Kæri lesandi,
dagarnir eru teknir að lengjast. Ekki hjá ykkur hinum kannski, enn eru tæpar þrjár vikur í vetrarsólstöður, en ég er að venja mig við lengri daga. Ég vakna fyrr á morgnana, vinn lengur en ég hef gert í marga mánuði (fótbrotið, manstu), svo bætist við keyrslan suður og heim þannig að ég er að koma seinna heim en ég er vanur. Svo hef ég verið drjúgur í öllu stússinu, eins og að elda kvöldmat eða skutla og sækja á æfingar, fara í búð, setja bensín á bílana, sinna heimilinu, fara út og hitta fólk. Allt það sem ég gat ekki gert í 2-3 mánuði. Ég elska þetta, að hafa nóg að gera, að leggjast dauðþreyttur á koddann á kvöldin. Ekki illt í augunum af of miklu sjónvarpsglápi, heldur bara úrvinda. Stutt sturta og svo bara krassa fram til morguns. Dreyma næstum ekki neitt. Vakna endurnærður og hlakka til dagsins sem er fram undan.
Ég veit að mér hættir til að verða stundum svolítið dramatískur í hugsun. Konan mín er dugleg að minna mig á að tempra dramatíkina. En, í tvo mánuði sat ég í sófa eða stól eða rúmi og var ekki viss hvort ég fengi hægri fótinn nokkru sinni að fullu til baka. Ég var of þungur líkamlega, of þungur andlega, og mér fannst ég sitja á bjargbrún og stara niður í hyldýpið. Ég reyndi að vera jákvæður en nokkrum sinnum á dag, til dæmis þegar ég erfiðaði við þá ótrúlega flóknu athöfn að fara í sturtu með fótinn í gifsi, þá örvænti ég í svona hálftíma, endalaust langan hálftíma. Ég veit að fólk fótbrotnar, ég er ekkert einn um að hafa þurft að sitja heima í tvo mánuði, en … kannski voru ekki allir á slæmum stað fyrir. Fótbrotið mitt gerði illt verra.
Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að ganga uppréttur. Ég má kannski ekki fara í ræktina eða sparka í bolta strax (næsta sumar, watch me) en mér líður eins og ég hafi dansað við djöfulinn og lifað til frásagnar.
Í dag, í vinnunni, þyrmdi hálfpartinn yfir mig. Ég þurfti að skjótast niður á neðri hæðina svo ég stóð á fætur, gekk út af skrifstofunni og fram á stigapall og gleymdi mér, tiplaði á tánum niður tröppurnar. Fattaði ekki hvað ég hafði gert fyrr en ég hafði lokið erindi mínu og fór aftur upp sömu tröppur. Ég hef ekki mátt tylla mér á tábergið, og ég hef alls ekki leyft mér að ganga öðruvísi en þunglamalega, stígandi í allan fótinn, upp og niður stiga. Ég fór upp, inn á skrifstofu, settist og varð bara hálf tilfinningasamur. Af því að þetta var bara ekkert sjálfgefið, af því að í tvo mánuði var ég skíthræddur á hverjum degi um að beinið myndi aldrei gróa (það gekk illa, sko, myndatökur sýndu enga grósku í tvo mánuði og til stóð að senda mig í aðgerð til að fá ígrædda plötu í beinið) og ég yrði bara við hækju eða göngugrind það sem eftir væri.
Æi, maður má vera meyr stundum. Ég er þakklátur fyrir að geta stigið í hægri fótinn. Það er ekki sjálfgefið.
Annars kom í kvöld heim til mín pakki sem ég pantaði mér á netinu. Í pakkanum er svolítið sem ég er mjög spenntur fyrir. Box sem gæti bætt bæði líf mitt og skrif til muna. Ég skrifa eflaust meira um þetta góða box síðar. En nú er ég þreyttur og ætla að fara að sofa.
Þar til næst.