Kæra dagbók,
fluginu okkar var frestað fyrir rest. Við eigum flug heim á morgun, þegar fárviðrið á að vera gengið yfir heima. Ókei, gott mál. Hérna megin við Færeyjar hefur verið smá vindur í dag, stöku regndropar en annars ekkert stórmál. Við fórum aftur í bæinn í dag, versluðum meira án þess að ætla okkur það (ég keypti aðra peysu, það þarf einhver að stoppa mig áður en ég fer mér að voða) og gekk fleiri kílómetra. Þetta var góður dagur.
Annars sat ég á heimspekistaðnum mínum í dag. Lítill leðurstóll fyrir eiginmenn fyrir framan mátunarklefana í Marks & Spencer (og aftur í John Lewis). Þar las ég rosalega hjartnæma grein um par sem kynntist í Auschwitz, tókst að bæði lifa af og eiga í leynilegu ástarsambandi innan girðinga útrýmingarbúðanna í nokkur ár, týndu hvort öðru þegar stríðinu lauk og fangarnir voru frelsaðir, hittust svo áratugum síðar í New York, þá bæði orðin bandarískir ríkisborgarar. Ótrúleg grein, og er ég las hana hvarf ég inn í símann minn og ferðaðist aftur í tímann og yfir meginlandið, alla leið inn að kjarna ástarinnar og mannsandans. Þangað fór ég á meðan konur stóðu fyrir framan mig í biðröð eftir að skoða sjálfar sig í speglum þröngra mátunarklefa.
Ég veit ekki af hverju (jú, ég veit það alveg, en samt) ég lendi alltaf í einhverri tilvistarkreppu fyrir utan mátunarklefa. Þannig er það nú samt. Mér er sérstaklega minnisstætt eitt skiptið í júní þegar ég sat fyrir framan mátunarklefa á fjórðu hæð í H&M í Mílanó á laugardagskvöldi. Þá horfði ég niður í gegnum gler á hæðirnar fyrir neðan, og fimmtu hæðina fyrir ofan, og grófreiknaði hversu margir væru staddir inni í versluninni á þeirri stundu. Mig minnir að ég hafi fært ágætis rök fyrir að það væru svona 250 manns þarna inni, sem var bæði miklu fjölmennara en ég hefði haldið fyrir fram og mjög rökrétt svona þegar maður spáir í það. Í framhaldi af því íhugaði ég eðli tískufatnaðar svona almennt, og svo minnir mig að ég hafi í huganum formað með mér drög að smásögu um konu sem handsmíðar allar afmælis- og jólagjafir fyrir sína nánustu, ótrúlega flottar viðarfígúrur klæddar sérsaumuðum fötum, klárlega þær gjafir sem eru mest útpældar, hafa kostað mesta fyrirhöfn og vekja mestu vonbrigðin hjá hverju barninu á fætur öðru, þar sem þau þakka skrýtnu frænkunni fyrir “gjöfina” og kasta henni svo frá sér um leið og næsti Disney-kassi kemur í ljós.
Ég þarf að finna hvar ég skráði drögin að þessari sögu hjá mér. Þetta var efnilegt.
Svona enda verslunarferðir okkar ansi oft. Ég versla fyrir mig, í algjörri afneitun um eigin andúð á neysluhyggju samtímafólks af því að ég get aldrei átt nægilega margar peysuuuuuuur en svo, um leið og ég sest niður og kúpla úr gír í hlutlausan svífur öll rökhugsunin á mig og mér sortnar fyrir augum.
Kannski er bara gott að við fljúgum heim á morgun. Ég er búinn að vera mátulega lengi í þessu jólaþorpi að versla og njóta. Annars endar þetta með ósköpum (lesist: fleiri peysur og svo djúp örvænting fyrir framan mátunarklefa að ég missi varanlega takið á raunveruleikanum).
Þar til næst.