Kæri lesandi,

enn er ég staddur í Edinborg, hvar lífsins hefur verið notið í dag. Dagurinn hófst reyndar með ansi miklu fjaðrafoki út af óveðrinu sem er nokkuð ljóst að mun leggja gjörvallt Ísland í rúst á morgun (hvílið þið öll í friði, býst ég við, miðað við fréttaflutning dagsins). Við stóðum frammi fyrir ákvörðun í morgunmatnum í morgun, að panta okkur flug heim strax í dag eða að halda áfram að slaka á í jólafríinu litla og bíða róleg eftir flugveðri eftir þriðjudagshvellinn heima.

Úr varð að fjögur af okkur átta ákváðu að fara heim í dag, og í hádeginu brustu taugar hinna tveggja einnig og þau hröðuðu sér upp á flugvöll. Eftir sátum við L og ákváðum að fara hvergi, enda hálf asnalegt að ætla að hálfpartinn flýja heim eftir innan við tvo sólarhringa hérna úti. Einn dagur og tvær kvöldmáltíðir? Það er ekki peninganna virði. Þannig að við sátum á okkur, og ferðin breyttist skyndilega í rómantískt getaway hjá gamla parinu. Tíminn mun auðvitað leiða í ljós hvort við völdum rétt eða hvort vikan verði tómt bras við að komast heim á ný, en við erum dauðslök á meðan. Á morgun er spáð hér roki og rigningu, húfuveðri jafnvel, en auðvitað ekkert í líkingu við það sem þið hin fáið að eiga við heima. Verði ykkur af því.

Það er allavega ljóst að við fljúgum ekkert á morgun eins og upphaflega var áætlað. Sjáum til með miðvikudaginn. Við höfum þegar framlengt bókun okkar hér á hótelinu og bíðum nú bara átekta. Það áhugaverðasta í þessu öllu er að sitja hér og fylgjast með uppfærslum frá flugfélögum. Icelandair aflýsti öllu sínu flugi strax í dag, fyrir morgundaginn, en erlendu flugfélögin hafa ekkert uppfært hjá sér. Við eigum tæknilega flug síðdegis á morgun með EasyJet en það er ljóst að því verður líka aflýst. Það er aðallega áhugavert að fylgjast með hvenær það verður staðfest. Ég býst við að sjá einhverjar uppfærslur frá EasyJet við opnun skrifstofutíma í fyrramálið. Hefðu alveg mátt vera búin að þessu, samt. Ég meina, veðurspáin er þess eðlis að aflýsingar eru bara formsatriði.

Allavega. Hér sit ég, tilneyddur til að hanga í útlöndum, láta mér leiðast á kaffihúsum og í bókabúðum, skrifa og lesa og borða góðan mat á víxl með uppáhalds manneskjunni minni. Aumingja ég.

Farið varlega í veðrinu heima á morgun. Og plís, einhver að gefa kettinum mínum að borða.

Þar til næst.