Kæri lesandi,

fyrsti heili dagurinn hér í Edinborg var góður. Ég varð óvænt verslunarkóngur okkar átta í hópnum. Það var ekki planið, ég ætlaði aðallega að finna mér Vans-skó sem væru helst eins og þeir sem eyðilögðust í brunanum á vinnustaðnum mínum í lok júlí (viku áður en ég fótbrotnaði (þetta ár hefur í alvöru verið alveg gaaalið)) og svo langaði mig kannski að kíkja í Waterstones og finna mér eins og eina eða tvær bækur, til viðbótar við Innflytjandann eftir Ólaf Jóhann sem ég keypti í fríhöfninni á leiðinni út í gær. Þetta fór allt vonum framar, ég fann nákvæmlega sömu Vans-skó og ég átti í Vans-búðinni og svo keypti ég mér bækurnar The Feral Detective eftir Jonathan Lethem (höfund Motherless Brooklyn) og Icarus eftir hinn suður-afríska Deon Meyer sem mig hefur lengi langað til að lesa. Ég er búinn að lesa um hundrað blaðsíður í Innflytjandanum í flugvélinni og hér úti en hef kannski meiri tíma til að lesa á morgun fyrst við ætlum ekki að versla neitt (enda búin með allt sem var á listanum). Svo les ég erlendu bækurnar sem eru mjög spennandi að sjá og stara á mig af náttborðinu.

En, ég lét ekki staðar numið þar, ónei. Ég álpaðist inn í tvær búðir með herrafötum og endaði á að kaupa mér nokkrar peysur og boli, þar á meðal sennilega dýrustu (og eina flottustu) peysu sem ég hef nokkru sinni keypt mér. Við erum að tala um lúxusvöru, eitthvað sem ég er ekki einu sinni viss um að ég geti borið nema að eiga sportbílinn og tannlæknastofuna í stíl. Þið vitið alveg hvernig flík ég er að meina. Þetta er samt svo flott peysa og ég hlakka til að ganga um í henni og leyfa fólki að taka eftir henni. Sem stríðir að mörgu leyti gegn allri minni heimsspeki og stefnu um föt og notagildi/tilgang fatnaðar. Stundum hættir mér til að ofhugsa hlutina, og það er einmitt þá sem ég staldra við, ávíta sjálfan mig og kaupi mér dýra flík. Til að refsa sjálfum mér, skiljiði.

Talandi um refsingar, ég hlýt að hafa gert eitthvað slæmt af mér nýlega því nú berast fréttir af einni verstu lægð sem heimsótt hefur strendur Íslands í ár. Og hvenær ætlar sú lægð að ganga við? Jú, einmitt á þriðjudag þegar ég á að fljúga heim. Mér sýnist því á öllu að ég neyðist til að vera 1-2 dögum lengur í útlöndum. Úff, þau grimmu örlög. Þvílík refsing. Cruel and unusual.

Annars er það helst að frétta að, eins og glöggir lesendur ættu að hafa tekið eftir hér þá hef ég fundið ‘Þ’-takkann á nýja Belkin-lyklaborðinu. Lausnin var ótrúlega einföld, stafurinn er ekki á borðinu en ef ég ýti á SHIFT og kommuna þá kemur ‘Þ’. Ekkert mál. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt, alltaf bætir maður sig sem manneskju. Þarna var þonnið þá. Þetta líf, maður lifandi!

ÞÞÞÞÞÞar til næst.