Kæri lesandi,

fyrir rúmri viku fékk ég í pósti heim til mín pakka sem ég hafði lengi hlakkað til. Svo stökk ég til útlanda í nokkra daga og það hefur verið nóg að gera síðan ég kom heim þannig að ég hef ekki alveg getað gefið mér tíma til að skoða pakkann nánar, en nú er loks komið að því.

Þetta er sem sagt Wordsmith-spilastokkur frá Bestself Co. Ég rak augun í þetta í auglýsingu á Instagram (þær virka sem sagt) og mér fannst þessi stokkur svo sniðugur að ég pantaði strax eintak. Í spilastokknum eru 150 spil í sex flokkum. Hvert spil inniheldur spurningu sem er til þess hönnuð að gefa þér eitthvað umhugsunarefni. Í umsögnum um stokkinn sá ég til dæmis einn sem sagðist draga spil og fara strax í göngutúr á eftir, hugsa um spurninguna í spilinu, koma svo heim og byrja að mála. Annar notar spilin sem eins konar ‘writing prompt’ og setur fingur beint á lyklaborðið að spili dregnu.

Ég er ekki alveg búinn að forma með mér hvernig ég ætla að nota stokkinn. Vissulega var ég í skrifteppu í vor og sumar, og stokkurinn er meðal annars auglýstur sem góð lausn við slíkri teppu, en síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og ég er að vinna í handritum í fleirtölu og mér finnst ólíklegt að ég þurfi hjálp á því sviði á næstunni. Ég þarf aðeins að hugsa betur hvernig nákvæmlega ég nota stokkinn en ég get allavega notað hann sem smá hugarleikfimi fyrir þessa vefsíðu. Hnyklað skrifvöðvana, þannig séð.

Þannig að í kvöld dró ég fyrsta spjald, úr flokknum ‘Random’. Þar var einfaldlega spurt: Hvaða skoðanir hefur þú á frægð og celeb kúltúr?

Þetta er náttúrulega svo hlaðin spurning að það hálfa væri nóg. Í fyrsta lagi er ekki hægt að skilja að frægð og menningu almennt svo vel sé. Frægð er og hefur alltaf verið hluti af menningu. Eins lengi og fólk hefur verið að ná árangri og/eða skara fram úr í einhverju hefur það hlotið einhvers konar frægð fyrir verk sín. Sókrates varð ráðamönnum í Aþenu þrándur í götu af því að hann stóð á torgi og véfengdi ríkjandi viðhorf með góðum árangri. Frægð hefur þannig oft getað gegnt því hlutverki að hjálpa fólki að hleypa upp norminu, breyta status quo, knýja á framfarir og þróun. Slík frægð er jafngömul mannkyninu og við erum enn að sjá birtingarmyndir þess, til dæmis í upphefð þeirra kvenna sem hafa skilað skömminni til nafntogaðra gerenda í #meToo-byltingunni.

Frægð á sér þar af leiðandi klárlega jákvæðar birtingarmyndir og bæði getur og hefur oft verið notað sem tæki til jákvæðra breytinga og framfara í samfélagi mannanna.

Að sama skapi hefur frægð oft verið nátengd öfund. Fólk sem öðlast frægð hefur í gegnum tíðina að jafnaði náð slíkri stöðu vegna þess að það skarar fram úr í einhverju, sem er vel við unandi. En um leið og samfélagið hefur hafið slíkt fólk til himnanna hefur sama samfélag aldrei hikað þegar færi gefst á að rífa slíkar hetjur niður. Sjá: Britney Spears, fyrir gott dæmi. Það er eitthvað í okkur sem heild að við þolum oft mjög illa að sjá einhverja skara fram úr, líður betur þegar viðkomandi eru afhjúpaðir og reynast bara vera mannlegar verur eins og við hin. Nýju fötin keisarans og allt það. Þetta getur auðvitað orðið ljótur leikur oft á tíðum, skollaleikur sem getur af sér margs konar undirmyndir sem eru ljótari en flest sem gengur og gerist, en þetta er hluti af því líka.

Það versta við þetta er kannski sú tilhugsun að ef þú skarar fram úr í einhverju þá hafirðu ekki val um að skara fram úr og njóta ávaxtanna án þess að þurfa að þola neikvæðu þætti frægðarinnar með. Sú tilhugsun að íþróttamenn geti til dæmis aldrei gengið einir um götur heimalands síns aftur, af því að þau voguðu sér að vera góð í að sparka í bolta eða slá kúlu, er bæði skrítin og illásættanleg. Við höfum því miður séð allt of margar sögur af framúrskarandi hæfileikafólki enda með ósköpum, af því að þetta frábæra fólk gat einfaldlega ekki höndlað fylgifiska frægðarinnar.

Frægðarmenning er svo annar hlutur sem ég leyfi mér að hafa hið mesta óþol fyrir. Einu sinni var ég spurður hvað ég myndi gera ef ég hitti eina af hetjunum mínum. Ég átti erfitt með að svara, af ýmsum ástæðum. Fyrst, af því að það kom mér á óvart að átta mig á að ég á mér ekki margar hetjur. Ég held með fótboltaliðinu mínu án þess að setja leikmenn þess á einhvern stall (sér í lagi utan vallar), ég hef dýrkað tónlistarfólk jafnvel þótt það hafi verið háværar sögur um að sumt þeirra séu algjörir asnar, og svo framvegis. Allir rithöfundarnir sem ég hef dáðst að í gegnum tíðina og eru margir hverjir meingallaðir.

Hvað myndi ég gera ef ég hitti Diego Maradona, sem var magnaður íþróttamaður en ég er nokkuð viss um að sé algjörlega farinn sem persóna í dag? Myndi ég vilja eiga orðastað við F. Scott Fitzgerald, sem drakk frá sér allt vit á milli þess sem hann skrifaði bækurnar sem ég hef lesið svo oft? Teldi ég einhverjar líkur á að fundur með meðlimum Radiohead myndi enda vel?

Ég áttaði mig í kjölfarið á þessari spurningu á því að ég hefði í raun mjög lítið við hitting með hetjum mínum að gera, af þeirri einföldu ástæðu að mér hættir til að halda upp á fólk sem er líklegra til að þola illa einhverja áhangendur en ella. Ef hæfileikamanneskja vill vera hetjan mín þá er hún ekki hetjan mín. Annað við frægðina er að það er nánast engin leið til að hitta hetjurnar sínar nema við nær ómögulegar aðstæður, eins mikinn ójöfnuð og hægt er að ímynda sér. Ímyndum okkur til dæmis að ég kæmi að bíl með sprungið dekk uppi á hálendi, og bílstjórinn reyndist vera Thom Yorke. Hann væri mér þakklátur fyrir að stoppa fyrir sér, taka hann upp í og skutla honum á næsta verkstæði. Við sætum saman í bílnum í hálftíma og þótt hann vissi alveg að ég veit hver hann er gætum við samt átt góðar samræður um bara eitthvað, eiginlega eins og jafningjar. Það væru samræður sem ég væri til í að eiga með Thom Yorke.

Þannig er það samt aldrei. Nær undantekningarlaust, í öllum útgáfum af hittingi mínum og Thom Yorke, væri ég að hitta hann sem nafnlaus aðdáandi hans, einhver sem nálgast hann úti á götu eða baksviðs eða í flugvél, einhvers staðar þar sem ég get lítið annað gert en þakkað honum fyrir tónlistina sem hefur stytt mér stundirnar í gegnum árin, kannski beðið um mynd með honum eða áritun (sem ég myndi aldrei gera, skil ekki eiginhandaráritanir) og svo væri það búið. Hann myndi aldrei hleypa mér inn fyrir sína varnarmúra við slíkar aðstæður, ekki á sama hátt og hann myndi kannski gera ef ég tæki hann upp í bílinn og reddaði honum með sprungna dekkið.

Þess vegna hef ég aldrei skilið frægðarmenningu. Það er, frá sjónarhorni okkar sem sjáum um að dýrka, frekar en þau sem eru dýrkuð. Til hvers að upphefja manneskjur sem munu margar hverjar valda þér vonbrigðum? Til dæmis hef ég haft verk rapparans Kendrick Lamar á heilanum í nokkur ár núna, nær allt sem hann snertir verður að gulli að því er virðist, en mér dettur samt ekki í hug að ímynda mér að maðurinn á bak við hetjuna sé neitt annað en venjuleg manneskja. Ég myndi ekki vilja hitta hann á götum úti, eða sitja fastur við hlið hans í flugvél, eða komast baksviðs á tónleikum hans. Ég hefði ekkert upp úr því nema möguleg vonbrigði ef hann reyndist vera það sem hann nær örugglega er, mannlegur.

Ég segi, leyfum fólki að skara fram úr. Ef því verður á, rífum það ekki niður heldur minnum okkur á að þetta eru bara manneskjur eins og við. Og sleppum því að setja manneskjurnar á stall, leyfum því að eiga sitt líf í friði og látum okkur nægja að dást að verkum þeirra. Mér liggur alltént ekkert á að vita hvern Thom Yorke er að deita, í hvernig fötum Marlon James gengur eða hvaða stjórnmálaskoðanir Steven Gerrard hefur. Mér gæti eiginlega ekki verið meira sama. En ef Yorke stígur á svið, ef James gefur út bók eða ef Gerrard reimar á sig takkaskóna, þá hef ég brennandi áhuga. Og sá áhugi er, vill ég meina, heilbrigður. Af því að ég reyni að sneiða hjá frægðinni sem tilefni til upphafningar á eigin forsendum.

Þar til næst.