Kæra dagbók,

eldri dóttir mín hefur verið að fræðast um sólkerfið okkar og tunglferðir Bandaríkjamanna síðustu daga. Og fyrir vikið hefur hún dælt spurningum á okkur foreldrana. Ég ákvað að virkja þennan áhuga og í kvöld horfðum við á Contact, mynd Robert Zemeckis sem byggð er á samnefndri skáldsögu eftir Carl Sagan.

Myndin er náttúrulega frábær, ein af mínum uppáhalds. Sem slík skilaði hún góðum árangri í áhorfi, það er að dóttir mín var mjög hrifin líka. En henni mistókst sitt helsta verkefni, sem var að svara spurningum dóttur minnar. Hún hafði miklu fleiri spurningar að áhorfi loknu, svo margar að hún ætlaði varla að gefa sér tíma til að fara í háttinn, og það með jólasveininn á næstu grösum og tóman dansskó úti í glugga sem þarf að huga að.

En, hún fór að sofa fyrir rest. Og ég fór að spyrja mig, af hverju hef ég aldrei lesið Contact eftir Carl Sagan? Og ég ákvað eiginlega að lesa bókina fljótlega. Nógu oft hef ég haft gaman af myndinni, það gefur augaleið að bókin eigi erindi á náttborðið mitt. Bæti úr þessu.


Svo, þegar báðar dætur mínar voru farnar að sofa, horfði ég á síðasta þáttinn af The Confession Killer, fimm þátta röð um ólíkindatólið Henry Lee Lucas á Netflix. Ef þú þekkir sögu hans ekki, kæri lesandi, ætla ég ekki að spilla henni fyrir þér. Látum nægja að segja að HLL var einn alræmdasti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna, en ekkert er sem sýnist þegar hann var annars vegar.

Þessir þættir eru náttúrulega bilun frá upphafi til enda. Það er varla hægt að skálda svona rugl. Enda er lítið sem ekkert af þessu skáldað. En ég mæli með þáttunum, þetta er öðruvísi saga en flestar raðmorðingjasögur sem maður hefur innbyrt.


Carl Sagan vildi segja sögur af alheiminum til að minna okkur á mikilvægi þess að við áttuðum okkur á að það dýrmætasta sem við eigum er hvort annað. Það eru falleg skilaboð. Nema ef manneskjan sem er þér dýrmæt er einhver eins og Henry Lee Lucas, býst ég við. Litla ruglið.

Þar til næst.