Kæri lesandi,

í dag hóf ég störf á nýjum vettvangi. Sama fyrirtæki, en nýr vettvangur. Framvegis keyri ég frá Hafnarfirði til Sandgerðis í vinnu, og svo væntanlega heim aftur að vinnu lokinni, á hverjum degi. Ég hef ekki alveg gert upp við mig hvort það sé plús eða mínus að keyra í klukkustund á dag til/frá vinnu. Ég mun eflaust hlusta meira á hljóðbækur en áður, það fer í plúsdálkinn. Þetta er samt þreytandi, það er mínus. Kemur í ljós.

Í morgun tók vegurinn á móti mér með einhvers konar djöflasýru; það er, ógurlega djúpu og háskalegu frosti sem gerði það að verkum að ég mátti hafa mig allan við að renna ekki á rassinn þegar ég burðaðist með tölvur og tæki út í bíl, og svo úr bílnum í Sandgerði. Fótbrotið, þú manst kæri lesandi, ég má ekkert detta. Ekki var aksturinn mikið síðri, þrátt fyrir að vera á nýjum vetrardekkjum lét bíllinn á köflum illa að stjórn svo að ég varð að hægja á mér. Stundum er rosalega erfitt að þurfa að hægja á sér.

Talandi um bíla, hraða og greiðar götur. Í gærkvöldi fór ég í bíó á kvikmyndina Ford v Ferrari. Ég var eiginlega ekkert spenntur fyrir þessari mynd, þótt hún væri í leikstjórn hins frábæra James Mangold, en sló til með vini þegar við sáum hversu góða dóma hún er að fá. Það er líka skemmst frá því að segja að þetta er algjörlega frábær mynd, ein af þeim betri sem ég hef séð síðustu árin. Hér hittir allt algjörlega í mark; leikararnir eru frábærir, bílasenurnar glæsilegar, handritið óaðfinnanlegt og leikstjórnin jafnvel enn betri. Ég elskaði hreinlega allt við þessa mynd og mun horfa á hana oftar þegar hún kemur í heimabíó. Með betri bílamyndum sem ég hef séð.

Annars er þetta dagur breytinga. Gærdagurinn var það líka, sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég varð að blása aðeins frá mér og „flýja“ í bíó í gærkvöldi, sem og ástæðan fyrir því að ég skrifaði ekkert hér á vefinn. Afsakaðu mig, kæri lesandi. Ég geri eins vel og ég get.

Breytingar eru eitthvað sem maður eyðir kannski of miklum tíma í að kvíða og óttast fyrirfram, byggir upp í sér óvissuna og einblínir á allt sem gæti farið úrskeiðis. En svo koma breytingarnar og viti menn, ég er bara ennþá á lífi og jafnvel sterkari eftir á. Ég er því bjartsýnn hér á breytingadegi númer tvö í röð, sit á nýjum vinnustað (með gömlu tölvuna) og skrifa þessi orð í hádeginu, fullur iðrunar eftir að hafa ekki komið pælingum í orð í gær. Mér mun ekki leiðast í bílnum. Ég verð feginn að vera loks með fangið fullt af verkefnum á ný í vinnunni. Ég mun fjölga daglegum skrefafjölda. Ég er fallegt og einstakt snjókorn. Breytingar eru af hinu góða.

Helgin verður líka góð. Ég er alveg viss um það.

Þar til næst.