Kæri lesandi,

hugsanirnar þjóta um höfuð mér. Ég næ ekki haldfestu á neitt eitt til að skrifa um. Ég er í hálfgerðu kvíðakasti, að mér sækir slíkur taugatrekkingur að ég get varla andað, ég er með hausverk og sé varla skýrt.

Það er ekkert að mér, persónulega. Ég er að horfa á kosninganiðurstöðurnar í Bretlandi. Og ég bæði trúi ekki því sem ég sé, og trúi því allt of vel. Því miður. Og mér fallast hendur, og ég næ ekki haldfestu á hugsanir mínar. Það er svo margt sem mann langar til að segja á svona stundum en maður kemur því aldrei í orð fyrr en löngu eftir á.

Þegar ég var yngri voru kosninganætur eitthvað sem fullorðna fólkið hélt partý yfir. Foreldrar mínir buðu fólki í heimsókn, settu snakk og áfengi á borðið, pöntuðu pítsu. Við krakkarnir lékum okkur inni í herbergi og sofnuðum saman á dýnum. „Á morgun er nýr dagur,“ sagði fólkið, fullt af bjartsýni. Jafnvel ósigur var eitthvað sem mátti kyngja því það versta sem gat gerst var að skattar hækkuðu eða lækkuðu þvert um geð kjósenda, eða kannski að hann þarna þessi eða hin sem enginn þolir yrði ráðherra.

Í dag? Í dag er eins og heimsendir sé í nánd við hverja kosningu. Og það eru ekki einu sinni svo miklar ýkjur. Vestrænt samfélag stefnir hraðbyri niður í einhverja popúlíska kanínuholu sem á eftir að enda með ósköpum fyrir marga.

Bretland kaus Brexit aftur í dag. Íhaldið hefur hreinan meirihluta, andstæðingar Brexit bíða sögulegt afhroð. Ekkert mun stöðva Brexit úr þessu, sem er ekki einkamál Breta því það veikir evrópska samstöðu sem styrkir Rússa og Bandaríkjamenn og Kínverja. Og á næsta ári kjósa Bandaríkjamenn Trump aftur. Og svo verður Sigmundur Davíð næsti forsætisráðherra Íslands … aftur. Af því að okkur, sem kosningablokk, er ekki sjálfrátt.

Og maður getur ekkert gert annað en að loka augunum, enda veröldin fyrir löngu síðan runnin saman í eina, óskýra hreyfimynd sem gerir okkur bara flökurt.

Þar til næst.