Twenty foot high on Blackpool promenade.
Fake royalty, second hand sequin facade.
Limited face paint and dyed black quiff.
Overweight and out of date.

Manic Street Preachers
‘Elvis Impersonator/Blackpool Pier’

Kæri lesandi,

grínistinn Bill Hicks lést fyrir að verða 27 árum, langt um aldur fram. Hann sagðist fyrir dauða sinn vera að vinna að kvikmyndahandriti sem fjallaði um Elvis Presley. Sagan var þannig að Elvis dó ekki í raun og veru, en þegar hann ákvað eftir nokkur ár að koma úr felum trúði enginn að hann væri hinn eini, sanni Elvis Aaron Presley. Af hverju trúði því enginn? Jú, af því að Elvis var orðinn svo gamall og feitur undir það síðasta, svo ólíkur sjálfum sér, að hann leit eiginlega út eins og léleg eftirherma af sjálfum sér.

Líður okkur ekki öllum þannig, stundum?


Nú styttist í árslok og um leið lok áratugarins. Fyrir vikið hafa dunið á okkur úr öllum áttum uppgjörslistar, bæði fyrir það besta á árinu og það besta á áratugnum. Ég veit að ég er þegar búinn að gera upp spennubækur ársins og tónlist ársins á þessari síðu en það eru mínir listar, ég býst ekki við að þeir skipti þig jafn miklu máli og mig, kæri lesandi. Að því sögðu leyfi ég mér að tuða yfir því hversu mikið af þessum listum er í umferð. Ég veit að allir hafa rétt á að deila sínum listum, og ég veit að allir miðlar sem fjalla um dægurmál verða eiginlega að birta sína, en samt. Getum við ekki sammælst um að eitt dagblað, eitt tónlistarzín og kannski einn kvikmyndavefur taki þetta saman fyrir okkur? Þá væri kannski líka meira að marka þetta.


Jólabókaflóðið stendur yfir. Íslendingar lesa nýjar bækur, næstu dagana alltént áður en janúar rennur upp og meirihlutinn gleymir því að íslenskir rithöfundar séu til næstu tíu mánuðina. Ég var mjög duglegur að lesa flóðið jafnóðum og það skall á en nú sit ég hérna og les Halldór Kiljan Laxness. Hann er efnilegur, sá höfundur, ég ætti að lesa eitthvað meira eftir hann. (Djók. Ég hef lesið næstum því þriðjung af því sem HKL skrifaði. Játaði hann, skömmustulegur á svip.)

Ég er að lesa Atómstöðina, sem ég las einhvern tímann seint á unglingsárum en hef ekki hugsað um hana síðan, en nú þegar það eru nokkrir dagar í að ég fari á uppfærslu sögunnar á fjölum Þjóðleikhússins fannst mér við hæfi að rifja hana upp. Ég fór því glaðbeittur í Eymundsson í gær og ætlaði að grípa eintak, helst í kilju, til að bögglast með næstu daga. Það var ekki í boði. Eina eintakið sem hægt er að kaupa er viðhafnarútgáfa, innbundin, á litlar sjö þúsund krónur íslenskar. Ég stóð fyrir framan rekkann með Laxness-bókunum, veiddi snjallsímann upp úr vasanum og keypti Kindle-útgáfuna á fimmtán dollara. Svo byrjaði ég að lesa bókina í lófanum á leiðinni út úr búðinni.

Ég veit ekki hvað þetta segir um stöðu íslensks bókamarkaðar, en þetta segir allavega eitthvað. Ég hefði glaður borgað 3-4 þúsund krónur fyrir góða kilju. Sjö þúsund er allt of mikið fyrir sjötíu ára gamla bók, þótt hún sé eftir Nóbelsskáldið sjálft. Svona bók fer bara í pakkana hjá útskriftarnemum eða eitthvað. Er „markaðurinn“ ekki að skjóta sig í fótinn með því að verðleggja gamlar bækur svona? Spyr sá sem ekki veit, en veltir oft vöngum.

Nema hvað, kemur á daginn að HKL er prýðisgóður penni. Ég er hálfnaður með bókina, las vel í henni í gærkvöldi og aftur eftir vinnu í dag. Hún er hraðlesin, fyndin og áhugaverð þótt ekki fari mikið fyrir söguþræði. Ugla, sögumaður bókarinnar, finnst mér stundum frekar þunn gríma yfir augljósa rödd skáldsins sjálfs, en í gegnum hana kemur hann alls konar skemmtilegum pælingum á framfæri. Ég skemmti mér konunglega við lesturinn hingað til, minnist þess ekki að hafa verið svona hrifinn þegar ég las hana í fyrra skiptið.

Við sjáum dæmi:

Þetta er sem sagt skjáskot úr símanum mínum, af því að ég á ekki kilju til að lesa, undirstrikuð orð Uglu, sögumanns, og viðmælanda hennar, en í raun HKL sjálfs. Textinn er allur svona, lifandi og skemmtilegur og íhugull og áleitinn og gráglettinn. Mæli með þessum Halldóri Laxness.


Nú er gengin í garð jólahátíð. Ég fór heim úr vinnu í dag og býst ekki við að snúa aftur á skrifstofuna fyrr en á föstudag eftir viku. Vinn smá heima eftir helgina og á annan dag jóla, eða eftir þörfum, og ég ætla að reyna að koma skrifum við þar sem ég næ því, en að öðru leyti tilheyra næstu sex dagar fjölskyldunni. Á morgun þarf hjarta hússins að sinna árlegum skyldum og ég verð því einn með dæturnar. Við ætlum að þvo annan bílinn og fara í bæinn að klára gjafirnar til hjarta hússins. Ef ég sé hárkollu í stíl Elvis Presley ætla ég að kaupa hana. Fyrir sjálfan mig.

Þar til næst.