Kæra dagbók,
draumfarir mínar voru skrítnar síðustu nótt. Ég var á úti á götum einhverrar borgar í Bretlandi þegar ég rakst á forsætisráðherra konungsveldisins, Boris Johnson. Hann var í fylgd með myndavélum, var í beinni útsendingu á einhverri sjónvarpsstöðinni. Hann stoppaði mig og spurði hvernig mér líkaði við úrslit kosninganna og hvort ég vildi pósa á mynd með sér.
Ég hikaði ekki heldur hlóð rakleiðis í rosalega þrumuræðu á fullkominni ensku. Ég sagði forsætisráðherranum til syndanna, hann stóð bara þarna eins og þvara og gat ekkert sagt. Ég rústaði honum, og það í beinni! Loksins sá þjóð hans í gegnum þennan blábjána. Ég endaði þrumuræðu mína á að horfa beint í myndavélina og vitna í LCD Soundsystem. „Britain, I love you, but you’re bringing me down.“
Svo var eins og ég fengi vitið. Ég sneri baki við öllu sjónarspilinu og gekk á brott. Ákvað að hag mínum væri sennilega best borgið ef ég tæki næstu vél heim, áður en illa færi fyrir hinum umdeilda útlendingi sem lét forsætisráðherrann heyra’ða. Meira man ég ekki.
Í dag fór ég með yngri dóttur minni og við keyptum saman síðustu jólagjöfina. Gátlistinn er formlega tæmdur, fyrir utan smá tiltekt, en nú mega jólin bara koma eins og sagt er. Eftir skemmtilegan dag í bænum með þeirri yngri (fjölskyldan skipti liði í dag eins og gerist oft rétt fyrir jól) hittumst við á ný heima og horfðum á sjónvarp og dunduðum okkur saman. Mínir menn í Liverpool urðu heimsmeistarar félagsliða, í úrslitaleik sem fór fram í Katar og var svo illa dæmdur af heimamanni að maður hálf örvænti við tilhugsunina um hvernig þessi gjörspillta þjóð muni fara með HM landsliða eftir tvö og hálft ár. Þetta var svakalega lélegt. En, mínir menn unnu og það skipti mig mestu máli.
Börnin, pakkarnir, boltinn, fríið og Boris. Það stefnir í góð jól hérna megin. Hver ætli verði fyrir barðinu á mér þegar ég sofna í nótt?
Þar til næst.