Kæri lesandi,

ég er staddur í Edinborg. Hingað hef ég ekki komið í tuttugu og fimm ár, þannig að það er gaman að koma hingað og sjá hvernig borgin hefur kannski breyst frá minningunni.

Við flugum með EasyJet í kvöld, laugardagskvöld. Lentum um sjöleytið og tókum lestina inn í borg. Síðan þá höfum við setið á hótelbarnum og drukkið, hlegið og skemmt okkur ærlega. Ég er hér með konunni minni, foreldrum hennar, tveimur systrum og mökum þeirra. Við verðum hér í þrjá daga, bara svona smá pick-me-up og slökun fyrir jólin. Langþráð. Á morgun er ætlunin að versla smá og kíkja á vínframleiðslu, nema hvað. Við erum jú einu sinni í Skotlandi.

Á flugvellinum heima keypti ég eintak af bókinni Innflytjandinn eftir Ólaf Jóhann og las 50 bls í henni í flugvélinni. Ég er að skrifa þetta á glænýtt Belkin-lyklaborð við iPad Pro-inn minn, en á lyklaborðið vantar stafinn ‘Þ’ og ég þarf alltaf að sækja hann sem tákn til að slá honum inn. Það er bæði heimskulegt og seinlegt.

Tengdamamma móðgaði þjóninn á barnum í kvöld með því að spyrja hann hvort lífið hér í “Englandi” væri ekki bara fínt. Svo sagði hún einum tengdasyninum (ekki mér) að hann líktist Brad Pitt. Við hlógum að þessu í allt kvöld.

Einnig ætti ég mögulega ekki að skrifa hér inn í glasi. Látum skynsemina því ráða og slúttum þessu.

Þar til næst.