Kæri lesandi,

í dag fór ég til læknis. Eins og lögmál náttúrunnar kveða á um hitti ég tvo menn sem ég þekki á biðstofu heilsugæslunnar. Þar komst ég að einu; fótbrot er fínasta kóver. Ég var ekki að hitta lækninn vegna fótbrotsins en báðir aðilar gerðu ráð fyrir því og ég leiðrétti það ekkert. Mjög þægilegt.

Af hverju er annars svona vandræðalegt að fara til læknis? Báðir urðu sauðslegir og reyndu að útskýra fyrir mér hvað þeir væru að gera, og ég var á móti feginn að þurfa ekki að útskýra gjörðir mínar í þetta skiptið. Eins og þrír leyni-holdsveikir einstaklingar, skíthræddir um útskúfun úr samfélagi mannanna ef upp kemst um þá.


Í kvöld fór ég með eldri dóttur minni í bíó. Ég var reiðubúinn fyrir nýjustu Stjörnustríðs-myndina en hún vildi fara á Jumanji í staðinn. Við skemmtum okkur vel, eins og oft með poppkornsmyndir er best að ofhugsa þær ekki og leyfa atriðunum bara að fljóta, hlæja með og dilla sér. Borða poppkorn. Svo gengum við út úr salnum klukkan að ganga tíu og áttuðum okkur á því að það voru allar búðir í Kringlunni enn opnar. Einhvers konar miðnæturopnun í gangi, sem er venjan svona kortéri fyrir jól. Og auðvitað dró dóttir mín, uppveðruð af sykurmagninu sem hún hafði innbyrt yfir myndinni, mig inn í fatabúð og ég gerði það sem allir linfiskar gera, keypti á hana tvær peysur til að koma henni út úr búðinni. Ég var búinn að minnast á það áður að ég ætti við peysuvandamál að stríða, en það er nýr flötur á fíkninni að ég skuli kaupa peysur í óhóflegu magni á aðra en sjálfan mig.

Ég gæti þurft að fara aftur til læknis á morgun, eða láta að öðrum kosti leggja mig inn til að fá meðferð við þessari fíkn. Það sér vart út um gluggana heima fyrir peysum!

Hafðu mig í hugsunum þínum, kæri lesandi.

Þar til næst.