Kæri lesandi,

í dag er mánudagur. Ég skrifaði síðast á þessa síðu síðdegis á föstudag, nýkominn heim úr jarðarför og erfidrykkju. Það er skemmst frá því að segja að um leið og ég hafði lokið við þá færslu lagðist ég fyrir með svæsna flensu, bæði hitasótt og kvef sem virtist á tímum um helgina ætla að heltaka andlit mitt. Yngri dóttir mín lá einnig fyrir sem og fleiri ættingjar, þannig að við teljum okkur hafa smitast í jarðarförinni. Hápunkti náði hysterían í gær þegar við þurftum að slá af fyrirhugaða afmælisveislu yngri dóttur minnar, en Kolla varð sex ára um helgina. Veislan verður um næstu helgi í staðinn, kökurnar eru í frystinum.

Og hvað gerði ég svo á meðan ég lá fyrir? Ég kláraði Point of Impact eins og ég lofaði, svona rétt áður en ég hætti að geta lesið stafi á blaðsíðu út um tárvot augun. Eftir það fór helgin aðallega í eitthvað samhengislaust gláp. Ég horfði á íþróttir í beinni, nokkra Friends-þætti og þriðju þáttaröðina af The Crown sem kom út á Netflix fyrir nokkrum dögum. Það eru frábærir þættir, svo sem, en samt situr í mér einhver tómkennd eða óhreinindi að hafa horft á þetta. Þarna er stiklað á stóru yfir suma af merkisviðburðum Bretlands í valdatíð Elísabetar drottningar, í bland við persónulegri málefni konungsfjölskyldunnar. Mér skilst á sagnfræðingum að farið sé frjálslega með staðreyndir, sennilega er þeim þá hagrætt krúnunni í hag því þótt þetta fólk sé augljóslega ekki alltaf upp á sitt besta (og bara sjaldan, jafnvel, nema drottningin sjálf sem alltaf virðist halda sinni stóísku ró) þá virðist það oftast fá samúðarauga handritshöfunda, umfram aðra.

Æi ég veit það ekki. Þetta eru frábærir þættir um sögulega atburði, en það er líka eitthvað stargazing-dæmi í gangi þarna sem lætur mér líða eins og ég hafi eytt deginum í að fletta í slúðurdálkum og sorpritum, eitthvað sem ég hef allajafna ekki minnsta áhuga á.


Svo eru það íþróttirnar. Ég horfði á mína menn í Liverpool vinna enn einn ótrúlega sigurinn á laugardag. Ég hef haft svo mikla ástríðu fyrir íþróttum, sérstaklega knattspyrnu og þá mínum liðum í FH hér heima og Liverpool ytra. Sú ástríða hefur þó talsvert dvínað, alveg þangað sem ég sit hér heima og fagna varla þegar mitt lið skorar enn eitt sigurmarkið á lokamínútum leiksins. Liverpool hafa ekki unnið deildina síðan ég var of ungur til að muna eftir síðast, þrjátíu ár verða liðin í vor og liðið á betri séns nú en þeir hafa nokkru sinni á þeim tíma átt. Liðið er búið að vinna sér inn 37 af 39 stigum í fyrstu þrettán umferðum tímabilsins, sem er með eindæmum vel gert, og það virðist fátt geta stöðvað liðið þessa dagana. Það er þó alveg hálft ár eftir og nóg sem getur gerst til að hægt sé að leyfa sér bjartsýni, hvað þá meira. Ég verð engu að síður að viðurkenna að ég hef oft hugsað meira um Liverpool og deildina heldur en núna, þetta hefur oft vegið þyngra í mínu lífi. Mér finnst gráglettið að hafa lifað og hrærst í gegnum öll döpru árin síðustu tvo áratugi, horft á hvern einasta leik með öndina í hálsinum, til þess eins að uppgötva að ég sé mögulega búinn að missa ástríðuna fyrir þessu nú þegar liðið er loksins jafn magnað og mann dreymir um.

Velgengni Liverpool nú er mörgu að þakka, en fyrstan ber að nefna knattspyrnustjórann Jürgen Klopp. Hann er búinn að stýra liðinu í fjögur ár og líklegt þykir að hann taki sjö eins og hjá hinum tveimur liðunum sem hann hefur stýrt. Það þýðir að vorið 2022 þurfum við sennilega að kveðja þann þýska meistara. Lífið heldur áfram, en ég held í alvöru að á minni ævi verði þetta lið hans ekki toppað hjá Liverpool. Og ef ég tek minnkandi ástríðu mína fyrir þessu með í reikninginn, og hálfgerða þrá eftir að geta lifað lífinu án þess að þurfa alltaf að taka tillit til knattspyrnuleikja í dagskrá minni, þá finnst mér hreinlega líklegt að ég muni einnig gefa Liverpool langt frí eins og Klopp, þegar hann hættir.

Ég las nýlega í einhverri bók að þegar fólk eldist hætti það að finna eins mikið til ástríðna, hamingju og gleði, á meðan kvöl og örvænting misstu aldrei brodd sinn. Ég man ómögulega hvar ég las þetta. Sennilega var það Knausgård sem skrifaði þessi orð, þau eru alltént mjög Knausgård-leg. Þau lýsa að einhverju leyti hugarfari mínu til ýmissa hluta þessi dægrin, og þá ekki síst íþróttaáhuga. Sá dagur nálgast að ég muni bara láta þetta eiga sig.

Þar til næst.