Kæri lesandi,

nú er vika síðan við komum heim frá Edinborg. Tíminn líður hratt. Það kvöld tók ég saman skrefafjöldann á fimm daga ferðalagi og birti á blogginu. Alls mældi úrið mitt 71.996 skref á fimm dögum, eða að meðaltali 14.339,2 skref á dag. Þess að auki mældi úrið rösklega göngu okkar nokkrum sinnum sem „workout“ sem þýðir að í fyrsta sinn frá fótbroti náði ég 30 mínútna workout-markmiði dagsins fimm daga í röð. Því hafði ég kannski náð í alls fimm daga til samans frá fótbroti fram að utanlandsferð.

Það er hins vegar nauðsynlegt að halda sér við efnið. Veðrið hefur verið leiðinlegt, um helgina geisaði ofsakuldi og allt er á kafi í snjó og klaka sem gerði gönguferðir mjög erfiðar. Skrefafjöldinn hefur engu að síður verið ágætur, held ég. Við skulum gera upp síðustu sex daga, til samanburðar við þá fimm sem ég eyddi í útlöndum fyrir viku:

  • Föstudagur: 10.446 skref, 7,9 km
  • Laugardagur: 7.674 skref, 5,8 km
  • Sunnudagur: 8.940 skref, 6,7 km
  • Mánudagur: 4.296 skref, 3,1 km
  • Þriðjudagur: 4.182 skref, 3,0 km
  • Miðvikudagur: 5.618 skref, 4,1 km

Þetta eru alls 41.156 skref á sex dögum, rétt rúmlega helmingur þess sem ég gekk á fimm dögum í Edinborg, eða 6.859,33 skref að meðaltali á dag, samanborið við 14 þúsund skrefin að meðaltali í Skotlandi.

Þarna sé ég strax að það munar um vinnuna. Ég sest upp í bíl, keyri út í Sandgerði, sit í skrifstofustól mestallan daginn, keyri heim og er þreyttur. Ég var mjög duglegur að fara í göngutúra og slíkt og halda mér í svona 7-9 þúsund skrefum á dag alla daga fram að Edinborg, en eftir utanlandsferðina hef ég leyft mér kyrrsetu vegna meintrar síþreytu (nætursvefninn hefur verið í rugli eftir frí, það er víst).

Þetta er samt ekki það versta. Á dögunum frá ferðalagi hefur úrið mælt 8, 8, 4, 6, 5 og 13 mínútur af „workout“-hreyfingu á dag. Ég er varla að ná þrjátíu mínútna daglega markmiðinu samanlagt í sex daga, hvað þá að meðaltali. Ég þarf fyrst og fremst að laga þetta og drullast í göngutúra, jafnvel þótt úti séu snjór og klaki og hér hafi orðið fótbrot.

Við sjáum mynd af desembermánuði. Skrefin eru rauði hringurinn yst, sá blái innst mælir hvort ég nái ekki örugglega að standa á fætur a.m.k. einu sinni á klukkustund í tólf eða fleiri klukkustundir yfir daginn, sem ég næ gjörsamlega alltaf, meira að segja þegar ég var með fótinn í gifsi. Miðjuhringurinn, sá græni, sýnir „workout“-mælingar og það er hann sem ég þarf að bæta.

Ég fer í myndatöku á fætinum í janúar og fæ þá vonandi grænt ljós á að fara að synda og mæta í ræktina. Ég hef ekki þráð líkamsrækt jafn heitt í lengri tíma og ég geri nú, enda finnst mér ég hafa koðnað niður í kyrrsetunni í haust. Það verður líka gott að komast í sund, mega nota fæturna sem blöðkur og ganga berfættur um sundlaugarbakkann á ný, sem hefur verið bannað hingað til.

En þangað til verð ég að vera duglegur að ganga. Stækka græna hringinn á hverjum degi, það er algjört möst. Öll þessi kyrrseta er til háborinnar skammar.


Í gær keypti ég tvo leikhúsmiða á Atómstöðina í Þjóðleikhúsinu í janúar. Sýningin er eftir þrjár vikur, sem hentar mér vel því þá nær maður að brjóta upp lengsta mánuð ársins strax með skemmtilegum viðburði. Svo hef ég ákveðið að rifja upp Atómstöðina, skáldsögu Halldórs Kiljan Laxness, áður en ég fer á uppfærslu barnabarns hans, Dóra DNA, í leikhúsinu. Nú þarf ég bara að finna mér eintak af bókinni. Ég átti eintak en virðist hafa týnt því.

Þar til næst.