Kæri lesandi,

það er komið að uppgjöri. Í desember á hverju ári sendir Spotify manni skemmtilega samantekt á ýmsum hlustunartölum yfir árið. Það er bæði mjög gaman að sjá þessa samantekt, og á hverju ári frekar óvænt. Árið í ár var engin undantekning. Förum yfir helstu tölur:

Ég hlustaði á 4.188 lög í ár, eða í alls 23.241 mínútu. Það er minnkun frá síðustu tveimur árum, en ég hlustaði á 27.150 mínútur í fyrra og 29.349 mínútur árið 2017, sem er það mesta sem hefur mælst hjá mér. Ég held að hluti af skýringu minnkunnar geti legið í því að ég var heima hjá mér í tvo mánuði og horfði á ógrynnin öll af sjónvarpi, hlustaði talsvert minna en venjulega á Spotify yfir þann tíma. Þetta er samt mikill tími, það er á hreinu. 23 þúsund mínútur eru rúmlega 387 klukkustundir eða rúmlega 16 sólarhringar.

Þess utan hlustaði ég á hljóðvörp í 1,436 mínútur á Spotify í ár, aðallega þrjá þætti sem ég er ekki með í áskrift annars staðar. Þetta eru langt því frá tæmandi tölur fyrir hljóðvörp, ég nota aðallega appið Downcast í símanum fyrir áskriftarveitur að hljóðvörpum þannig að þessi mínútufjöldi væri miklu hærri ef ég hefði sams konar samtölur þaðan.

Ég hlustaði á tónlist frá 25 löndum í ár og 18 tónlistarflokkum. Ég hlustaði á tónlist frá 220 nýjum flytjendum í ár, sem ég hafði aldrei hlustað á áður. Munar þar mest um uppáhalds hljómsveitina mína í heiminum, TOOL, sem settu tónlist sína loksins á Spotify og aðrar streymisveitur í byrjun ágúst og gáfu svo út fyrstu plötu sína í þrettán ár, Fear Inoculum, í lok ágúst. Sú plata er klárlega plata ársins fyrir mér og það er ljóst að TOOL hefðu drottnað yfir öllum samantektarlistum á Spotify ef þeir hefðu verið þar inni allt árið. Ég hlusta langmest á þessa hljómsveit, til dæmis er ég með alla geisladiskana þeirra í bílnum og nær ekkert annað efni til að hlusta á í spilaranum þar. Þannig að hingað til hefur ekki verið hægt að mæla hlustun á þessa snillinga. Ég býst fastlega við að þeir einoki þennan lista að ári.

En, 2019 fór sem sagt svona. Franska þungarokkssveitin Gojira var sá flytjandi sem ég hlustaði oftast á í ár, ég hlustaði á þá í alls 16 klukkustundir. Þetta stafar mestmegnis af því að ég er haldinn eins konar lotugræðgi þegar kemur að tónlist. Ég fæ eitthvað á heilann og hlusta á það og ekkert annað í dágóðan tíma, svo fæ ég leið og tek lotu á einhverju öðru. Í upphafi árs enduruppgötvaði ég plöturnar L’enfant Sauvage frá 2012 og Magma frá 2016, báðar með Gojira, og hlustaði á næstum ekkert annað í tvo mánuði. 90% af Gojira-tölunum koma sem sagt frá janúar og febrúar, enda raða lög af þessum plötum, og sérstaklega Magma, sér inn á topplagalistann minn í ár. Það lag sem ég hlustaði oftast á í ár er „Only Pain“ af Magma.

Í vor tók ég svo aðra lotugræðgi á áströlsku sveitina Silverchair, hlustaði á þá nær stanslaust í nokkrar vikur, í sumar tók svo bandaríska sveitin Grizzly Bear við og sérstaklega síðasta plata þeirra, Painted Ruins frá 2017 sem mér þykir ótrúlega góð. Frá og með ágúst var það svo TOOL í aðalhlutverki og annað í aukahlutverkum.

Hér eru topp 5 flytjendur mínir á árinu:

  1. Gojira
  2. The Black Queen (þriðja árið í röð sem þeir eru á lista hjá mér, toppuðu síðustu tvö ár)
  3. A Perfect Circle
  4. Nine Inch Nails
  5. TOOL (væru ofar ef ég hefði haft meira en fjóra mánuði af mældri hlustun)

Það verður áhugavert að sjá hvort sömu fimm sveitir skipa toppsætin að ári hjá mér. Vinir mínir í Deftones ætla reyndar að gefa út plötu á næsta ári þannig að ég býst við að sjá þá þarna. NIN, APC og TOOL hafa fylgt mér í 20-25 ár hver sveit og eru alltaf hátt á hverju ári, á meðan Gojira er ein af uppgötvunum þessa áratugar og ég hef haft The Black Queen á heilanum síðan ég uppgötvaði þá fyrir tveimur árum.

Tónlistarmaður áratugarins samkvæmt Spotify-hlustun er hins vegar Kendrick Lamar. Ég get tekið heilshugar undir þá niðurstöðu Spotify. Hann hefur haft meiri áhrif á mig en allir aðrir rapparar til samans í mínu lífi, hreinlega. Ég hef eytt núna 6-7 árum með hann á heilanum, stúderað plöturnar hans eins og ég sé að læra hann til háskólaprófs, legið yfir textum, lesið bækur sem hann vísar í og ég veit ekki hvað annað. Árið í ár er í fyrsta sinn síðan Spotify byrjaði að mæla mig 2013 sem hann er ekki á topp 5. Það var líka viljandi gert, ég ákvað að hvíla mig á honum þar sem hann hefur legið undir feldi í ár og ég vildi geta komið ferskur að tónlist hans þegar hann skýtur væntanlega upp kollinum á næsta ári með nýtt efni. Það er nauðsynlegt að taka pásur, stundum.

Þannig var tónlistarárið 2019 hjá mér, og áratugurinn í hnotskurn. Eigum við ekki að henda í bestu plötur ársins, fyrst við erum að þessu? Hér er minn topp 12:

  1. Fear Inoculum – Tool
  2. Magma – Gojira
  3. Infinite Games – The Black Queen
  4. 6666 – Four Fists
  5. Painted Ruins – Grizzly Bear
  6. Eat the Elephant – A Perfect Circle
  7. In Cauda Venenum – Opeth
  8. Future Dust – The Amazons
  9. Milda Hjartað – Jónas Sig
  10. Book of Romance and Dust – Exit North
  11. In The Future Your Body Will Be The Furthes Thing From Your Mind – Failure
  12. Rare Birds – Jonathan Wilson

Þessar plötur eru ekki allar útgefnar á árinu 2019, ég er orðinn of gamall til að eltast við svoleiðis, en þær eru allar frá síðustu 2-3 árum, Magma sennilega elst frá 2016. Þetta eru samt allt plötur sem voru „nýjar“ fyrir mér, það er að ég tók þær ekki almennilega inná mig fyrr en í ár. Auðvitað gæti ég greint listann og sparkað í sjálfan mig fyrir hversu lítið er af íslensku efni, og hversu mikil punglykt er af þessum lista (í alvöru, það er ekki ein kona í neinni sveit á þessum lista), en ég er aftur orðinn of gamall til að nenna slíku.

Þetta er árið 2019. Ég hlustaði á mikið af tónlist, aðallega nýtt eða nýlegt efni eftir gamlar hetjur, og svo kvikmyndatónlist og playlista. Ég hef átt betri ár og ég hef átt verri ár, en lokaorðið er alltaf þetta: Ár þar sem TOOL gefa út nýja breiðskífu er sjálfkrafa eitt af bestu tónlistarárum ævi minnar. Ég er þakklátur fyrir Fear Inoculum, fyrst og fremst, og í samanburði næstum því sama um allt annað á þessum lista.

Þar til næst.