Kæri lesandi,
ég talaði um daginn um bestu spennusögurnar sem ég hef lesið á þessu ári. Ég talaði hins vegar ekki um uppáhalds bókina mína í ár. Hún heitir Home and Away: Writing the Beautiful Game og er skrifuð af Fredrik Ekelund og hinum heimsfræga Karl Ove Knausgård. Tveir sænskir rithöfundar sem tóku sig til og skrifuðust á á meðan HM í knattspyrnu árið 2014 stóð yfir. Keppnin fór fram í Brasilíu það skiptið, en Ekelund var einmitt staddur í Brasilíu á meðan Knausgård var heima í Svíþjóð.
Bókin er einföld. Bréfaskrif þeirra á milli þar sem leikirnir þann daginn á HM virka sem eins konar útgangspunktur fyrir allar þeirra pælingar. Fótboltaskrifin eru samt í raun í minnihluta, þeir fara um víðan völl og gerast jafnvel ansi persónulegir á köflum. Endurminningar, alls konar hugleiðingar um alls konar málefni, birtingarmyndir menningar í knattspyrnu, og svo mætti lengi telja. Þegar svona flinkir höfundar skrifast á verður útkoman algjört gúrmeti sem ég hef gefið mér góðan tíma í að lesa. Í raun eru átta eða níu mánuðir síðan ég hóf að lesa bókina, og ég er bara hálfnaður. Besta leiðin til að lesa þessa bók væri sennilega eins dags bréfaskriftir á hverjum degi í mánuð, til að vera um það bil jafn lengi að lesa þetta og þeir voru að skrifast á. Mér tókst þó að klúðra því og ákvað því að leyfa þessu að endast sem lengst, lesa nokkrum sinnum í mánuði í bókinni, leyfa þessu að gerjast og marínerast í heilanum aðeins áður en ég kæmi aftur að bréfum þeirra kumpána.
Hér er gott dæmi. Karl Ove byrjar hér annað bréf sitt sama daginn til Fredrik, í þetta sinn hafa þeir verið að ræða hið eftirminnilega atvik þegar hinn úrúgvæski Luis Suárez beit Ítalann Giorgio Chiellini í öxlina í næstsíðasta leik liðanna í riðlakeppninni. Sjáið bara hversu fallegur texti þetta er, og hvernig Knausgård fléttar bit Suárez snilldarlega inn í pælingar sínar:

Fjögur hundruð blaðsíður af svona konfekti. Þetta er frábær bók. Uppáhalds bókin mín í ár. Nú vantar mig bara einhvern til að skrifast á við.
Ég er að skrifa sjálfur, skrifast á við sjálfan mig. Þetta gengur hægar en ég vildi, ég þarf að temja mér ansi mikla þolinmæði á köflum. Vandinn er að ég er að vinna í handriti sem ég hef legið yfir svo lengi, hóf skrif 2016 og „kláraði“ formlega, að ég hélt, í mars 2018. Svo reyndist þó ekki, eftir yfirlestur varð ljóst að ég þurfti að vinna betur í handritinu svo að endurskrifunum fjölgaði ört þar til ég missti tölu á því hve oft ég hef lagt af stað í nýtt uppkast. Einhvers staðar á leiðinni tókst mér að tapa þræðinum, söguþræðinum altso, en eftir mikið bras þóttist ég aftur vera klár með fullunnið handrit í lok síðasta árs. Enn reyndist það ekki raunin, í það skiptið afþökkuðu útgefendur og ég réði mér eins konar töfralækni til að rýna með ferskum augum í þetta. Sá sýndi mér að enn væru stórir gallar á sögunni og eftir algjört skrifhrun í meira en hálft ár á þessu ári hef ég verið að skríða í gang í haust. Enn reyni ég við handritið, það neitar að láta mig í friði þótt ég sé hættur að sjá skýrt, svo oft hef ég legið yfir þessu. Vandinn er að þetta er metnaðarfullt verk, stór og flókin saga, og sá grunur læðist að mér að ég sé hreinlega ekki nógu snjall til að láta þetta ganga upp. Eða þá að þessi saga getur ekki gengið upp og ég er að refsa sjálfum mér að óþörfu. Ég veit það ekki, ég sé það ekki svo glatt sjálfur eftir allan þennan tíma og alla þessa fyrirhöfn.
Handritið neitar samt að láta mig vera. Ég hef stigið frá því og byrjað önnur skáldsagnahandrit, skrifað smásögur og ljóð, pistla og blogg, autofiksjón í anda Knausgård og ég veit ekki hvað, en alltaf neitar þetta helvítis handrit að gefa mér grið. Ekkert af þessu eru frumlegar raunir á meðal rithöfunda, kæri lesandi. Þetta er algengt. Það bara hjálpar mér samt ekki neitt á meðan ég spyr sjálfan mig einu sinni sem svo oft áður: er ég að sóa tímanum í þetta handrit sem vonlaust er að verði að bók? Eða væru það risastór mistök að ganga frá borði eftir að hafa lagt svona mikið í þetta? Sá á kvölina sem á völina.
Þessa dagana rembist ég við að vinna í þessu. Ég tek góða skorpu, skrifa helling og kem góðu í verk, en svo er eins og efinn sæki að mér og lami. Ég tek eitt skref áfram og tvö afturábak. Ég gæfi ansi mikið fyrir að ná að snúa þeim hlutföllum við. Ég hef íhugað ýmsa kosti, einna helst dettur mér í hug að gefa sjálfum mér endapunkt, segja við mig að ef ég verði ekki búinn að leysa hnútana fyrir dagsetningu X þá skuli ég tafarlaust setja þetta í skúffuna og gleyma því í nokkur ár að þetta handrit sé til. Ég á þetta þá alltaf til ef/þegar ég fæ hugljómun eða ákveð að reyna aftur. Þetta er aldrei alveg glatað, og fjandinn hafi það ef öll þessi innistæða í reynslubankanum skilar sér ekki með ávöxtum þegar ég skrifa næstu bók þar á eftir.
Ég var með fleiri pælingar á blaði en þær verða að bíða betri tíma. Ég hef skrifað helling hér um rithöfunda, sjálfan mig og aðra. Látum það nægja í bili. Það er fótboltaleikur í sjónvarpinu. Skyldu Fredrik og Karl Ove vera að horfa?
Þar til næst.