Kæri lesandi,

ég les mikið. Alveg rosalega mikið. Ég les af áfergju. Einhvern tímann fyrir svona fimmtán árum bloggaði ég um að ég væri ekki nógu duglegur að lesa. Mig minnir að þá hafi ég verið að setja mér nýársmarkmið að ná að lesa 25 bækur á ári, eða u.þ.b. tvær á mánuði yfir heilt ár. Það tókst allt of vel, því síðustu árin hef ég lesið yfir hundrað bækur á ári. Það er magnað, mætti jafnvel kalla það afrek, og fólk dáist frekar að því við mig en eitthvað annað.

Ekki ég, samt. Ég hef áhyggjur. Bækur eru yndislegar, lestur er yndislegur, ég ætla ekkert að fjölyrða um það hér. Þarf ekki beint að rökstyðja það, þau vita sem vita. En yfir hundrað bækur finnst mér vera of mikið. Það er mikilvægt að ég lesi, þannig æfi ég mikilvægan vöðva sem ég nota við mín eigin skrif, en öllu má ofgera. Hundrað bækur á ári er of mikið. Það er ekki bara áfergja, það er græðgi.

Málið er að ég hef lengi leitast við að skrifa af sömu áfergju og ég les. Og það er skemmst frá því að segja að hingað til hefur mér mistekist. Ég skrifa reglulega, ég er alltaf að vinna í einhverju og skrifa einhver fleiri hundruð eða þúsundir orða á dag alls staðar. Ég er alltaf að æfa þann vöðva.

En. Ef ég skrifaði af sömu áfergju og ég les væri ég Stephen King. Það er, ég gæti klárað og gefið út tvær skáldsögur á ári.

Ég er enn að leitast við að skrifa af þessari áfergju. Að ástríðan vinni sigur á svikaraheilkenninu og ég sitji við og skrifi eins og vindurinn blæs. Eflaust er mér ekki ætlað að ná því, annars hefði það gerst nú þegar. Ég verð örugglega áfram týpan sem erfiðar við að hafa eitt handrit tilbúið á 3-4 ára fresti, öfugt við öfundsverðu ógeðin sem geta dælt einu á ári út eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Það er vandlifað í þessum heimi. Ég nenni eiginlega ekki að halda lengur áfram með þessa pælingu, er bara að tuða á þessum tímapunkti. Og ég ætlaði ekki að gera þessa síðu að tuðstöð, þótt ég hafi þegar gerst sekur um það í nokkur skipti síðan ég fór af stað. Látum hér staðar numið með þessar pælingar.


Talandi um lestur, samt. Ég er að lesa íslenskar spennusögur fyrir dómnefnd bókmenntaverðlauna, þannig að ég kýs að tjá mig ekkert um þær á netinu. En ég hef líka lesið helling af erlendum spennusögum. Og án þess að fjölyrða um þær þá eru hér nokkrar gjörsamlega frábærar sem ég hef lesið í ár:

  • Point of Impact e. Stephen Hunter. Betur þekkt sem Shooter, sem varð að miðlungs kvikmynd starring Mark Wahlberg. Bókin er margfalt betri en myndin, og ég er að lesa næstu bók. Stórgott stöff.
  • The Devil Aspect e. Craig Russell. Veit ekkert um þennan höfund en sá bókina fyrir tilviljun, keypti og drakk hana í mig. Stórkostlegur þriller, söguleg, drungaleg, spennandi og óvænt. Minnir á Thomas Harris (Silence of the Lambs) upp á sitt besta.
  • The Chain e. Adrian McKinty. Glæpasaga ársins í Bretlandi. Saga með svo gott „premise“ að ég keypti hana samstundis. Bjargaði höfundi frá fátækt og heimilisleysi, sem er sennilega höfundasaga ársins. Geðveik bók.
  • Debris Line eftir Matthew Fitzsimmons. Fjórða bókin í röðinni um Gibson Vaughn, bókaflokki sem hófst á hinni mögnuðu The Short Drop. Þessi bókaflokkur er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hlakka mikið til að lesa næstu bókina í seríunni, Origami Man, sem kemur út í ársbyrjun 2020.
  • Last Policeman-þríleikurinn eftir Ben H. Winters. Vinur minn mælti með þessum bókum fyrir nokkrum árum, sagði að þær minntu hann á fyrstu skáldsögu mína sem kom út árið 2016. Ég las þær loks í sumar og þær eru frábærar. Til hvers að leysa morðgátur þegar innan við mánuður er í heimsenda? Þessar bækur svara þeirri spurningu og fleirum til.
  • The Dead Zone e. Stephen King. Ég las hana loksins í sumar og svei mér þá ef þetta er ekki besta bók King. Sjúklega góð.
  • Changeling e. Matt Wesolowski. Þriðja bókin í Six Stories-seríunni eftir hinn enska Wesolowski. Bækurnar eru byggðar upp eins og podcast-þættir, sem gerir þær frábærar í hljóðbókaformi, og þetta er sú besta af þeim. Rosaleg. Mest krípí og óhugnalega bók ársins, og flottasti sleggjuendir ársins.
  • My Sister, the Serial Killer e. Oyinkan Braithwaite. Kona segir söguna af systur sinni sem getur ekki hætt að drepa mennina í lífi sínu. Fyndin, skemmtileg, grípandi, spennandi. Öðruvísi. Ég mæli heilshugar með henni fyrir alla sem eru þreyttir á hefðbundnum glæpasögum.
  • Flowers over the Inferno e. Ilaria Tuti. Fyrsta bók þessa ítalska höfundar. Saga af gömlu máli sem lætur bæra á sér eftir langan tíma í suður-Alpafjöllum. Tuti er frábær höfundur, þessi frumraun er geggjuð og ég bíð spenntur eftir næstu.
  • The Border e. Don Winslow. Meistari Winslow er að mínu mati besti glæpasagnahöfundur Bandaríkjanna og hefur verið lengi. Hér lokar hann hinum stórkostlega Cartel-þríleik sínum á magnaðan hátt. Heavyweight champion of crime fiction með enn eitt knockoutið.

Látum þetta nægja. Tíu bækur (eða, níu bækur og einn þríleikur, tólf alls) sem gera þetta að glæpsamlega góðu lestrarári. Eða einhver álíka klisja. Ég stefni samt á að lesa færri glæpasögur á næsta ári. Reyndar hef ég verið að gæla við að lesa nær eingöngu nonfiction og autofiction á næsta ári, en veit ekki hvort ég hef það í mér að ganga svo langt. Kannski er ég bara háður skáldskap.

Þar til næst.