt jarðar? Er það af því að salt er dýrmætt og erum við þá að meina að viðkomandi sé dýrmætur einstaklingur? Ég velti þessu fyrir mér í kirkjunni í dag.
Í kirkjunni í dag hugsaði ég einnig heim í Önundarfjörðinn, þar sem amma og ömmusystir mín ólust upp (og ég líka, og öll mín stórfjölskylda). Hafið og fjöllin, Þorfinnur gamli og sandurinn fyrir innan. Síðast kom ég vestur fyrir einu og hálfu ári, í fyrrasumar, en náði ekki að staldra nógu lengi á Flateyri. Einn daginn fer ég aftur og eyði almennilegum tíma þar. Eitt sem aldrei bregst, og í raun það sem ég sakna mest þaðan (utan æsku minnar, auðvitað) er kyrrðin. Ég þrái að sitja í hlíðinni fyrir ofan þorpið og anda inn, hægt, anda út, hægar. Einn daginn.
Ég hugsaði einnig til útlanda. Ég veit ekki til þess að amma mín hafi nokkru sinni ferðast til útlanda. Þarf að muna eftir að spyrja pabba að því við tækifæri. Pabbi og mamma voru á undan okkur í kirkjuna, við fengum skilaboð um að þau myndu passa fyrir okkur sæti. Mamma sagði, „við verðum vinstra megin, pabbi þinn situr alltaf vinstra megin í kirkju“. Ég hef oft setið við hlið þeirra í kirkju en aldrei heyrt þetta áður eða tekið eftir þessu. Þetta er það grillaðasta sem ég hef heyrt.
En, útlönd. Af ýmsum ástæðum hef ég misst af þremur af fjórum fyrirhuguðum utanlandsferðum í ár. Newcastle í vor, vegna anna, og svo kostaði fótbrotið mig bæði Stokkhólm og Liverpool í haust. Aðeins frábær Evróputúr til Þýskalands og Ítalíu í nokkrar vikur í júní, sem er auðvitað ekkert smáræði en ég get vart annað en verið svekktur yfir hinum ferðunum. Ég er að fara til Edinborgar eftir hálfan mánuð og ég þori varla að hugsa um þá ferð ennþá, af ótta við að jinxa hana.
Ég sem var aldrei hjátrúarfullur. En, þetta ár hefur verið motherfucker. Ég mun fagna 2020 heitt og innilega.
Myndin hér efst er af fjöldaframleiddum pönnum í Costco. Konan mín tók þessa mynd í dag, á meðan ég var í jarðarför var hún í Costco að taka mynd af fleiri hundruð pönnum. Svona er Ísland í dag.
Þar til næst.