Kæri lesandi,
nú er innan við mánuður til jóla og enn eitt jólabókaflóðið er hafið. Bækurnar eru komnar út, fáanlegar í öllum bókabúðum og innan skamms á afslætti í matvöruverslunum, bensínstöðvum og örugglega sundlaugum og næturklúbbum líka. Bækurnar flæða um allt, eru auglýstar á primetime í sjónvarpi og við látum eins og ekkert sé mikilvægara en bækurnar. Bækurnar, maður lifandi! Hefurðu lesið nýjustu Auði? Arnald? Andri Snær að bæta heiminn? Þekkja börnin þín ekki örugglega Ævar og Bergrúnu? Þú verður að lesa Birgittu fyrir þau, og gefa ömmu þeirra og afa nýjasta Útkall og ævisögu Halldórs Ásgrímssonar! Þannig virkar bókaflóðið. Í svona átta vikur á ári er öskrað á okkur úr öllum áttum (nema þeim sem skipta máli, það er faglegri umfjöllun um bækur, þótt það virðist vera að glæðast í þeim efnum á ný í ár) þangað til við látum undan og kaupum bók. Ég er auvitað ekki í þessum hópi, einn af fáum sem kaupi yfir mig af bókum í hverju flóði, tilheyri kreðsu sem reynir að lesa sem mest sem hraðast. Ég fæ allar glæpasögur ársins gefins til að lesa fyrir dómnefnd en ég hef samt keypt átta glænýjar, innbundnar, íslenskar bækur síðan í byrjun október. Þær kosta 5-7 þúsund kall stykkið, þannig að reiknið nú. Þetta er ágætis peningur. Ég sé ekkert eftir honum. Ég sé meira eftir öllum hinum 44 vikum ársins sem bækur falla nær algjörlega í skuggann á öllu hinu sem er að frétta. Fyrir utan kreðsuna mína þá er eins og restin af landanum láti undan í flóðinu og kaupi sér 1-2 bækur og svo nokkrar aðrar í jólagjafir, og svo bíður þetta fólk bara rólegt eftir að lesa kannski einn Harry Hole um páskana og kannski ljóðabók í sumar, eða annan krimma sem það kaupir á flugvellinum á leið til Benidorm. Ég stóð á spjalli við einn af frægustu höfundum landsins nýlega, hún sagði mér að meirihluti allra bóka sem seldar eru á árinu eru seldar á Þorláksmessu. Þessi eini dagur er stærri en restin af árinu til samans. Hversu klikkað er það? Og hversu mikið af þessum bókum er fólk að kaupa af því að það ætlar sér virkilega að lesa það, frekar en bara til að geta sett eitthvað í jólapakkana til Stínu frænku og Bibba bróður? Ég fylgist með nokkrum erlendum rithöfundum á samfélagsmiðlum og ég öfunda þá alltaf þegar þeir eru að gefa út nýja bók í miðjum mars eða ágúst, leggja í rólegheitum af stað í bókatúr um land sitt og nærumhverfi, halda viðburði sem fólk sækir af því að það hefur ekkert betra að gera í mars eða ágúst. Þessir höfundar þurfa auðvitað að berjast fyrir sínu eins og allir aðrir, en það er auðveldara að fá smá athygli fyrir bókina þína sem er rosalega góð en fáir þekkja af því að þú ert glænýr höfundur þegar það eru ekki 98% rithöfunda landsins þíns að gefa út bók í sama mánuði. Hvaða möguleika á til dæmis Bergþóra Snæbjörnsdóttir, sem hefur verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna áður fyrir ljóðabók en gefur nú út fyrstu skáldsögu sína, Svínshöfuð, bók sem er að fá frábæra dóma, virðist gríðarlega áhugaverð og gæti boðað komu nýs risa á svið rithöfunda á Íslandi, og enginn mun kaupa hana eða lesa hana af því að það eru þrjátíu stærri nöfn og númer líka að gefa út skáldsögur í nóvember og hún gjörsamlega drukknar í flóðinu? Hvernig þjónar þetta nokkrum einustu hagsmunum? Af hverju erum við ekki eðlileg bókaþjóð þar sem Bergþóra (svo ég taki hana sem dæmi, þau eru auðvitað mörg svipuð um góðar bækur sem drukkna í flóðinu á hverju ári) gæti bara gefið út í miðjum mars og deilt athyglinni með mest 1-2 öðrum merkum höfundum sem gæfu út í sama mánuði? Þau gætu jafnvel túrað landið saman og kynnt bækur sínar, einokað athyglina þann mánuðinn, verið út um allt í fjölmiðlum, öll viðtölin og öll gagnrýnin og bók vikunnar og svo framvegis, og við myndum öll mæta í bókabúð í mars og kaupa af því að bókin hennar Bergþóru er svo kúl og spennandi og áhugaverð? Ekki séns. Hún gefur út í nóvember og drukknar í flóðinu, vonar að fólk uppgötvi sig kannski í janúar þegar mestur skugginn af risunum fer þverrandi með hækkandi sólu, og svo „á hún bókina inni“ þegar hún gefur út næst og fólk uppgötvar að það getur lesið ekki eina heldur tvær frábærar skáldsögur eftir þetta nýja skáld, eða ekki eina heldur þrjár, eða ekki eina heldur fjórar!, eða fimm!, jafnvel fimm bækur! Bækur virka ekki svona, þær eiga ekki að virka svona. Bækur eru persónulegar og þótt það komu stöku sinnum fyrir að ég lesi bók hratt, klári jafnvel á kvöldstund eða svo, þá er yfirleitt eðlilegra að ég lifi með bók í smá tíma, kynnist henni, eigi samtal við höfundinn sem nær yfir einhverja daga eða vikur þar sem þessi höfundur og texti viðkomandi er mér nærri, liggur á mér, sækir á drauma mína, hvarflar að mér í sturtu og göngutúr og vinnunni og þegar ég skef af bílnum á morgnana. Bókin gerjast, hún kæsist í meðvitundinni þar til hún hefur breytt einhverju innra með manni. Hvernig á þetta að geta gerst þegar allar bækurnar velta inn í einu, berjast um athyglina í átta vikur á ári og restin bara fær aldrei séns? Þetta er galið. Ég hef verið að skrifa alla ævi, síðustu fimm ár eða svo með það fyrir augum að gefa út og haustið 2016 gaf ég út mína fyrstu og einu skáldsögu hingað til. Það fór eins og ég bjóst við, mjög mikið kapphlaup um athygli sem endaði með því að fáir keyptu bókina og hún féll fljótlega í skuggann á öllu hinu sem var í gangi. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið aðdáandi íslenskrar bókaútgáfu það árið. Ef eitthvað er firrtist ég við, fór í hina áttina og ákvað að ég þyrfti nú aðeins að ná andanum áður en ég legði þessa vitleysu á mig aftur. Enda eru liðin þrjú ár og ég hef ekki enn gefið út, og mun sennilega ekki gefa út á næsta ári heldur. Og það blundar í mér að gefa þessari snarrugluðu bókamenningu okkar langt nef og gefa bara út í sumarbyrjun eða janúar, næst þegar ég gef út bók. Eitthvað af fólki gerir slíkt á hverju ári, með misgóðum árangri en það eru samt einhverjar smá hreyfingar í þá áttina að breyta þessum kolruglaða útgáfurythma hér á fróni. Ég vona að það gerist fljótlega, að einhverjir risar taki sig jafnvel til og bíði fram í janúar eða febrúar með stóru skáldsöguna sína, eða gefi út í júlí eða ágúst til að vera vel á undan flóðinu. Það yrði öllum bókum landsins til heilla, ég efast ekki um það. Það er í öllu falli ekki heilbrigt að meirihluti bókasölunnar ár hvert fari fram daginn fyrir jól þegar fólk er varla að pæla í því hvaða bók það er að kaupa heldur grípur bara eitthvað í hörðu pakkana undir tréð.
Höfum þetta síðustu skrifin mín um bækur hér í bili, og síðustu tuðfærsluna. Ég skal reyna að vera skemmtilegri á morgun.
Þar til næst.