Kæri lesandi,
flugið heim fór vel. Púkinn í mér vonaðist hálfvegis eftir smá hristingi og látum en úr því varð ekki, vélin leið áfram eins og á rennibraut, upp og niður án atvika. Þetta voru kannski ekki vonbrigði, en ákveðið spennufall. Við misstum þá alveg af óveðrinu.
Það er best að skila bókhaldi ferðarinnar bara strax til föðurhúsanna. Ég lét aldeilis reyna á nýlega-fyrrverandi-brotna fótinn í þessari ferð. Tölurnar skiptast sem hér segir:
- Laugardagur: 10.338 skref, 7,7 km
- Sunnudagur: 16.640 skref, 12,2 km
- Mánudagur: 17.682 skref, 12,8 km
- Þriðjudagur: 14.468 skref, 10,7 km
- Miðvikudagur: 12.868 skref, 9,6 km
Dagurinn í dag var sem sagt sá eini á erlendri grundu þar sem ég gekk ekki tíu kílómetra eða meira, og það er einungis vegna þess að ég settist upp í flugvél um fjögurleytið og hef verið upptekinn við að knúsa dætur mínar og kisuna í kvöld.
Það er skemmst frá því að segja að sú tilraun sem ég stóð fyrir í þessari ferð heppnaðist fullkomlega. Ég var orðinn ansi þreyttur í hælnum sérstaklega þegar leið á bæði mánudag og þriðjudag, en annars stóðst fóturinn fullkomlega álagið. Edinborg er líka þannig borg að eðlisfari að þú ert annað hvort að labba upp á móti eða niður, sem var ekki alltaf þægilegt (sérstaklega ekki á blautum hellum, ég er steinhissa á að hafa aldrei runnið til) en fóturinn stóð sig glæsilega. Ég hef formlega ekki lengur áhyggjur af ristarbeininu, sé enda enga ástæðu til því ef löppin þoldi þetta álag þá er fátt sem ætti að aftra mér hér heima.
Annars átti ég samtal við vin minn hér heima í morgun. Sá var ekki alveg sáttur við óveðrið, talaði um svikalogn. Það fannst mér frábært orð.
Við þekkjum öll klisjuna um að mæður séu genatískt hannaðar til að elska börn sín, að með þeim hætti tryggi náttúran að við étum ekki afkvæmi okkar við fyrstu harðindi. Ég er með aðra náskylda kenningu; það er okkur (flestum) eðlislægt að finnast best að vera heima hjá okkur. Þannig tryggjum við ekki aðeins að ferðalög séu í fámæli heldur einnig að samfélög þrífist og dafni. Af því að það er hægt að treysta á að Við erum ekki sífellt á faraldsfæti.
Þetta hvarflaði að mér í kvöld þegar ég steig inn úr dyrunum heima og leið í alvöru eins og ég væri að koma heim úr fimmtán mánaða heimsreisu. Þetta gerist líka í hvert sinn, jafnvel þótt ég hoppi bara frá í 1-2 sólarhringa er alltaf eins og ég hafi varla séð heimilið öldum saman þegar ég sný aftur, slíkur er feginleikinn.
Svo hristi ég þessar pælingar af mér og faðmaði börnin mín. Svo fór ég beint út að hita bílinn minn og skafa gaddfreðna snjóhuluna af honum til að komast í vinnu í fyrramálið. Svona er hann, kallinn, húsbóndinn, fyrirvinnan, hvunndagshetjan. Ætíð að hugsa fram í tímann. Næsta verkefni!
Höfum þetta lokaorðin í bili. Ég punktaði ýmislegt hjá mér yfir helgina og læt kannski eitthvað af því flakka á bloggið næstu daga (á meðan gáfulegustu pælingarnar fara væntanlega í virðulegri skjöl). Ég þakka fyrir mig og kveð Edinborg með myndinni hér að ofan af bókabúðinni Topping & Company Bookseller sem var við hliðina á hótelinu okkar. Þetta er ein sérstæðasta og skemmtilegasta bókabúð sem ég hef komið í, ég fór daglega þangað inn í ferðinni og keypti næstum því bók í hvert skipti. Hún selur einnig óvenjulega mikið magn af innbundnum bókum árituðum af höfundum, sem segir mér að þessi bókabúð er eins konar miðpunktur rithöfunda sem heimsækja Edinborg. Ég mun klárlega versla í þessari bókabúð aftur.
Þar til næst.