Kæri lesandi,

það tekur mig þrjátíu mínútur að keyra út í Sandgerði. Í tuttugu og fimm af þessum mínútum keyri ég á Reykjanesbrautinni með öðrum bílum, snemma morguns. Úti er svartamyrkur svona snemma morguns en umferðin er stöðug og það er að ýmsu að huga. Kennileitin renna hjá eitt af öðru; álverið í Straumsvík, sumarbústaðirnir í Hvassahrauni, Kúagerði, Vatnsleysuströnd, Vogarnir, upp hæðina og framhjá Grindavíkurafleggjaranum, Hollywood-skiltið, Njarðvík, Miðnesheiðin, Kanahverfið, Leifsstöð …

… og svo beygi ég út á afleggjarann frá Leifsstöð að Sandgerði. Keyri inn í myrkrið. Skyndilega eru afskaplega fáir bílar á ferli, ljósastaurarnir hafa verið skildir eftir í siðmenningunni, og ég hef aðeins bílljósin frá sjálfum mér til að lýsa leiðina frá ljósinu. Hraunið sem myndar nær allan Reykjanesskaga víkur fyrir sléttu berginu, auðn sem virðist miklu stærri en myrkrið sjálft. Ég keyri í víðri vinstribeygju sem endist í nokkrar mínútur, lengra og dýpra inn í tómið, ekki eitt ljós sýnilegt við sjóndeildarhringinn. Loks lýkur beygjunni, ég ek yfir litla hæð og þá birtast þau, ljósin í Sandgerði. Húsin umlukt hólmum, sandurinn og fjaran. Hér búa ekki margir, en sundlaugin og íþróttamiðstöðin taka samt fyrst á móti manni þegar ekið er inn í bæinn. Svo íbúðarhverfin sem víkja fljótlega fyrir lífæð plássins, fiskverkununum sem eru fjölmargar, enda kjörið að vinna fisk hér svo nálægt alþjóðaflugvellinum. Hentar vel til útflutnings.

Ég talaði við mágkonu mína í gær. Hún keyrir líka úr Hafnarfirði suður á Reykjanesið á hverjum degi til vinnu. Hún rifjaði upp þegar hún hóf störf fyrir nokkrum árum, í janúarmánuði. Þá hélt hún að hún hefði gert mistök, fannst eitthvað svo skuggalegt og drungalegt að keyra úr ljósinu og inn í myrkrið á hverjum morgni, og snúa ekki heim fyrr en farið var að myrkva á ný eftir stutta daga. En svo snerist þetta við, hin hlið Íslands sýndi sig og hún sá hvers vegna þetta er yndislegt.

Stórkostlegt landslagið á Reykjanesinu nýtur sín enda miklu betur í birtunni. Maður keyrir hraunið til vinnu og starir svo á Esjuna og Reykjavík úr fjarska þegar maður keyrir til baka. Í myrkrinu tapast þetta og stemningin verður bæði fátæklegri og drungalegri. Maður fær hálfgerða innilokunarkennd við að keyra úr ljósinu.

Eitt breytist þó ekki, og það er kyrrðin. Yfirmaður minn keyrir líka úr bænum hingað í Sandgerði á hverjum degi. Hann kallar þetta verndaðan vinnustað. Hingað koma engir til að heimsækja okkur nema þeir sem eiga erindi. Það getur verið ókostur að vera svo langt frá höfuðborgarsvæðinu, miðstöð okkar fjölskyldulífs og daglega amstri, en það er líka stór kostur. Kyrrðin er yndisleg. Ég geri það sem ég vil.

Þar til næst.