Kæri lesandi,

í dag er föstudagurinn þrettándi. Ég spyr, einfaldlega, er til nokkurs að fara fram úr á föstudeginum þrettánda? Til hvers að reyna yfir höfuð? Eru ekki allar okkar athafnir dæmdar til að mistakast á föstudeginum þrettánda?

Það kemur í ljós.

Ég hef verið að enda færslur mínar á orðunum „þar til næst“. Í morgun, er ég keyrði suður í Sandgerði undir fullu tungli og dáðist að hálfupplýstu landslaginu (takk, tungl) hvarflaði að mér að einn daginn ætti ég eftir að skrifa „þar til næst“ og svo aldrei skrifa hér inn aftur. Ég gæti haldið þessari vefsíðu úti og skrifað daglega í fimmtíu ár, og svo ekki vaknað einn morguninn og dyggir lesendur síðunnar myndu bíða og bíða í örvæntingu eftir næstu færslu.

Það væri ekki fallega gert af mér. Þannig að ég ætla að endurhugsa þetta aðeins, finna betri kveðju. Eitthvað hnyttið en um leið ekki jafn skuldbindandi.


Í gærkvöldi röflaði ég aðeins hér á síðunni. Svo leið mér illa yfir því að hafa röflað hér á síðunni. Ég skammaði sjálfan mig, hristi af mér slenið, fór brosandi upp í rúm að sofa. Ég var alveg að sofna, orðinn nokkuð dús við lífið á ný þrátt fyrir stjórnmálaástandið, þegar ég mundi að fullt af fólki þarna úti hefur ekki efni á að hrista af sér ömurlegar stjórnmálakosningar. Ég er svoddan forréttindapési. Þannig að nú er ég aftur röflandi og við hefur bæst að ég er með samviskubit yfir því að hafa þóst geta lifað með þessu öllu saman. Ástandinu. En white male privilege af mér.

Á brautinni í morgun, eftir að ég hugsaði um kveðjuna mína, fór ég svo að pæla í því hvaða stefnu þessi síða gæti tekið. Hvernig munu færslurnar mínar líta út eftir hálft ár, eða ár, eða tíu? Fólk gæti litið yfir síðuna og sagt eitthvað eins og, „já hann byrjaði voðalega vel, skrifaði um skáldskapinn sinn og pældi voða mikið í Spotify og svona, en svo komu þarna kosningarnar í Bretlandi 2019 og hann fór gjörsamlega yfir um.“ Eða kannski myndi það segja, „Jesús, María og Jósef, þegar hann var að skrifa um uppáhalds glæpasögurnar sínar í upphafi síðunnar grunaði mig aldrei að hann ætti eftir að herma eftir þeim. Ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að lesa origin story okkar eigin ofurskúrks.“ Eða kannski segir það, „veistu, hann var einu sinni svo skemmtilegur, en sjáðu hann núna. Ekkert nema röfl. Þetta byrjaði þarna um árið á kosningavökunni í Bretlandi, síðan þá hefur hann verið á hornum sér með allt saman.“

Það væri svolítið nett, samt. Byrja þessa síðu nokkuð þægilega og skemmtilega og láta hana þróast út í algjört raus. Eins og dagbækur John Doe í myndinni Seven. „Í dag bauð kona mér góðan daginn í lestinni. Mér fannst hún svo ógeðsleg að ég fór að hlæja, og svo ældi ég yfir hana.“ Ég væri svolítið til í þannig færslur hér inn. Kannski næ ég einhvern tímann slíkum hæðum í skrifum mínum. Maður má láta sig dreyma.


Helgin nálgast. Ég sit á skrifstofunni og sötra seyðið svarta, strýk mér um höfuðleðrið og nýt þess að vera til, svona eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Les fréttir, geri stuttan gátlista yfir það sem ég ætla að koma í verk í dag, skoða events fyrir helgina og kíki á hvort einhver þeirra skarast við þá íþróttaviðburði sem mig langar að sjá í beinni. Íhuga hvort ég eigi að tippa á ensku deildina þessa helgina, veðja á úrslitin í bardaganum eða NFL-deildina. Spyr mig hvort ég vilji fá mér vatn eða meira af svarta seyðinu þegar þessum bolla er lokið. Fyrir neðan gluggann hjá mér, á planinu hér í Sandgerði, situr bíll og mallar í hægagangi. Annars ríkir þögnin, aðeins smellirnir í lyklaborðinu undir fingrum mínum gefa til kynna að hér sé líf. Kannski er ekki öll von úti eftir allt saman.

Þar til næst?