Kæri lesandi,
ég er búinn að skrifa alveg óheyrilega mikið síðustu daga. Það er eiginlega með ólíkindum. Ég meina, auk þess að vinna í fleiri en einu og fleiri en tveimur handritum á sama tíma (sem er bæði hressandi og ekkert sérstaklega góð hugmynd, en ég býst við að setja allt nema eitt handrit á pásu mjög fljótlega) hef ég verið að skrifa daglega hér inn, vélrita óvenju marga tölvupósta (bæði vinnu- og persónutengda) og ofan á það allt hef ég meðal annars verið að hraðrita inn nokkur skjöl til lögfestingar í vinnunni.
Mér er illt í puttunum.
Í gærkvöldi varð mér hugsað til allra blogganna sem ég hef haldið úti í gegnum tíðina. Fyrir utan árin fjórtán sem ég skrifaði ósköpin öll inn á Kop.is þá hef ég örugglega haldið úti svona tíu bloggum á sama tíma fyrir mín persónulegu skrif. Það er auðvitað mikið klúður að hafa ekki náð að halda þessum skrifum á einum vettvangi frá byrjun. Ég gæfi ansi mikið fyrir að eiga eitt blogg á einu léni þar sem ég gæti flett upp öllu sem ég hef skrifað síðan árið 1999 eða hvenær sem það var sem ég byrjaði. Það væri geggjað, en því miður er meirihluti allra þessara bloggfærslna týndur að eilífu. Og annar stór hluti af þessu situr í backup-skjölum á einhverjum minnisbanka ofan í skúffu heima. Ég mun alltént aldrei fletta í þessu aftur eða lesa þetta.
Maður spyr sig í kjölfarið, hvernig ætli sagnfræðingar muni skrásetja þá tíma sem við höfum lifað frá aldamótum? Hver ætlar að fara í gegnum öll tíst fyrsta Twitter-forsetans í Bandaríkjunum, þarna appelsínugula gaursins, og reyna að finna í þeim eitthvað sem vert er að minnast á í ævisögu mannsins? Ef einhver bloggapinn myndi nú vinna t.d. Nóbel eða breyta heiminum með uppfinningu sinni, hver ætli myndi taka að sér að lesa í gegnum allar bloggfærslurnar til að finna heimildir úr lífi viðkomandi?
Ég stofnaði þessa bloggsíðu í fyrra, meira sem eins konar ‘placeholder’ fyrir sjálfan mig ef ég skyldi einhvern tíma ákveða að fara af stað aftur. Það gerðist svo einu og hálfu ári síðar, í lok október í ár eða fyrir 50 dögum. Þetta er 48. bloggfærslan á þessum 50 dögum, ég bloggaði einu sinni tvisvar sama daginn þannig að ég hef bloggað í 47 af 50 dögum, aðeins misst úr þrisvar (og tveir af þeim dögum voru vegna skæðrar flensu sem lagði mig yfir helgi). Ég hef skrifað 28 þúsund orð í þessar færslur, um einhver 130 umfjöllunarefni. Þetta er slatti, mikill slatti.
Mér líður vel með þetta. Síðast þegar ég prófaði að blogga, fyrir að verða þremur árum, náði ég að blogga einhverja 40 daga í röð og svo bara hætti ég. Ég man ekkert núna af hverju ég hætti, sennilega fannst mér þetta of erfitt eða krefjandi, en í þetta sinn ákvað ég að nálgast þetta öðruvísi. Ég hef ekki sagt nema 2-3 manneskjum frá þessari síðu, og ég sé á tölfræðinni að þau lesa hana varla nema af og til. Mér líkar ágætlega að vera bara að tala út í tómið hérna, það gefur mér ákveðið frelsi, sem og ákvörðun mín að halda nafni mínu alfarið utan við síðuna (ekki svo að skilja að ég sé að fela mig, það er augljóst hver ég er ef þú þekkir mig, en ég er a.m.k. ekki að auðvelda leitarvélum og/eða forvitnum gúglurum verkið).
Mér líður vel eftir þessa fimmtíu daga. Það er gott að koma hugsunum í orð, daglega, og það er að hjálpa mér að sjá hlutina skýrar á ýmsa vegu, í lífi, leik og starfi. Og það sem er kannski mikilvægast af þessu öllu er að ég er farinn að skrifa meira. Þetta var upphaflega hugsað til að koma mér í gang á ný, og það tókst heldur betur.
Að blogga daglega þýðir að ég skrifa daglega. Ég þurfti á því að halda. Þetta hefur verið frábært. Takk fyrir mig.
Þar til næst.