Dóttir mín (11 ára): Pabbi, veistu hvað T.A.G. þýðir?
Ég: Nei. Hvað þýðir það?
Dóttir: Touch and Go.
Ég: Það er sennilega rétt hjá þér. Hvar heyrðirðu þetta?
Dóttir: Ég var bara eitthvað að pæla í þessu.
Kæri lesandi,
ég horfði á The Irishman í kvöld. Mafíusögur í leikstjórn Martin Scorsese, aðalhlutverkin í höndum Robert De Niro, Joe Pesci og Al Pacino. Draumateymið mætt til starfa á ný, einu sinni enn. Myndin hefur fengið magnaða dóma, og ég skil alveg af hverju. Scorsese gerir svona myndir betur en allir í sögu hreyfimynda, og ef De Niro, Pesci og Pacino gera mafíumynd ekki betri með nærveru sinni veit ég ekki hvað.
Mér fannst hún … góð. Mjög góð, jafnvel. Á köflum frábær. Hún er auðvitað allt of löng, þessi saga þurfti ekki þrjá og hálfan tíma (210 mínútur sko!) til að anda og njóta sín. Tveir og hálfur hefðu nægt. Svo er það auðvitað mitt vandamál að ég hef aldrei tengt neitt sérstaklega við mafíósamyndir. Goodfellas, The Godfather, Casino, o.sv.frv. Þetta eru frábærar myndir, en þær hafa aldrei skipt mig máli tilfinningalega. Ég hef aldrei tengst þeim. Þannig að ég get ekki sagt að ég hafi misst mig yfir þessari mynd, þótt hér sé allt frábærlega vel gert.
Annað sem truflar mig er að Scorsese velur þá leið (sennilega til að geta notað hina öldruðu meistara (Pesci og De Niro eru 76 ára, Pacino 79) í aðalhlutverkum) að notast við tölvutækni til að yngja þá félaga upp í þeim stóra hluta myndarinnar þar sem þeir eru yngri. Þannig að allavega helming þessara 210 mínútna ertu að horfa á tölvubreytt andlit leikara sem þú þekkir gríðarlega vel. Þetta er vel gert, en þeir ná augunum ekki alveg og stundum er eins og húðirnar á andlitum þeirra hreyfist ekki alveg rétt. Ekkert sem maður getur bent á og sagt, „þetta á að vera svona, ekki svona“ en samt nógu EkkiRétt til að maður finni fyrir því. Þetta gefur þeim óþægilega nærveru sem truflar mig við áhorf myndarinnar.
Bobby Cannavale er einn af mörgum frábærum aukaleikurum í myndinni. Ég spyr mig hvort hann hefði ekki hreinlega getað leikið Jimmy Hoffa. Eða kannski hinn frábæri Stephen Graham, sem er einnig í þessari mynd og er í raun nokkuð líkur Jimmy Hoffa í útliti. Russell Crowe hefði getað leikið Frank Sheeran í stað De Niro og einhver eins og Shea Wigham hefði getað leikið Bufalino í stað Pesci. Eða kannski bara leiða DiCaprio og Damon aftur saman, eftir The Departed, kannski Alec Baldwin líka eða eitthvað.
En, þá væri þetta auðvitað ekki Scorsese-mynd. Hann vinnur með sínu fólki, fer sínar leiðir. Ég vildi bara óska að helmingur myndarinnar væri ekki í uncanny valley. Fín mynd, samt.
Í dag héldum við fjölskyldan fyrstu af þremur barnaafmælisveislum fyrir Kollu. Hún varð sex ára um síðustu helgi en flensan mín þýddi að við urðum að fresta veislunni á sunnudag fyrir viku. Og fyrir vikið erum við með heimboð þrjá daga í röð þessa helgina; í dag komu nokkrir vinir með krakkana sína, fólk sem kemst ekki vegna anna í stóru veisluna á morgun. Það verður eiginlega afmælisveislan, báðar stórfjölskyldurnar og vinir mæta með börnin sín og hér verður allt á tjá og tundri, það er næsta víst. Á mánudag býður Kolla svo bekkjarsystrum sínum heim í pítsu og leiki. Ég býst við allsvakalegri bugun okkar foreldrana hér um bil á þriðjudagsmorgun. Þetta er samt gaman, ekkert nema yndislegt fólk að koma og fagna með Kollu litlu og svei mér þá ef það er ekki það yndislegasta sem ég upplifi að sjá hana gleðjast.
Þar til næst.