Kæri lesandi,
þetta er nokkuð gott spjall á milli Brad Pitt og Anthony Hopkins. Þeir eru báðir á þeim stað í lífinu að þeir geta horfst í augu við eigin misbresti og gert upp fortíðina án þess að reyna að fegra mistökin. Það hefur reyndar oft verið sagt um Pitt að hann sé frekar þunnur pappír en hann kemur ágætlega út úr þessu spjalli, virðist allavega horfa á hvirfilbyl síns persónulega lífs undanfarin ár af ákveðinni dýpt.
Þetta fannst mér sérstaklega gott:
PITT: “Fuck it.” That was one of the first things I heard you say, back during Legends of the Fall when I was just getting my opportunity. And it always stuck with me. It seems to be a theme, a guiding principle. “Fuck it.”
HOPKINS: I once asked a Jesuit priest, “What is the shortest prayer in the world?” He said,“Fuck it.” It’s the prayer of re-lease. Just say, “Fuck it.” None of it is important. The important thing is to enjoy life as it is. Your life today, it’s fantastic.
Tilhugsunin um að „Fuck it!“ geti virkað sem eins konar bæn er bæði mjög rökrétt og fyndin. Ég ætla að temja mér þetta. Fuck it. Eru allir Jesúítar svona svalir?
Í gær rak ég augun í eitthvað írafár á netinu, á meðan ég sat á pöllum Ásvallalaugar og horfði á dætur mínar á sundæfingu. Svo virðist sem Billie Eilish hafi móðgað einhverja miðaldra varðhunda smekkleysunnar með því að þekkja ekki hljómsveitina Van Halen. Burtséð frá því að Van Halen skinu skærast rúmlega tuttugu árum áður en Eilish fæddist þá finnst mér endalaust skrítið þegar svona varðhundar (aðallega hvítir, miðaldra, karlkyns) æsa sig yfir því að annað fólk þekki ekki það sem er þeim kært. Ég á tvær dætur, stundum fæ ég að „fræða“ þá eldri sem er orðin nógu forvitin til að spyrja. Það er gaman, til dæmis um daginn þegar við horfðum á myndina Yesterday og í kjölfarið fékk hún áhuga á að hlusta á meira en bara þessi 3-4 Bítlalög sem hún þekkti. Hún hefur þekkt Bítlana frá æsku (aðallega af því að ég söng alltaf „Yesterday“ fyrir háttinn þegar hún var yngri) en hún veit til dæmis ekkert hverjir Rolling Stones eru, og því síður þekkir hún Bob Dylan eða U2, og svo framvegis. Um daginn sýndi ég henni Madonnu og hausinn á henni sprakk, þetta voru spánnýjar upplýsingar í hennar heimi.
Þegar ég var ellefu ára hafði ég ekki hugmynd um hverjir The Kinks eða The Monkees voru. Ef þú hefðir spurt mig átján ára gamlan (sem er aldur Billie Eilish í dag) hvort ég þekkti The Crew-Cuts hefði ég yppt öxlum, og ég er viss um að karlmenn af kynslóð pabba míns eða afa hefðu ekki hneykslast á því.
Þetta er svo asnalegt. Hún er átján ára, og ekki með doktorsgráðu í tónlistarsögu. Jafnið ykkur.
Talandi um gamla tónlist, samt. Ég hef aðeins verið að skoða tónlistarhlustun mína nýlega (eins og svo margt annað, naflaskoðunin teygir anga sína víða). Ég er fæddur 1980 og því 90’s barn, og sérstaklega eru grunge-rokkararnir stórir póstar í mínu lífi. En það verður að segjast eins og er að mest af 90s rokki er rosalega niðurdrepandi. Tónlistin er algjörlega mögnuð, goðsagnakenndar hljómsveitir á víð og dreif þarna, en gruggararnir gátu samið svoleiðis endalaust dapra texta að það hálfa væri nóg. Ég þoldi við í mörg ár en svo, fyrir tveimur og hálfu ári, tók Chris Cornell upp á því að gefast loksins upp fyrir draugum sínum og hengja sig út úr þessari jarðvist. Það var mér mikill skellur persónulega, enda Chris vinur minn og margra, en líka af því að hann hafði sungið svo endalaust falleg lög um depurð og þunglyndi og kvíða, í mörg ár, og þau voru lituð þeim ljóma að hann gat horfst í augu við djöfla sína og lifað af. Þegar hann var ekki lengur sá sem lifði af fór ég að sjá þetta tímabil í tónlistinni öðrum augum. Og nú, þegar ég reyni að stara niður mína eigin djöfla, þá er ég eiginlega á þeirri skoðun að þessi lög séu ekkert sérstaklega holl.
„I feel so alone, gonna end up a big old pile of them bones.“
„Pretty noose is a pretty pain.“
„I’m so ugly, that’s okay ‘cos so are you.“
„Nothingman, isn’t it something, nothingman?“
„Despite all my rage I am still just a rat in a cage!“
Sorrý, strákar. Ég þarf hvíld. Á hilluna með ykkur.
Undanfarið hef ég verið að hlusta mikið á kvikmynda- og sjónvarpstónlist. Þar má finna alls konar efni, frábært tónlistarfólk sem gerir eftirminnilega tónlist. Við þekkjum öll verk Howard Shore eða Ennio Morricone eða Hans Zimmer, Cliff Martinez eða hin íslensku Jóhann Jóhanns og Hildi Guðna sem hafa slegið í gegn á þessum áratug (mikið sakna ég Jóhanns, eða réttar þess sem hann hefði getað fært okkur hefði hann fengið séns á því). Síðustu vikur hef ég hlustað mikið á Joker-sándtrakkið hennar Hildar, sem og magnað sándtrakk fyrir Watchmen-þættina í höndum þeirra Trent Reznor og Atticus Ross. Kannski kjarnar það meiningu mína hérna ef ég segi að ég er farinn að hlusta miklu minna á Nine Inch Nails, hljómsveit Reznor og Ross, og miklu meira á sándtrökkin þeirra. Ég þarf sköpun í mitt líf, ekki niðurdrepandi texta og concept-plötur um sjálfsmorð. Á hilluna með’ða!
Síðustu daga hefur staða drengja og karla verið í umræðunni hér heima. Birtar voru niðurstöður PISA-mælinga þar sem kemur fram að um þriðjungur grunnskóladrengja nær ekki lágmarksviðmiði um læsi. Ofan á þetta bætast svo sífelldar fréttir af minnkandi hlutföllum karlmanna í háskólanámi og hruni í almennum lestraráhuga karlkyns. Þessar niðurstöður valda auðvitað þungum áhyggjum, það er öllum ljóst að eitthvað verður að gera í þessu en engin stór lausn hefur enn fundist. Nema, það er, ef þú spyrð ákveðna kreðsu karlmanna (aftur, aðallega hvítra og miðaldra) sem ákveða að kenna femínisma um. Í vikubyrjun ritaði einhver fyrrum sálfræðingur grein sem flaug víða þar sem hann kallaði karlmenn „hið þögla kyn“. Ég ætla ekki að vísa í þessa grein, hún er vitlaus. Ég las hana alla og reyndi að skilja hvert hann væri að fara, hvort hann væri í alvöru með einhver rök fyrir þeirri vitleysu sinni að það væri konum að kenna að karlmenn eigi undir högg að sækja á menntasviðinu. En nei. Hann var aðallega bara að röfla um það hvernig karlmenn sættu undiroki og mismunun hvarvetna í þjóðfélaginu, kúgaðir upp til hópa af frekum konum, þessi grey.
Þvílíka kjaftæðið. Sú tilhugsun að konur hafi kúgað karla síðustu áratugina, en ekki öfugt, er ekki bara vitlaus, hún er móðgandi. Og þessi fórnarlambavæðing hvíta, miðaldra karlsins á Íslandi (og víðar), þetta endalausa væl af því að aðrir þjóðfélagshópar eru loksins að öðlast raddir og vettvang til að mótmæla ykkur, er gjörsamlega óþolandi. Hættiði þessu væli. Í alvöru. Næstum því engir þjóðfélagshópar hafa það jafn gott í víðri veröld og hvítur karlmaður sem fæðist á Íslandi. Auðvitað þjást allir, það er hluti af lífinu, hin jarðneska tilvist okkar allra býður upp á súrt og sætt á víxl. Þetta er bara ein matskeið af lýsi, strákar, kyngið þessu bara og ekki vera dramadrottningar.
Nema þegar kemur að minnkandi námsáhuga karlmanna. Þar verðum við að gera eitthvað. Þar má hafa áhyggjur. En, þetta er ekki konum að kenna. Don’t be stupid.
Annars er ég búinn að vera með ónot í maganum í tvo sólarhringa samfleytt núna. Ástæðan? Ja … segjum bara sem svo að ég mæli ekki með brauðstöngunum á Pizzunni. Bara alls ekki. Slakið aðeins á kryddinu, þarna pítsugerðarfólk. Sum okkar þurfa að sofa á nóttunni, sko.
Þar til næst.