Kæri lesandi,
hér er mitt daglega blogg, nema að ég hef í raun ekkert sérstakt umræðuefni í huga. Þannig að hér er áskorun til sjálfs mín: þessari færslu er ekki lokið fyrr en ég hef látið mér detta í hug a.m.k. fimm góða punkta til að koma á framfæri. Einn, tveir og byrja!
Fjölskyldan hélt aðra af þremur afmælisveislum í dag fyrir Kollu litlu. Sú þriðja, bekkjarafmælið, er annað kvöld. Bugunin er ansi sterk í kvöld, það gæti orðið erfitt að hrista annan eins hressleika fram úr erminni annað kvöld, en við erum þaulvön og gerum okkar besta. Nota bene, þetta er ekki einn af góðu punktunum fimm. Ég sleppi sjálfum mér ekki svo auðveldlega.
Einu sinni fór ég inn á kaffihúsið Central Perk í New York. Svo fór ég einu sinni inn á kaffihúsið Central Perk í Liverpool. Mér skilst að þau séu ansi mörg og dreifð um heiminn. Þetta er jafnvel orðin kaffihúsakeðja á heimsvísu. Central Perk er dæmi um stað sem fólk vill ekki upplifa heldur virðist kaffihúsið þjóna þeim helsta tilgangi að leyfa fólki að geta sagst hafa farið þangað. Það er örugglega næstum enginn sitjandi inni á CP kaffihúsi bara að sötra kaffi og lesa ljóð eða á stefnumóti. Þangað inn fer fólk til að taka sjálfur og pósta þeim á netinu til að monta sig.
Ég man þegar ég fór í fyrsta sinn upp í Empire State-bygginguna. Auðvitað tókum við myndir þar uppi, og birtum einhverjar þeirra á netinu jafnvel. En svo lagði ég áherslu á að leggja myndavélina frá mér og ganga hringinn á útsýnispallinum, bara skoða mig um og vera þarna í dágóðan tíma. Það gerðist nokkrum sinnum á meðan ég gekk þennan hring að fólk allt að því skammaði mig fyrir að vera að taka pláss án þess að vera að „nota“ það (þýðing: án þess að vera að taka sjálfur í sífellu). Fólk vill ekki upplifa staði og viðburði. Það vill bara geta sagst hafa verið þarna.
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kunngjörð í dag. Í flokki fagurbókmennta voru áhugaverðar og eflaust góðar bækur, þótt ég eigi eftir að lesa þær allar. Ég sakna þess þó að ekkert framúrstefnulegt sé að finna á þessum lista. Íslenskar bókmenntir eru fastar í ákveðinni kreðsu þar sem öll áhersla er lögð á fallegan texta og íslenskar frásagnir (vesturbærinn, 101, sveitasögur, bildungsroman, o.sv.frv.). Í raun er engin bók nokkru sinni tilnefnd sem vogar sér að skora sýn meirihlutans á hólm (með örfáum undantekningum síðustu árin).
Ég hef oft sagt það að mér finnst íslenskar bækur of mikill bransi. Fólk gefur út til að gefa út, skrifar „safe“ bækur sem falla auðveldlega inn í einn eða annan flokk, og ekki margir höfundar vaða á milli bókaflokka. Og fyrir vikið er mikið af mjög góðum bókum á hverju ári, jafnvel nokkrar frábærar, en engin sem lifir neitt lengur en í nokkur ár. Trúið þið mér ekki? Nefnið eina skáldsögu sem hefur komið út á síðasta áratug sem verður mögulega kennd í framhaldsskólum eftir fimmtíu ár.
Nei? Hélt ekki.
Í dag var rok. Það var líka talsvert hlýrra en undanfarna daga, sem er vel. Ég þarf ekki að ganga um eins og ölvuð mörgæs næstu daga af ótta við FÓTBROTIÐ MITT! Sorrý, missti mig aðeins. Nei, ég ræð við rok. Blásið, vindar breytinga, vindar desembermánaðar, blásið! Eins lengi og hlýindin endast og við fáum rauð jól, rauðan janúar, rauðan febrúar …
Til er fólk, íslenskt fólk, sem horfir á spjallþætti um stjórnmál alla daga vikunnar, sem hlustar á útvarpsspjall um stjórnmál, les allar greinarnar, allar fréttirnar, horfir á það nýjasta af Alþingi Íslendinga í hverjum kvöldfréttatíma í sjónvarpi, fylgir stjórnmálafólki á Twitter og les statusa þeirra á Facebook.
Það er eitthvað að þessu fólki. Stjórnmál á sunnudögum? Plís. Hlífið mér.
Ég er að horfa á sjónvarpsþættina The Watchmen. Þeir eru mín stjórnmál. Þættirnir eru beint framhald af myndasögunni klassísku, gerast í nútímanum í eins konar hliðstæðum veruleika. Þetta kann að virka ruglandi, og það er sennilega nauðsyn að hafa lesið myndasöguna áður en horft er á þættina, en þetta er líka ógeðslega gott. Þvílíkt sjónvarpsefni. Reyndar eru bara sex þættir búnir, af níu í fyrstu þáttaröð, en ef þessir þættir halda dampi erum við að tala um eitthvert besta sjónvarpsefni sem ég hef séð. Jeminn einasti.
Það skemmir heldur ekki fyrir að Trent Reznor og Atticus Ross sjá um tónlistina í þáttunum. Ég hef hlustað á sándtrakkið undanfarna daga og losna varla við það úr höfðinu. Frábær hljóðrás fyrir frábæra þætti, enda ekki við öðru að búast frá king Trent og Atticus prins.
Þetta voru fimm punktar. Misgóðir, en whatever, nevermind. Það er sunnudagskvöld og ég er þreyttur. Á morgun er önnur veisla. Aumingja ég.
Þar til næst.